Viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins
Margt hefur breytzt til batnaðar á Íslandi síðan 1990, því að árin næst á eftir tók landið undir sig nýtt stökk inn í nútímann. Þar munaði mest um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins fékk samþykkta á Alþingi með 33 atkvæðum af 63; það mátti engu muna. Baklandið var hagfellt: kommúnisminn var kominn á öskuhaugana, svo að markaðsbúskapur og einkavæðing hlutu þá að fá betri hljómgrunn en áður. Tekjur heimilanna hafa hækkað, og hagur fyrirtækjanna hefur vænkazt, en samt þurfa Íslendingar enn sem fyrr að hafa meira fyrir lífinu en aðrar Vestur-Evrópuþjóðir. Íslendingar þurftu að jafnaði að vinna 2400 klukkustundir árið 1950 til að ná endum saman á móti 2100 stundum í Danmörku. Árið 2005 unnu Íslendingar að jafnaði 1800 stundir á móti 1500 í Danmörku. Við höfum því eins og Danir tekið út aukna hagsæld sumpart í minni vinnu, en okkur hefur samt ekki tekizt að minnka bilið. Bandaríkjamenn eru eina hátekjuþjóðin, sem vinnur nú jafnmargar stundir á ári og Íslendingar. Erum við iðnari en aðrar Evrópuþjóðir? Varla.
Ætli hitt sé ekki nær lagi, að við leggjum svo þungar búsifjar hvert á annað, að við þurfum að vinna myrkranna á milli til að hafa í okkur og á. Vinnuvikan þyrfti ekki að vera svona löng, ef matarverðið væri lægra og vextirnir. Þetta hangir saman. Stjórnmálamennirnir tala sumir um velferð barna. Það bezta, sem við gerum börnunum, er að koma fyrr heim úr vinnunni á kvöldin, og það getum við ekki gert fyrr en samkeppni er leyft að lækka verðlag og vexti. Greiðasta leiðin að því marki liggur í gegnum inngöngu Íslands í Evrópusambandið. ESB handa börnunum! En það má Sjálfstæðisflokkurinn ekki heyra nefnt. Hann segir heldur: Leyfið okrunum að koma til mín.
Þegar breiðvirkur borgaraflokkur flaskar á stórmáli eins og Evrópumálinu, einn slíkra flokka í Evrópu, lætur það að líkum, að flokknum hafi verið mislagðar hendur í ýmsum öðrum málum. Skoðum verksummerkin eftir svo að segja samfellda stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins í sextán ár.
Óvarið land.
Sjálfstæðisflokkurinn tók forustu um að tryggja varnir Íslands eftir síðari heimsstyrjöldina með inngöngunni í Atlantshafsbandalagið 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin 1951. Andstæðingar hvors tveggja töldu, að Ísland þyrfti engra varna við og fyrir sjálfstæðismönnum vekti ekki annað en að græða á hermanginu í helmingaskiptum við Framsóknarflokkinn með aukaaðild Alþýðuflokksins. Þessi átök skiptu þjóðinni í tvær fylkingar, misstórar. Sovétríkin leystust upp 1991, en utanríkisstefna Íslands tók samt engum breytingum, enda flykktust nýfrjáls fyrrum leppríki Rússa síðan inn í Nató. Að lokum fór Kaninn burt með herinn, þar eð ekki þótti lengur þörf fyrir framlag Íslands til sameiginlegra varna. Eftir stóð þá hinn hornsteinn varnarsamstarfsins: varnarþörf Íslands sjálfs. Ef Íslendingar þurftu á óbreyttri tilhögun öryggismála að halda eftir 1991, hvers vegna getur landið nú allt í einu verið varnarlaust eitt landa fyrir utan Kosturíku? – eftir allt, sem á undan er gengið. Höfðu kommarnir kannski rétt fyrir sér? Var allt þetta tal um varnir Íslands bara fyrirsláttur? Var málatilbúnaður Sjálfstæðisflokksins bara umbúðir utan um hermangið? Hvað hefðu sjálfstæðismenn sagt, ef vinstri stjórn hefði skilið Ísland eftir óvarið?
Verðbólgan á fullri ferð.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt efnahagsmálum og Seðlabankanum um langt árabil og ber höfuðábyrgð á því, að verðbólgan er nú aftur meiri á Íslandi en annars staðar í Evrópu að Tyrklandi einu undanskildu. Þetta er engin bóla, heldur þrálátur vandi. Það þurfti að gæta strangs aðhalds í fjármálum ríkisins og peningamálum til mótvægis við stóriðjuframkvæmdir, en ríkisstjórnin ýtti heldur undir þensluna með fyrirhyggjulausri hagstjórn og beinum mistökum, eins og t.d. með því að kasta frá sér bindiskyldunni, mikilvægu stjórntæki til að halda aftur af útlánaþenslu bankanna. Stjórnarandstaðan getur vísað glundroðakenningu sjálfstæðismanna til föðurhúsanna.
Skattbyrðin aldrei þyngri.
Ætla mætti, að flokkur einkaframtaksins hefði haldið skattheimtu í skefjum þessi sextán ár, en svo er ekki. Skattheimta á Íslandi hefur skv. staðtölum OECD aukizt úr 38% af landsframleiðslu 1990 í 48% 2006. Á sama tíma hefur skattheimta á Evrusvæðinu aukizt úr 43% af landsframleiðslu í 45%. Skattbyrðin hér heima er komin upp fyrir Evrópumeðallag. Hvað hefðu sjálfstæðismenn sagt, ef vinstri stjórn hefði aukið skattbyrðina um 10% af landsframleiðslu?
Aukinn ójöfnuður.
Skattleysismörk hafa lækkað að raungildi og þyngt skattbyrði lágtekjufólks. Ríkisstjórnin segir, að það væri of dýrt fyrir ríkissjóð að færa skattleysismörkin aftur í fyrra horf að raungildi. Hún hefur m.ö.o. gert út á skattheimtu af lágum launum. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn að ójafnaðarflokki, þótt hann reyni nú að sveipa sig sauðargæru rétt fyrir kosningar. Verkin tala.