Um mig

Þorvaldur Gylfason er prófessor emeritus í hagfræði í Háskóla Íslands. Hann er einnig rannsóknarfélagi við Hagfræðistofnun Háskólans í München (Center for Economic Studies, CESifo). Eftir hann liggja 24 bækur og um 300 ritgerðir og kaflar í erlendum og innlendum tímaritum og bókum auk nálega 1.200 blaðagreina og annarra smágreina og 140 sönglaga sem fer einnig fjölgandi. Að loknu doktorsprófi frá Princetonháskóla 1976 starfaði hann sem hagfræðingur í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington 1976-1981. Hann var rannsóknarfélagi við Alþjóðahagfræðistofnunina í Stokkhólmsháskóla 1978-1996, gistiprófessor í Princetonháskóla 1986-1988 og rannsóknarfélagi við Hagstjórnarfræðistofnunina (Centre for Economic Policy Research, CEPR) í London 1987-2009.

Meðal bóka hans eru Markaðsbúskapur (með öðrum, 1994), sem hefur komið út á sautján tungumálum, þar á meðal rússnesku og kínversku, og einnig ritgerðasöfnin Almannahagur (1990), Hagfræði, stjórnmál og menning (1991), Hagkvæmni og réttlæti (1993), Síðustu forvöð (1995), Viðskiptin efla alla dáð (1999), Framtíðin er annað land (2001), Tveir heimar (2005)* og Hreint borð (2012). Árin 1996-1997 leiddi hann fimm manna nefnd erlendra hagfræðinga, sem fengnir voru til að gera úttekt á efnahagslífi Svíþjóðar. Skýrsla nefndarinnar birtist á sænsku og ensku (The Swedish Model under Stress: A View from the Stands, 1997). Bók hans Principles of Economic Growth kom út 1999 hjá Oxford University Press. Sjónvarpsþáttaröð eftir handriti hans, Að byggja land, sem fjallar um hagstjórnarhugmyndasögu Íslendinga á 19. og 20. öld, var frumsýnd í Sjónvarpinu 1998 og kom þá einnig út á bók og bandi hjá Háskólaútgáfunni, var sýnd í færeyska sjónvarpinu 2005 og kom út á DVD-diski 2011.

Þorvaldur hefur starfað að rannsóknum, ráðgjöf og kennslu víða um lönd, meðal annars á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og einnig Fríverzlunarsamtaka Evrópu (EFTA), Evrópusambandsins, Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna. Hann var formaður stjórnar Kaupþings 1986-1990, hlutabréfasjóðsins Auðlindar 1990-1992 og Styrktarfélags Íslensku óperunnar 1988-1994, var kjörinn í framkvæmdastjórn Evrópska hagfræðingafélagsins (EEA) 1992-1996 og er heiðursfélagi þar og var ritstjóri European Economic Review 2002-2010 og situr í ritstjórnum nokkurra annarra alþjóðlegra hagfræðitímarita. Hann situr einnig í stjórn Söngskólans í Reykjavík. Hann skrifaði reglulega í Morgunblaðið 1985-2003, lagði vikuritinu Vísbendingu og Lesbók Morgunblaðsins einnig til efni með reglulegu millibili um langt árabil og Vísbendingu aftur nú, birti vikulegan dálk um daginn og veginn í Fréttablaðinu 2003-2011, í DV 2011-2015 og aftur í Fréttablaðinu 2015-2019 og hefur síðan birt dálka sína í Stundinni, nú Heimildinni, auk skrifa fyrir Vísbendingu, VoxSocial Europe og Project Syndicate. Hann var kjörinn á Stjórnlagaþing 2010 og tók skipun Alþingis í Stjórnlagaráð 2011.

Sönglagaflokkur hans Sautján sonnettur um heimspeki hjartans var fluttur í Hörpu í Reykjavík 2012 og 2013. Fjórtán laga flokkur hans Söngvar um svífandi fugla var fluttur í Salnum í Kópavogi 2014 og var kvikmynd af tónleikunum sýnd í RÚV 2020. Sjö sálmar voru fluttir í Langholtskirkju í Reykjavík 2014 og aftur í Guðríðarkirkju 2015. Fimm laga flokkur hans Fimm árstíðir var fluttur í Hannesarholti í Reykjavík í marz 2017 og var kvikmynd af tónleikunum sýnd í RÚV 2021. Sextán söngvar fyrir sópran og tenór voru fluttir einnig í Hannesarholti í nóvember 2017, Ítalska söngvabókin var flutt þar og einnig á þrem stöðum á Ítalíu í maí 2022. Lagaflokkurinn Sumarferðin var frumfluttur í Hörpu í nóvember 2022 og einn flokkur enn, Hann er eins og vorið, bíður frumflutnings í Hörpu 3. september 2023. Sönglög hans hafa birzt á prenti, m.a. í Svífandi fuglar (2019), Fimm árstíðir (2020), Ítalska söngvabókin (Il canzoniere italiano, 2021) og Íslenska söngvabókin (væntanleg 2023).

* Allar ritgerðir hans og greinar sem birzt hafa á íslenzku síðan Tveir heimar komu út 2005 eru aðgengilegar á þessu vefsetri.

Ferilskrá/ritaskrá (á ensku)

Ritaskrá

Af Vísindavefnum

Örstutt ágrip

Þorvaldur Gylfason er prófessor emeritus í hagfræði í Háskóla Íslands (frá 1983) og rannsóknarfélagi við CESifo (Center for Economic Studies) við Háskólann í München (frá 2000). Hann lauk doktorsprófi frá Princeton-háskóla 1976, var hagfræðingur í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) í Washington, DC, 1976-81, rannsóknarfélagi við IIES (Institute for Interntional Economic Studies) við Stokkhólmsháskóla 1978-96, gistiprófessor í Princeton-háskóla 1986-88, ritstjóri European Economic Review 2002-10 auk ráðgjafarstarfa fyrir margar alþjóðastofnanir. Eftir hann liggja um 300 birtar fræðigreinar og 24 bækur auk 1.200 blaðagreina og 140 sönglaga. Hann var einn af 25 fulltrúum í Stjórnlagaráði frá 1. apríl til 29. júlí 2011, kjörinn af þjóðinni og skipaður af Alþingi til að endurskoða stjórnarskrá Íslands.

 

Blaðamenn og aðrir biðja stundum um myndir, hér eru nokkrar.