Hann er eins og vorið
Tólf sönglög eftir Þorvald Gylfason við kvæði tólf skálda
Safn tólf sönglaga eftir Þorvald Gylfason við kvæði tólf skálda og þau eru Guðmundur Böðvarsson, Hulda, Hannes Pétursson, Einar Ólafur Sveinsson, Bragi Sigurjónsson, Anna Akhmatova, Hannes Hafstein, Valtýr Guðmundsson, Þorsteinn Gíslason, Vilmundur Gylfason, Kristján Karlsson og Hallgrímur Helgason. Átta laganna hafa birzt á prenti, þar af fimm sem kórlög. Sex laganna hafa áður verið flutt opinberlega, en hin munu heyrast hér í fyrsta sinn. Þórir Baldursson tónskáld hefur útsett tvö laganna.
Guðmundur Böðvarsson (1904-1974) var bóndi og skáld í Borgarfirði. Fyrsta ljóðabók hans var Kyssti mig sól (1936).
Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, 1881-1946) er þekktust fyrir þjóðhátíðarljóð sitt Hver á sér fegra föðurland sem vann til verðlauna í ljóðasamkeppni á lýðveldishátíðinni 1944.
Hannes Pétursson stóð á tvítugu þegar hann birti Bláir eru dalir þínir í Tímariti Máls og menningar 1951.
Einar Ólafur Sveinsson (1899-1984) birti ljóð í stúdentablöðum í æsku og aftur í ljóðabókinni EÓS. Ljóð (1968).
Bragi Sigurjónsson (1910-1995) alþingismaður og bankastjóri á Akureyri birti margar ljóðabækur, smásögur og fræðirit.
Anna Akhmatova (1889-1966) var eitt merkasta skáld Rússlands um sína daga, fædd í Ódessu í Úkraínu. Þýðandinn, Regína Stefnisdóttir (1935-), er hjúkrunarfræðingur í Reykjavík.
Hannes Hafstein (1861-1922), fyrsti ráðherrann, var meðal höfuðskálda landsins.
Valtýr Guðmundsson (1860-1928), alþingismaður og prófessor í Kaupmannahöfn, birti frumort kvæði í Eimreiðinni sem hann ritstýrði.
Þorsteinn Gíslason (1867-1938) var ritstjóri og skáld. Lykilskáldsaga hans, Tímamót, kom út 2020.
Vilmundur Gylfason (1948-1983) alþingismaður, blaðamaður og menntaskólakennari birti tvær ljóðabækur.
Kristján Karlsson (1922-2014) var bókmenntafræðingur að mennt, skáld og þýðandi og birti margar bækur.
Hallgrímur Helgason (1959-), aldursforseti ungu skáldanna, er heimsþekktur af leiftrandi skáldsögum sínum og er einnig leiftrandi og stórskemmtilegt ljóðskáld.
EFNISSKRÁ
1. Kyssti mig sól (Guðmundur Böðvarsson) – Lilja
2. Hestum var áð … (Guðmundur Böðvarsson) – Bjarni
3. Hver á sér fegra föðurland (Hulda) – Lilja
4. Bláir eru dalir þínir (Hannes Pétursson) – Bjarni
5. Er sem allt íslenzkt (Einar Ólafur Sveinsson) – Lilja
6. Ævintýri (Bragi Sigurjónsson) – Bjarni
7. Ekki land mitt (Anna Akhmatova) – Bjarni
8. Blessuð sólin elskar allt/Kveðja (Hannes Hafstein/Valtýr Guðmundsson) – Lilja og Bjarni
9. Fyrstu vordægur (Þorsteinn Gíslason) – Lilja og Bjarni
10. Hann er eins og vorið (Vilmundur Gylfason) – Lilja og Bjarni
11. Matthildur húsfreyja í Miðgerði (Kristján Karlsson) – Lilja og Bjarni
12. Egilsstaðir (Hallgrímur Helgason) – Lilja og Bjarni
_______
13. Blessuð sértu borgin mín (Þorvaldur Gylfason o.fl.) – Lilja og Bjarni
KYSSTI MIG SÓL
Kyssti mig sól og sagði:
Sérðu ekki hvað ég skín?
Gleymdu nú vetrargaddinum sára,
gleymdu honum, ástin mín.
Nú er ég átján ára.
Þá dunaði haustsins harpa
í hug mínum þungan slátt.
Því spurði ég: Geturðu gleymt þessum rómi,
sem glymur hér dag og nátt
og býr yfir dauðadómi?
Því blaðmjúkra birkiskóga
bíður lauffall og sorg,
og vorhuga þíns bíða vökunætur
í vetrarins hljóðu borg.
Við gluggana frosna þú grætur.
Þá hló hún inn í mitt hjarta,
hár mitt strauk hún og kvað:
Horfðu í augu mín, ef þú getur,
ástin mín, gerðu það –
og segðu svo: Það er vetur.
Þá sviku mig rökin, og síðan
syngur í huga mér
hinn hjúfrandi blær og hin hrynjandi bára,
hvar, ó, hvar sem ég fer:
Nú er hún átján ára.
Guðmundur Böðvarsson