Við Georgie
Hann er frægastur fyrir tvennt: konurnar, sem hann ber á höndum sér og býður gjarnan með sér til Acapulco í Mexíkó og á frönsku Rívíeruna og víðar, nema hann sé nýhættur því, og sólbrúnt hörundið, sem minnir helzt á húðina á Valbirni Þorlákssyni stangarstökkvara að loknu löngu sumri. Nema nú ætla ég að vísu ekki að minnazt Valbjarnar, sem háði marga tugþrautina á Melavellinum í gamla daga við erfiðar aðstæður, sló Íslandsmet eins og mýflugur (stökk fjóra og fimmtíu 1960 eins og að drekka vatn) og lá í sólbaði á milli, brúnastur allra Íslendinga. Nei, nú er komin röðin að kvikmyndaleikaranum og kyntröllinu George Hamilton. Ég rakst á hann í New York ekki alls fyrir löngu. Þú varst eins og næpa við hliðina á honum, sagði konan mín.
Og konurnar hans, maður lifandi: kvennalistinn er eins og Hver er konan? – svo langur er hann, litríkur og leiftrandi eins og hann lýsir honum í sjálfsævisögu sinni. Þar er Marilyn Monroe. Georgie sá hálfpartinn eftir að hafa ekki verið til taks, þegar hún skildi við Joe di Maggio, hornaboltaleikarann, og giftist leikskáldinu Arthur Miller. Marylin var háfleyg í samræðum, eins og Miller lýsir henni líka svo fallega í sjálfsævisögu sinni, og vildi helzt ekki tala um annað við Georgie en bókmenntir og mannfræði, og Georgie hafði ekki roð við henni. Einföld ljóska? Það var nú eitthvað annað, segir Georgie. Hann talar vel og virðulega um næstum alla vini sína nema Evel Knievel, torfærufíkilinn, sem gekk með hækjur eftir vinnuslys, var síðan kærður fyrir barsmíðar, skaut sér undan dómi með þeim rökum, að hann hefði ekki getað misþyrmt meintu fórnarlambi eins og hann væri á sig kominn, þótt hann vildi, með hækjur, vann málið og lúbarði síðan gömlu konuna aftur í lyftunni niður úr dómsalnum, svo að báðar hækjurnar brotnuðu.
Georgie fór víða með Elísabetu Taylor, nema hún var óstundvís með afbrigðum og lét iðulega bíða eftir sér tímunum saman, og gilti þá engu, hversu margir biðu, hún var svo lengi að mála sig. Hún hóf ferilinn sem barnastjarna og var til málamynda sett í hraðskóla í Hollywood og lærði samt aldrei almennilega að skrifa á sama hraða og aðrir. Einhverju sinni þurfti hún að skrifa stutta orðsendingu til að þakka fyrir blóm, tvær setningar, og hún var lengur að því en að mála sig. Þá lá við sjálft, að Georgie missti þolinmæðina, þetta var á Dorcesterhótelinu í London, í brúðarsvítunni, þar sem Liz og Richard Burton höfðu áður þeytt þungum húsgögnum hvort í annað, en þó aldrei út um gluggana, og er Georgie þó allra manna prúðastur og þolinmóðastur. Hann er kurteisin sjálf, suðurríkjaséntilmaður af gamla skólanum, sem aldrei dettur eða drýpur af.
Hann var í vinfengi við Lyndu Bird, eldri dóttur Johnsons Bandaríkjaforseta, og margir bjuggust við því líkt og hann sjálfur, að hann yrði tengdasonur LBJ, sem kallaði hann ævinlega Georgie. Af þeim ráðahag gat þó ekki orðið, því að andstæðingar Johnsons grófu það upp, að Georgie hafði fengið undanþágu frá herþjónustu í Víetnam til að geta framfleytt þurfandi móður sinni og systkinum, móðirin hafði verið fjórgift, og annar bróðir hans, Bill, var samkynhneigður, og á slíkt var ekki hættandi, sagði Johnson, mannréttindafrömuðurinn, við Georgie. Lynda Bird giftist heldur Virgínumanninum Charles Robb, sem hafði gegnt herþjónustu í Víetnam og varð síðar ríkisstjóri og öldungadeildarþingmaður, einn með öllu. Georgie var hrókur alls fagnaðar í brúðkaupinu í Hvíta húsinu 1967, þótt hann kæmist ekki að því sinni upp að altarinu. Hann var einnig í innilegu vinfengi við Ímeldu Marcos og þau hjónin bæði, hana og Ferdinand forseta Filippseyja, og ætlaði að gera kvikmynd um þau, en hann fékk engan framleiðanda til að gera myndina, svo að hún sigldi í strand. Og svo var það Britt Ekland, sænska kynbomban, hún var þá nýskilin við Peter Sellers: tvær vikur í himnaríki, segir Georgie – og bókin er rétt að byrja.
Bókin heitir Don‘t mind if I do, sem útleggst Gjarnan, en það sagði Lynda Bird, þegar Georgie bauð henni til Acapulco eða bað hana að giftast sér, man ekki hvort var. Hann hefur leikið í 50 kvikmyndum, þar á meðal The Godfather Part III (1990) eftir Francis Coppola og Hollywood Endings (2002) eftir Woody Allen.