Við höldum hópinn
Sameinuðu þjóðirnar birtu í fyrradag nýja skýrslu um lífskjör, Human Development Report 2007. Það vekur athygli og fögnuð, að Ísland er nú í fyrsta sinn í efsta sæti listans um lífskjör þeirra 177 þjóða, sem listinn nær yfir, en árin 2001-2006 var Noregur í efsta sætinu og þar áður Kanada 1990-2000, nema Japan skauzt tvisvar upp í efsta sætið (1991 og 1993). Noregur er nú í öðru sæti, síðan koma Ástralía og Kanada. Tölurnar taka til ársins 2005. Það vekur einnig athygli, en kemur þó kannski ekki lengur á óvart, að Bandaríkin skipa nú tólfta sæti listans. Bandaríkin hafa smám saman þokazt niður eftir þessum lífskjaralista. Þau voru – ásamt Íslandi – í öðru til þriðja sæti listans 1980, og héldu öðru sætinu 1985 og 1990 á eftir Kanada og sukku síðan niður í sjötta sæti 1995 og áttunda sæti 2000. Það er eftirtektarvert, að öll efstu löndin á listanum eru gamalgróin velferðarríki, jafnaðarlönd. Í hópi tuttugu efstu landanna er tekjuskiptingin langsamlega ójöfnust í Bandaríkjunum. Tekjuskiptingin í Kanada og Ástralíu er svipuð og í Frakklandi. Tekjuskiptingin í Bretlandi ber meiri svip af Frakklandi en Bandaríkjunum. Ísland hefur ekki enn fengizt til að telja fram tekjuskiptingartölur þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir til Hagstofu Íslands.
Hvað sem öllu þessu líður og þróunarlöndunum, sem eru aðalefni skýrslunnar, ætti eitt atriði að vekja sérstaka athygli í okkar heimshluta, og það er þetta: Iðnríkin halda hópinn. Löndin efst á listanum standa svo þétt saman, að lífskjaramunurinn á þeim er varla marktækur. Lífskjaravísitala Íslands í efsta sætinu er einni prósentu hærri en vísitala Svíþjóðar í sjötta sæti. Og munurinn á Svíum í sjötta sætinu og Bretum í sextánda sæti er ekki heldur nema eitt prósent. Ekki nóg með það: munurinn á Bretlandi í sextánda sæti og Þýzkalandi í 23. sæti er einnig eitt prósent, og tók Þýzkaland þó upp á sína arma sextán milljónir fátækra Austur-Þjóðverja við sameiningu landsins 1990. Það var vel af sér vikið. Til samanburðar er kjaravísitala Indlands tólf prósentum hærri en vísitala Pakistans. Vísitala Botsvönu er helmingi hærri en vísitala Sambíu samkvæmt skýrslunni, svo að tvö önnur grannlönd séu höfð til marks. En iðnríkin vaxa saman, og þeim fer fjölgandi. Írar voru í 22. sæti listans 1980-1990, lyftu sér síðan upp í sextánda sætið 2000 og sitja nú í fimmta sætinu, næst á eftir Kanada. Gott hjá þeim. Og gott hjá okkur.
Yfirleitt hafa menn látið sér duga að reisa samanburð á árangri þjóða í efnahagsmálum á tiltækum þjóðhagsreikningatölum um tekjur á mann. Þessi hefðbundni mælikvarði er þó að ýmsu leyti of þröngur, og þess vegna tóku Sameinuðu þjóðirnar nýjan kvarða í notkun í tilraunaskyni. Vandinn við að einblína á tekjur á mann með gamla laginu er öðrum þræði sá, að þjóðartekjum er misvel varið. Ef tvær þjóðir hafa sömu tekjur á mann og önnur lætur heilbrigðismál og menntamál reka á reiðanum, svo að fjöldi fólks líður fyrir heilsuleysi og menntunarskort, þá býr hin þjóðin, sem lagði rækt við heilbrigðismál og menntun, klárlega við betri kjör á heildina litið. Þetta er inntakið í lífskjaravísitölu Sameinuðu þjóðanna. Hún er meðaltal þriggja talna: (a) vísitölu langlífis, sem nýfædd börn eiga í vændum; (b) vísitölu menntunar, sem ræðst að einum þriðja af fullorðinslæsi og að tveim þriðju af samanlagðri skólasókn á öllum skólastigum, þó án tillits til gæða skólanna; og (c) vísitölu kaupmáttar þjóðartekna á mann, þar sem þess er gætt, að verðlag er af ýmsum ástæðum mishátt eftir löndum. Það kostar minna að láta klippa sig í Kalkúttu en á Kópaskeri. Hugsunin á bak við vísitöluna er með öðrum orðum sú, að kaupmáttur þjóðartekna á mann nái að fanga þá þætti lífskjaranna, sem lýðheilsa og menntunarstig ná ekki til. Vísitalan er spor í rétta átt, en hún nær þó ekki alla leið að settu marki, eins og höfundar vísitölunnar viðurkenna fúslega.
Tvennt eða þrennt vantar enn í vísitöluna. Í fyrsta lagi þyrfti að skoða tekjur á hverja vinnustund frekar en tekjur á mann til að taka fyrirhöfnina á bak við tekjuöflunina með í reikninginn. Þetta skiptir máli í iðnríkjunum, þar sem vinnuálagið er býsna ólíkt eftir löndum. Í annan stað þyrfti að skoða, hvernig tekjurnar verða til og hvort þær eru sjálfbærar. Sums staðar halda menn uppi háum tekjum með því að ganga á eignir sínar og annarra, til dæmis umhverfið, og safna skuldum, og það ætti að réttu lagi að draga vísitöluna niður í tæka tíð frekar en eftir dúk og disk. Í þriðja lagi gæti þurft að taka mið af því, að mikil misskipting auðs og tekna getur bitnað á lífskjörum almennings umfram þau áhrif, sem birtast í menntunarskorti og skertu langlífi margra fátæklinga.