Ýmis skjöl
Hér er að finna tvær álitsgerðir um þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem fram átti að fara um fjölmiðlafrumvarpið sumarið 2004 skv. stjórnarskránni, en var blásin af, aðra eftir starfshóp ríkisstjórnarinnar og hina eftir viðbragðshóp sérfræðinga á vegum Þjóðarhreyfingarinnar. Hér hef ég einnig haldið til haga tveim öðrum skjölum, sem ég hef skrifað undir að gefnu tilefni ásamt félögum mínum í Háskóla Íslands, og einu til viðbótar í fjölbreyttari félagsskap. Þá er hér að finna frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, sem Áhugahópur um auðlindir í almannaþágu lagði fram opinberlega árið 2000, en það gerðum við til að bregðast við áskorunum stjórnmálamanna, sem lýstu eftir nánari útfærslu á hugmyndum okkar um hagkvæmt og réttlátt fiskveiðistjórnarkerfi í krafti veiðigjalds. Þá er hér í enskri þýðingu merk ritgerð eftir endurskoðendurna Jón Þ. Hilmarsson og Stefán Svavarsson þar sem þeir lýsa því hvernig eignir voru búnar til úr engu í bókhaldi banka og annarra fármálastofnana fram að hruni. Loks er hér stutt grein á ensku um hrun Færeyja frá 1994.
Athugasemdir Reynis Axelssonar við ógildingarúrskurð Hæstaréttar um kosninguna til Stjórnlagaráðs 2011
Hér er merk söguleg heimild sem hvergi hefur birzt á prenti þótt mikilvæg sé. Meðal lokaorða Reynis eru þessi: „Eini raunverulegi og eini verulegi annmarkinn á kosningunni var að Hæstiréttur eyðilagði hana með ákvörðun sem hvílir á sannanlega röngum forsendum og byggist á hæpnum réttarheimildum.“
Áskorun til formanna stjórnmálaflokkanna
Fyrsta skjalið er frá árinu 1993 og birtist í fjölmiðlum í september það ár. Þetta er áskorun til formanna stjórnmálaflokkanna um að opna bækur flokkanna og gera almenningi grein fyrir fjárreiðum þeirra. Eini flokkurinn, sem svaraði okkur, var Kvennalistinn; þær skrifuðu okkur kurteislegt bréf til baka og sögðust ekkert hafa að fela. Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins jós fúkyrðum yfir okkur félagana í fjölmiðlum. (Ég man, að einn undirskrifarinn sagði um þá framgöngu: ,,Þessi viðbrögð eru nú eiginlega too good to be true“.) Af þessari áskorun okkar spunnust nokkrar umræður í fjölmiðlum, en þær fjöruðu út á skömmum tíma. Morgunblaðið skrifaði leiðara um málið daginn eftir að áskorunin birtist og tók undir sjónarmið okkar áttmenninganna, en blaðið hefur ekki sýnt málinu mikinn áhuga að fyrra bragði síðan. Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður hefur nokkur undangengin ár flutt frumvörp á alþingi í anda áskorunar okkar, en ekkert þeirra hefur náð fram að ganga í þinginu.
Yfirlýsing
Næsta skjal er frá því í desember 1998. Tilefnið var dómur Hæstaréttar í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenzka ríkinu. Hæstiréttur dæmdi Valdimar í vil og taldi synjun sjávarútvegsráðuneytisins á umsókn hans um leyfi til fiskveiða brjóta gegn jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar. Oddvitar ríkisstjórnarinnar fundu dómi Hæstaréttar margt til foráttu í fjölmiðlum. Okkur prófessorunum þótti því rétt að senda þessa yfirlýsingu frá okkur, en það hefur ekki gerzt áður, hvorki fyrr né síðar, að 105 prófessorar Háskóla Íslands af 150 snúi bökum saman með þessu móti á þjóðmálavettvangi, enda er slíkt ekki í okkar verkahring. Hæstiréttur kvittaði fyrir framtak okkar prófessoranna með því að snúa dómi sínum við nokkru síðar í öðru skyldu dómsmáli og sá þá ekkert athugavert við ókeypis afhendingu verðmætra aflaheimilda til fáeinna útvalinna. Tveir dómarar skiluðu að vísu séráliti í síðara málinu í samræmi við fyrri dóminn.
Ræða Valdimars Jóhannessonar fyrir Hæstarétti
Valdimar flutti mál sitt sjálfur, þótt ólöglærður sé, og hafði fullan sigur gegn ríkislögmanni, sem flutti mál ríkisins. Ræða Valdimars er merk réttarsöguleg heimild og er birt hér með leyfi hans.
Ávarp til Íslendinga
Síðasta skjalið var birt að frumkvæði Valdimars Jóhannessonar, sem vann nokkru síðar frækilegan sigur gegn íslenzka ríkinu fyrir Hæstarétti 1998 og flutti raunar mál sitt sjálfur fyrir réttinum. Sjá frásögnina af máli hans hér fyrir ofan.
Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða
Frumvarpinu fylgir greinargerð. Frumvarpið var lengi haft til sýnis á vefslóð Áhugahópsins www.kvotinn.is. Sjá einnig fréttatilkynningu Áhugahópsins frá 30. janúar 2000.
Bréf frá félögum í samtökunum „Auðlindir í almannaþágu“ til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í júní 2008
Bréfið andmælir fyrstu viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við bindandi áliti mannréttindanefndarinnar um fiskveiðistjórnina í desember 2007. Sjá íslenzka þýðingu bréfsins hér.
Bréf stjórnarskrárfélagsins til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í marz 2015
Bréfið vekur athygli á undanbrögðum Alþingis í stjórnarskrármálinu. Sjá íslenzka þýðingu bréfsins hér. Sjá bréf mannréttindanefndarinnar til íslenzku ríkisstjórnarinnar 29. maí 2012 hér.
Bréf félaga í Stjórnarskrárfélaginu til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í janúar 2020
Bréfið ítrekar erindi fyrra bréfs um vanefndir Alþingis gagnvart mannréttindanefndinni varðandi nýju stjórnarskrána og auðlindaákvæðið.
Equity out of nothing
Ritgerð Jóns Þ. Hilmarssonar og Stefáns Svavarssonar í enskri þýðingu sem birtist hér með leyfi höfundanna. Greinin sýnir hvernig reikningshald banka og annarra fjármálastofnana var fegrað fram að hruni með bókhaldsbrellum sem komu þó ekki til kasta dómstóla.
Mismanaged fish
Þessi stutta grein frá 1994 rifjaðist upp fyrir mér sumarið 2015 þegar stúdent í Vín óskaði eftir hjálp við meistararitgerð um hrun sparisjóðanna í Kaliforníu og Texas um 1990 og hrun Færeyja um sama leyti. Ég átti í fórum mínum stutta ritgerð um hrun Færeyja, Sjálfskaparvíti (sjá Síðustu forvöð, 6. kafla), og fann gleymda blaðagrein um málið á ensku, Mismanaged fish. New York Times og Financial Times höfðu hvorugt blaðið áhuga á að birta greinina 1994. Færeyjar voru of fámennar til að vekja áhuga lesenda þessara stórblaða. Þá rann upp fyrir mér að stjórnmálamenn, bankamenn og aðrir í örríkjum komast stundum upp með næstum hvað sem er án þess að frá því sé sagt úti í hinum stóra heimi. Þess vegna m.a. leggja margir nú þunga áherzlu á að umheimurinn fái að vita sem mest um hrunið 2008, aðdragandann og eftirleikinn, þótt Alþingi reyni enn að halda lokinu á, m.a. með því að (a) vanrækja að láta rannsaka einkavæðingu bankanna 1998-2003, (b) neita að láta þýða skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á ensku, (c) frysta nýja stjórnarskrá sem kjósendur hafa samþykkt og (d) leggja niður embætti Sérstaks saksóknara í árslok 2015 þótt embættið hafi ekki enn náð að leggja fram kærur í málum Glitnis og Landsbankans sambærilegar við kærur embættisins og sakfellingu Hæstaréttar í málum Kaupþings. Hljóta bankarnir ekki allir að vera jafnir fyrir lögum?