Vísbending
25. nóv, 2005

Íslenzka Phillipskúrfan

Phillips hét maður, hann var Ný-Sjálendingur að uppruna og rafmagnsverkfræðingur að mennt og starfaði við háskóla fyrst á Bretlandi (London School of Economics), síðan í Ástralíu og loks heima á Nýja-Sjálandi, þar sem hann dó 1975 aðeins rösklega sextugur að aldri. Hann átti viðburðaríka ævi, vann í ástralskri námu frá sextán ára aldri, nam síðan félagsfræði á Bretlandi, gegndi herþjónustu og var stríðsfangi Japana í heimsstyrjöldinni síðari, en slapp úr haldi í stríðslok. Alban W. Phillips byggði þekkt líkan af brezka hagkerfinu um 1950, hið fyrsta sinnar tegundar, þar sem misstríður vatnsflaumur eftir samtengdum leiðslum hermdi eftir gangi efnahagslífsins. Líkanið var á stærð við tölvu, fyllti heilt herbergi.

Ævisaga Phillipskúrfunnar

Phillips tók einnig fyrstur manna eftir því, að verðbólga og atvinnuleysi virtust standa í öfugu sambandi hvor stærðin við hina í brezkum hagtölum frá 1861 til 1957. Þetta voru mikil tíðindi, og við hann er æ síðan kennd ein frægasta kúrfa allrar hagfræði fyrr og síðar, Phillipskúrfan. Þessi óvænta uppgötvun jafnaðist að sumu leyti á við þá uppgötvun bandarískra lækna nokkrum árum síðar, að sígarettureykingar og lungnakrabbamein virtust haldast í hendur. Menn spurðu: ef þetta er svona, hver er þá skýringin? Það er ekki nóg að hafa hlutina fyrir augunum, menn þurfa einnig að átta sig á samhenginu. Læknarnir eru enn að leita, en hagfræðingar voru að þessu sinni nokkuð fljótir að ná áttum. Ef heildareftirspurn hreyfist úr stað, t.d. vegna þess að seðlabankinn stígur á bremsurnar, þá minnkar verðbólgan og umsvif dragast saman, svo að atvinnuleysi eykst. Ef seðlabankinn stígur hins vegar á bensíngjöfina, þá eykst verðbólgan og einnig landsframleiðslan, og atvinnuleysið skreppur saman. Slíkar lýsingar var reyndar að finna í löngu fyrri skrifum Johns Maynard Keynes, föður þjóðhagfræðinnar, enda kenndi þar margra grasa. Það var því engum erfiðleikum bundið að segja sögur, sem virtust ríma vel við Phillipskúrfuna.

Phillipskúrfan kallaði á ný viðhorf í hagstjórn. Hún virtist veita stjórnvöldum færi á að velja milli verðbólgu og atvinnuleysis. Ef atvinnuleysið var talið vera of mikið, þá var bara að losa skrúfurnar til að örva efnahagslífið og draga úr atvinnuleysinu, en gallinn var sá, að verðbólgan myndi þá færast í aukana. Og ef verðbólgan var talin vera of mikil, þá var bara að herða skrúfurnar og keyra verðbólguna niður, en gallinn á því var sá, að þá myndi atvinnuleysið aukast. Allir vegir virtust færir.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Eftir 1970 tóku menn eftir því, að verðbólga og atvinnuleysi færðust í aukana báðar stærðirnar í einu, ekki aðeins á Bretlandi, heldur einnig í Bandaríkjunum og annars staðar: ekkert öfugt samband þar lengur, eða svo sýndist mönnum. Phillipskúrfan er dauð, sögðu sumir sigri hrósandi, einkum þeir, sem voru andvígir hagstjórn og aðhylltust heldur náttúrulækningar í efnahagsmálum. Þeim hafði verið meinilla við Phillipskúrfuna frá öndverðu vegna þess, að þeir rugluðu hagstjórn saman við ríkisafskipti og óttuðust, að bætt skilyrði til hagstjórnar væru vatn á myllu afskiptasamra stjórnmálamanna (eða vinstri manna, það var undirtextinn). Það er rétt, að margir hagstjórnendur litu á Phillipskúrfuna eins og matseðil: það var bara að velja þá blöndu verðbólgu og atvinnuleysis, sem hentaði bezt hverju sinni. Það var á hinn bóginn ekki rétt, að af þessu leiddi endilega uppskrift að breyttri verkaskiptingu almannavaldsins og einkageirans; það var og er allt annað mál. Dánarvottorðunum rigndi yfir Phillipskúrfuna, þegar líða tók á áttunda áratuginn. Hagfræðingar tóku lífinu ekki eins létt og áður. Þeir lögðust yfir gátuna. Hvað var að gerast?

Fréttirnar af dauðsfallinu reyndust stórlega ýktar. Sumum yfirsást, að verðbólga og atvinnuleysi geta stundum hreyfzt til sömu áttar, enda þótt þær hreyfist jafnan í gagnstæðar áttir til skamms tíma litið. Milton Friedman, einn áhrifamesti hagfræðingur 20. aldar, og Edmund Phelps, sem hefur einnig haft mikil áhrif með rannsóknum sínum, vöktu máls á því hvor í sínu lagi, að Phillipskúrfan væri á ferð og flugi eins og flest annað í efnahagslífinu, og því væri ekkert óeðlilegt við það, að verðbólga og atvinnuleysi hreyfðust annað veifið til sömu áttar. Friedman fjallaði reyndar um atvinnuþátttöku frekar en atvinnustig, þ.e. um hlutfall mannaflans í mannfjöldanum frekar en um hlutfall starfandi fólks í mannaflanum, og hafði því ólíkt Phelps ekkert um atvinnuleysi að segja. Það var Phelps, sem fann púðrið.

Hugsum okkur, að atvinnuleysi sé í eðlilegu horfi og svari til fullrar atvinnu. Full atvinna samrýmist nokkru atvinnuleysi, t.d. 5% til 6% af mannaflanum í Bandaríkjunum, því að á hverjum tíma eru alltaf einhverjir að leita sér að vinnu og eru skráðir atvinnulausir á meðan. Það tekur tíma að finna eða skipta um vinnu, og vinnuleit gerir gagn, enda þótt menn séu atvinnulausir á meðan. Ef allir tækju fyrsta tilboði um vinnu, myndu starfskraftar mannaflans varla nýtast vel – prestar á sjónum og sjómenn að gifta og grafa: það gæti varla gengið til lengdar. Vinnuleit er því nauðsynleg og þá um leið tímabundið atvinnuleysi, svo að allir finni á endanum vinnu við sitt hæfi. Eðlilegt atvinnuleysi er atvinnuleysi kallað, ef það samrýmist fullri atvinnu og stöðugu verðlagi yfir löng tímabil. Eðlilegt atvinnuleysi er mishátt eftir löndum. Það er t.a.m. hærra sums staðar á meginlandi Evrópu en í Bandaríkjunum, af því að í Evrópu er vinnumarkaðurinn stirðari vegna ýmissa hamlandi laga og reglna, sem um hann gilda. Hvað um það, við eðlilegt atvinnuleysi er vinnumarkaðurinn í jafnvægi, og menn geta að öðru jöfnu gert ráð fyrir því, að verðbólgan verði áfram eins og hún er. Verðbólgan, sem menn eiga í vændum, er því jöfn verðbólgu í raun. Setjum nú svo, að seðlabankinn stígi á bensínið (eða ríkisstjórnin; þetta voru þau ár, þegar Bandaríkin háðu stríð í Víetnam og ráku ríkisbúskapinn með umtalsverðum halla) og verðbólgan rjúki upp. Þá tekur efnahagslífið kipp, og atvinnuleysið minnkar. Sem sagt: öfugt samband milli verðbólgu og atvinnuleysis í bráð.

Bráð og lengd eru systur
En úr því að verðbólgan hefur aukizt, þá er nú varla mikið vit í því að halda áfram að gera ráð fyrir gamla verðbólgustiginu. Menn þurfa því að endurskoða vændir sínar um verðbólguna upp á við. Og hvað gerist þá? Þegar verðbólgan í vændum færist í aukana, endurskoða launþegar kaupkröfur sínar til samræmis til að vernda kaupmátt launa sinna, og kauphækkunin leggur aukinn kostnað á fyrirtækin, og þau reyna að verjast með því að – einmitt það! – segja upp fólki. Og atvinnuleysi byrjar þá aftur að aukast. Einmitt þetta gerðist í Bandaríkjunum eftir 1970. Þessi ferill heldur áfram, þar til atvinnuleysið er aftur komið í eðlilegt og upprunalegt horf og svarar til fullrar atvinnu, og þá færist kyrrð yfir vinnumarkaðinn að nýju, ef annað gerist ekki, og verðbólgan í raun er jöfn verðbólgunni, sem menn eiga í vændum. Allt er með kyrrum kjörum á nýjan leik. Það, sem hefur gerzt, er ekki annað en það, að seðlabankinn eða ríkisstjórnin hleypti verðbólgunni á skrið og atvinnuleysið minnkaði í bráð, en það helzt samt óbreytt til langs tíma litið og svarar eftir sem áður til fullrar atvinnu. Það, sem stjórnvöld höfðu upp úr krafsinu, var minna atvinnuleysi í bili og meiri verðbólga til frambúðar. Phillipskúrfan er því lóðrétt til langs tíma litið, sögðu þeir Friedman og Phelps, en hún hallar samt niður á við í bráð. Phillipskúrfan í bráð getur einfaldlega hliðrazt til, en til langs tíma litið haggast hún ekki, nema innviðir vinnumarkaðsins breytist. Full atvinna er reglan, en hagsveiflurnar keyra atvinnuleysið ýmist upp eða niður fyrir fulla atvinnu.

Eru þetta góð skipti? – að keyra atvinnueysið niður í bráð, þótt það kosti aukna verðbólgu til langs tíma litið. Hér áður fyrr voru skiptar skoðanir um málið, en svo er þó varla lengur, því að nú vita menn meira um skaðleg áhrif verðbólgu á hagvöxt til langs tíma litið. Fáir mæla nú með því í alvöru, að atvinnuleysi sé keyrt niður fyrir eðlileg mörk, þ.e. að atvinnustigið sér keyrt upp fyrir fulla atvinnu. Rökin eru þau, að varanlegar búsifjar af völdum aukinnar verðbólgu vegi þyngra en tekjuaukinn vegna tímabundinnar þenslu á vinnumarkaði. Í þessu ljósi þarf að skoða aukna aðhaldssemi í stjórn peningamála um allan heim undangengin ár.

Þetta er samt ekki allt. Endurskoðun verðbólguvænda er ekki eina ástæðan til þess, að Phillipskúrfan hreyfist stundum úr stað. Ef framboðshlið hagkerfisins verður fyrir skelli, t.d. af því að OPEC hækkar olíuverð á heimsmarkaði eða verklýðsfélög knýja fram einhliða kauphækkun á heimavelli, þá eykst verðbólga, þar eð framleiðendur velta auknum kostnaði út í verðlag seldrar vöru og þjónustu, og umsvif dragast saman, þar eð framleiðendur reyna einnig að verjast með því að segja upp fólki. Sem sagt: verðbólga og atvinnuleysi aukast þá í sameiningu. En Phillipskúrfan er eigi að síður í fullu fjöri, því að dæmið að ofan um seðlabankann og bremsurnar er eftir sem áður í fullu gildi. Og einmitt þetta gerðist árin eftir 1970, þegar OPEC hækkaði olíuverð í tvígang, 1973-74 og 1979-81. Þá færðust bæði atvinnuleysi og verðbólga í vöxt, svo að Phillipskúrfan færðist út og þrengdi kost hagstjórnenda. Þeir áttu í reyndinni þriggja kosta völ við þessar kringumstæður. Þeir gátu snúizt gegn auknu atvinnuleysi, en það hefði kostað meiri verðbólgu. Þeir gátu snúizt gegn aukinni verðbólgu, en það hefði þá kostað meira atvinnuleysi. Og þeir gátu haldið að sér höndum og beðið þess, að ástandið skánaði af sjálfu sér. Þetta var áður en menn höfðu gert sér fulla grein fyrir því, að stjórnvöld geta gert ýmislegt til að færa Phillipskúrfuna inn til mótvægis við útfærslu Phillipskúrfunnar af völdum OPECs.

Frá útlöndum til Íslands
Þessi vandi – of mikið atvinnuleysi eða of mikil verðbólga, nema hvort tveggja sé – brennur heitt á mörgum Evrópulöndum nú og hefur gert það um langt skeið. Atvinnuleysi á meginlandinu er miklu meira en eðlilegt getur talizt. Phillipskúrfan þar situr m.ö.o. of utarlega. Það stafar að nokkru leyti af því, að vinnumarkaðsskipulag Evrópulandanna er ekki nógu sveigjanlegt. Ýmsar hömlur á vinnu, ráðningar og rekstur valda því, að vinnuveitendur hika við að ráða fólk til starfa. Auk þess eru lögboðin lágmarkslaun sums staðar of há og verðleggja láglaunafólk með litla menntun út af vinnumarkaðinum og dæma það til langvinns atvinnuleysis. Verklýðsfélög berjast yfirleitt gegn tillögum um breytingar á vinnulöggjöfinni í frjálsræðisátt, enda þótt slíkum tillögum sé ætlað að draga úr atvinnuleysi með því að færa Phillipskúrfuna innar og bæta með því móti ástand efnahagslífsins.

Hér heima þýddi ekkert á fyrri tíð að reyna að slá máli á Phillipskúrfuna eftir erlendum uppskriftum, því að atvinnuleysið var óverulegt og haggaðist varla milli ára. En nú er öldin önnur eins og myndin sýnir. Þegar verðbólgan fór í fyrsta skipti niður fyrir 15% 1991, byrjaði atvinnuleysi að aukast eftir bókinni: Phillipskúrfan var mætt á svæðið.[1] Atvinnuleysið fór upp fyrir 5% 1992-94, en byrjaði síðan að þokast niður á við aftur og var komið niður í rösk 3% 2003. Hvers vegna? Minni verðbólga kallaði á endurskoðun verðbólguvænda, svo að launþegar þurftu ekki að heimta sömu bætur fyrir verðbólgu og áður. Þessi endurskoðun dró ur kaupkostnaði fyrirtækjanna, svo að þau þurftu ekki að halda að sér höndum við mannahald og ráðningar.

Atvinnuleysi um eða undir 1% af mannafla flest árin fram að 1990 vitnar um mikla þenslu á íslenzkum vinnumarkaði áratugina þrjá þar á undan, enda bjuggu Íslendingar við mestu verðbólgu á öllu OECD-svæðinu þessi ár að Tyrklandi einu undanskildu.  Ísland var verðbólguland. Nú mælist atvinnuleysið á bilinu 2% til 3% af mannafla og er mjög lítið á Evrópuvísu og vitnar enn um þenslu, en nú án verðbólgu. Hvernig stendur á því? Við höfum fundið óbrigðult ráð til þess að halda Phillipskúrfunni í skefjum, þ.e. til þess að halda aftur af verðbólgu þrátt fyrir lítið atvinnuleysi. Hvaða ráð er það? Innflutningur erlends vinnuafls. Þensla á vinnumarkaði kallaði fyrr á árum á kauphækkanir, af því að fyrirtækin voru að berjast um fasta stærð, þ.e. íslenzkan mannafla. Hækkun kauplags barst út í verðlagið og síðan koll af kolli, og verðbólgan var á fullri ferð. Þetta er liðin tíð, því að mannaflinn er ekki lengur föst stærð. Ef við þurfum að bora göng eða byggja virkjun, þá stækkum við mannaflann með því að flytja inn starfsmenn erlendis frá. Þetta höfum við gert í stórum stíl undangengin ár, ekki aðeins í byggingabransanum, heldur einnig í fiskvinnslu, heilbrigðisþjónustu og víðar. Útgerðirnar eru byrjaðar að slægjast eftir erlendum sjómönnum á íslenzk skip.

Þannig hefur okkur tekizt að halda verðbólgunni niðri þrátt fyrir mikla spennu í atvinnulífinu. Þessi skipulagsbreyting hefur liðkað til á vinnumarkaðinum, og hún er angi á miklum meiði. Aukin samkeppni erlendis frá í krafti EES-samningsins, hvort heldur á vinnumarkaði, vörumarkaði eða peningamarkaði, stuðlar að minni verðbólgu þrátt fyrir þenslu. Það er framför. Eigi að síður höfum við ekki gengið lengra í þessa átt en ýmsar nálægar þjóðir. Hlutdeild útlendinga í mannfjöldanum hér heima jókst úr röskum 2% 1960 í tæp 6% 2000 eins og í Danmörku. Í Bretlandi fjölgaði útlendingum á sama tíma úr 3% af mannfjöldanum í 7%, á Írlandi úr 3% í 8%, í Svíþjóð úr 4% í 11%, í Bandaríkjunum úr 5% í 12%, í Sviss úr 13% í 25% og í Lúxemborg úr 13% í 37%. Vinnumarkaðir heimsins eru nú mun opnari en áður.

Hér heima er stöðugt verðlag svo nýtilkomið, að við vitum ekki enn, hversu mikið atvinnuleysi getur talizt eðlilegt, þ.e. samrýmist stöðugu verðlagi, þegar til lengdar lætur. Kannski 3%. Þetta þarfnast nánari skoðunar með tímanum.

[1] Sjá grein Björns R. Guðmundssonar og Gylfa Zoëga, ,,Atvinnuleysi á Íslandi: Í leit að jafnvægi”, Fjármálatíðindi 44, fyrra hefti, 1997, bls. 18-39.