28. nóv, 2006

Íslenzka Phillipskúrfan 1980-2002

Mynd 104. Phillips hét maður, hann var Ný-Sjálendingur og verkfræðingur og starfaði í Ástralíu og á Bretlandi. Hann tók fyrstur manna eftir því, að verðbólga og atvinnuleysi virtust standa í öfugu sambandi hvor stærðin við hina í brezkum hagtölum frá 1860 til 1960 eða þar um bil. Þetta voru mikil tíðindi, og við hann er æ síðan kennd frægasta kúrfa allrar hagfræði, Phillipskúrfan. Það dró ekki úr frægðinni, að dánarvottorðum rigndi yfir Phillipskúrfuna eftir 1970, þegar menn þóttust taka eftir því, að verðbólga og atvinnuleysi væru á uppleið í sameiningu: ekkert öfugt samband þar, eða svo var sagt. Phillips er dauður, sögðu menn sigri hrósandi, einkum þeir, sem voru andvígir hagstjórn og aðhylltust náttúrulækningar í efnahagsmálum. Sumum yfirsást, að verðbólga og atvinnuleysi geta stundum hreyfzt til sömu áttar, enda þótt þær hreyfist jafnan í gagnstæðar áttir til skamms tíma litið. Glöggir menn sáu, að málið er aðeins flóknara. Ef eftirspurn er á hreyfingu, t.d. vegna þess að seðlabankinn stígur á bremsurnar, þá minnkar verðbólgan og umsvif dragast saman í efnahagslífinu, svo að atvinnuleysi eykst niður eftir Phillipskúrfunni. Ef framboðshlið hagkerfisins hins vegar er á hreyfingu, t.d. vegna þess að OPEC hækkar olíuverð á heimsmarkaði eða verklýðsfélög knýja fram einhliða kauphækkun, þá eykst verðbólga hér heima, þar eð framleiðendur velta kostnaðarhækkuninni út í verðlag seldrar vöru og þjónustu, og umsvif dragast saman, þar eð framleiðendur reyna einnig að verja sig með því að segja upp fólki. Sem sagt: verðbólga og atvinnuleysi aukast þá í sameiningu, en Phillipskúrfan er eigi að síður í fullu fjöri, því að dæmið um seðlabankann og bremsurnar er eftir sem áður í fullu gildi. Hér heima þýddi ekkert að reyna að slá máli á Phillips-kúrfuna eftir erlendum uppskriftum hér áður fyrr, af því að atvinnuleysið var óverulegt og haggaðist varla milli ára. En nú er öldin önnur eins og myndin að ofan sýnir. Þegar verðbólgan fór í fyrsta skipti niður fyrir 15% á ári 1991, byrjaði atvinnuleysi að aukast: Phillipskúrfan var mætt á svæðið. Atvinnuleysið fór upp fyrir 5% 1992-1994, en byrjaði síðan að þokast niður á við aftur og var rösk 3% 2002. Eðlilegt atvinnuleysi er atvinnuleysi kallað, ef það samrýmist stöðugu verðlagi yfir löng tímabil. Í Bandaríkjunum er 5%-6% atvinnuleysi talið eðlilegt og svara til fullrar atvinnu, m.a. af því að það tekur tíma að skipta um vinnu og vinnuleit gerir gagn, þótt menn séu atvinnulausir á meðan. Hér heima er stöðugt verðlag svo nýtilkomið, að við vitum ekki enn, hversu mikið atvinnuleysi samrýmist stöðugu verðlagi, þegar til lengdar lætur. Kannski 3%. Þetta þarf að skoða með tímanum. Sjá meira um málið í greininni Íslenzka Phillipskúrfan.