Viðskiptabankar: Einkavæðing og vaxtamunur
Mynd 116. Einkavæðing viðskiptabanka hefur það höfuðmarkmið að bæta hag viðskiptavina bankanna. Reynslan sýnir, að einkarekstur reynist jafnan betur en ríkisrekstur, og það á ekki síður við um fjármálaþjónustu en aðra þjónustu og framleiðslu, en þó með mikilvægum undantekningum, þar sem félagsleg sjónarmið sitja í fyrirrúmi, einkum í heilbrigðis- og menntamálum. Einkavæðing banka gengur með öðrum orðum út á það, að bönkum og fjármálastofnunum er kippt út úr félagsmálageiranum, þar sem þau áttu ekki heima, og eru heldur sett á sinn stað í viðskiptageiranum. Og hvernig fara einkabankar að því að bæta hag viðskiptavina sinna? Með því að tryggja þeim lægri útlánsvexti en áður og hærri innlánsvexti, þ.e. minni vaxtamun. Myndin lýsir nýfenginni reynslu nokkurra landa af einkavæðingu banka. Litháar minnkuðu hlut ríkisins í bankarekstri úr 44 prósentum 1999 í 12 prósent 2003. Vaxtamunurinn á mælikvarða Alþjóðabankans — hér er átt við útlánsvexti til kjörviðskiptavina að frádregnum innlánsvöxtum á sparifjárreikningum — minnkaði eins og hendi væri veifað úr 8 prósentum 1999 í 4 prósent 2005. Pólverjar minnkuðu hlut ríkisins í bankarekstri úr 44 prósentum 1999 í 24 prósent 2003 og Rússar úr 68 prósentum í 36 prósent. Vaxtamunurinn minnkaði úr 6 prósentum 1999 í 4 prósent 2005 í Póllandi og úr 26 prósentum 1999 í 7 prósent 2005 í Rússlandi. Í Mexíkó losaði ríkið sig alveg út úr bankarekstri 1999-2003, og vaxtamunurinn minnkaði um helming. Hér heima jókst vaxtamunurinn úr 5 prósentum 1999 í 7 prósent 2004 samkvæmt tölum Alþjóðabankans. Hvað gerðist svo? Vaxtamunurinn jókst enn í 10 prósent 2005 og í tæp 11 prósent 2006, eftir því sem ég kemst næst með gögnum Seðlabankans, eins og ég lýsti í fyrirlestri á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja í nóvember 2007; sjá einnig næstu mynd. Hvers vegna sker Ísland sig úr hópnum? Það stafar einkum af því, að þess var ekki gætt sem skyldi, að einkabankarnir þyrftu að heyja harða samkeppni nema þá bara hver við annan. Það er frumforsenda árangursríkrar einkavæðingar, að einkafyrirtækin, sem leysa ríkisfyrirtækin af hólmi, séu samkeppnisfyrirtæki. Þessa var vel gætt víðast hvar í Austur-Evrópu, þótt þar gengi á ýmsu við einkavæðingu banka og annarra ríkisfyrirtækja. Í Austur-Evrópulöndunum var lagt kapp á að laða útlendinga til bankarekstrar þar, svo að til að mynda allur bankarekstur Eista er nú á hendi útlendinga. Næg samkeppni þar og lítill vaxtamunur: hann var 13 prósent 1994 og er nú kominn niður í 3 prósent. Sjá meira um málið í greininni Samkeppni minnkar vaxtamun.
Heimild: Alþjóðabankinn, World Development Indicators 2007, og eigin túlkun á gögnum Seðlabanka Íslands.