Salurinn og RÚV
7. sep, 2014

Söngvar um svífandi fugla

Söngvar um svífandi fugla eru fjórtán sönglög eftir Þorvald Gylfason prófessor við ljóð eftir Kristján Hreinsson skáld og heimspeking. Lögin eru samin fyrir söngrödd, píanó og selló, og hefur Þórir Baldursson tónskáld útsett þau. Ljóðin og lögin eru óður til lífsins með tæran boðskap um fegurð heimsins og himinsins að leiðarljósi. Fimmtándi fuglasöngurinn, Sólskríkjan mín syngur, hefur nýlega bætzt í flokkinn. Lögin, þ.e. nóturnar, og kvæðin, einnig í enskri þýðingu, birtust á bók 2020.

Kristinn Sigmundsson bassi, Bryndís Halla Gylfadóttir selló og Jónas Ingimundarson píanó frumfluttu ljóðaflokkinn fyrir fullu húsi í Salnum í Kópavogi 7. september 2014 og aftur 14. september og síðan í Bergi á Dalvík 21. september. Skáldið flutti skýringar á undan hverju lagi og ljóði sem var varpað á vegg á bak við sviðið. Kvikmyndafélagið Í einni sæng tók tónleikana upp fyrir sjónvarp. Myndin var sýnd í ríkissjónvarpinu 16. marz 2020 og aftur 22. marz. Lokalagið Einn kafli var síðasta lag fyrir fréttir ríkisútvarpsins 6. nóvember 2019.

EFNISSKRÁ

 1. Í köldu myrkri
 2. Unaðsreiturinn
 3. Vorið brosir
 4. Erlan
 5. Vegur þagnar
 6. Í faðmi fugla
 7. Grátur Jarðar
 8. Fuglshjartað
 9. Dúfa
 10. Vals
 11. Spegill fuglanna
 12. Fuglar minninga
 13. Ég syng fyrir þig
 14. Einn kafli

Og hér er konsertinn eins og hann leggur sig: