DV
28. des, 2012

Við áramót: Staða stjórnarskrármálsins

Þjóðin stendur nú við mikilvæg vatnaskil. Hrunið 2008 afhjúpaði djúpa bresti í innviðum okkar unga lýðveldis. Alþingi viðurkenndi þessa bresti 28. september 2010 með einróma samþykkt, þar sem sagði m.a.: „Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur. Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“ Ályktun Alþingis lýkur með upptalningu á lögum, sem þingið lofar að endurskoða eða setja. Stjórnarskráin er efst á loforðalista Alþingis. „Alþingi er á reynslutíma hjá þjóðinni“, segir forsætisráðherra.

Forsaga málsins er fljótrakin. Þjóðin samþykkti nýja stjórnarskrá við lýðveldisstofnunina 1944 í stað þeirrar stjórnarskrár, sem Kristján konungur IX. hafði fært þjóðinni 1874. Stjórnmálaflokkar á Alþingi sammæltust um leggja til svo litlar breytingar á stjórnarskránni frá 1874 sem verða mátti við stofnun lýðveldis í skugga heimsstyrjaldar. Þessu samkomulagi fylgdu yfirlýsingar forustumanna allra flokka á Alþingi um nauðsyn þess að ráðast fljótlega í gagngera endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það heit var ekki efnt fyrr en 2009. Þá ákvað Alþingi að fela fólkinu í landinu að endurskoða stjórnarskrána, úr því að þinginu hafði ekki tekizt ætlunarverk sitt í 65 ár. Alþingi skipaði sjö manna stjórnlaganefnd. Hún skilaði gagnlegri skýrslu og kvaddi saman 950 manna þjóðfund valinn af handahófi úr þjóðskrá. Allir Íslendingar 18 ára og eldri höfðu jafna möguleika á að veljast til setu á þjóðfundinum 2010. Þar var lagður grunnur að nýrri stjórnarskrá. Alþingi lét kjósa til stjórnlagaþings, sem varð að þingskipuðu Stjórnlagaráði. Ráðið samdi og samþykkti einum rómi frumvarp að nýrri stjórnarskrá 2011 á grundvelli fyrirliggjandi gagna, gamalla og nýrra, og niðurstöðu þjóðarfundarins.

Alþingi tók við frumvarpinu júlílok 2011, bar síðan ýmis álitamál undir aukafund Stjórnlagaráðs í marz 2011 og fékk svör. Alþingi bar síðan frumvarpið ásamt svörum frá aukafundi Stjórnlagaráðs undir fjögurra manna lögfræðinganefnd, sem var falið að leggja til orðalagsbreytingar á frumvarpinu, væri talin þörf á þeim, en engar nýjar efnisbreytingar. Ný gerð frumvarpsins með breytingum lögfræðinganefndarinnar hefur nú gengið í gegnum fyrstu umræðu á Alþingi og bíður annarrar umræðu í janúar að loknu jólaleyfi þingsins. Yfirlýsingar forsætisráðherra um framhald málsins verða ekki skildar á annan veg en svo, að ætlan þingmeirihlutans að baki frumvarpinu, meiri hluta, sem er skipaður þingmönnum úr öllum flokkum á þingi öðrum en Sjálfstæðisflokknum, sé að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi fyrir þinglok í marz 2013. Til álita kemur að leggja frumvarpið jafnframt aftur í dóm þjóðarinnar samhliða þingkosningunum 27. apríl. Þá gæfist þjóðinni færi á að ítreka stuðning sinn við frumvarpið, sem birtist skýrt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. Gangi þessi ætlan þingmeirihlutans eftir, bíður nýs þings að samþykkja frumvarpið fyrir sitt leyti. Nýtt Alþingi, hvernig sem það verður skipað, hlýtur að telja sér skylt að virða þjóðarviljann og samþykkja frumvarpið. Annað væri ósvinna.

Og hvað svo? Hreinlegast væri að hafa sama háttinn á og hafður var við stjórnarskrárbreytingarnar 1942 og 1959. Í þessu felst, að nýtt Alþingi gerir þá aðeins tvennt að loknum kosningum í vor: samþykkir stjórnarskrárfrumvarpið og einnig ný kosningalög í samræmi við nýja stjórnarskrá og boðar til nýrra þingkosninga haustið 2013. Með því væri tryggt, að þingmenn með lítið fylgi að baki sér, kosnir eftir úreltum kosningalögum, sætu ekki lengur á þingi en yfir sumarmánuðina 2013 líkt og gerðist 1942 og 1959. Nýtt Alþingi kæmi þá saman haustið 2013, kosið eftir nýjum lögum, og hæfist þá handa við að endurskoða þau lög, sem þarfnast endurnýjunar í ljósi nýrrar stjórnarskrár, t.d. fiskveiðistjórnarlögin. Í auðlindaákvæði stjórnarskrárfrumvarps ríkisstjórnarinnar stendur: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Ný fiskveiðistjórnarlög þurfa ekki síður en önnur lög að standast nýja stjórnarskrá.