DV
16. jan, 2015

Vetur í Moskvu

Ef Moskva væri kona, þætti mörgum hún vera hið mesta glæsikvendi. Borgin skartar fagurlega lýstum byggingum og minnismerkjum í vetrarmyrkrinu líkt og Liz Taylor og Za Za Gabor báru glitrandi skartgripi. Anita Ekberg, sem er nýfallin frá á níræðisaldri, þurfti enga skartgripi. Um hana sagði Bob Hope, að foreldrar hennar hefðu fengið Nóbelsverðlaun í arkitektúr. Nema þegar ég horfi á hluta herlegheitanna út um hótelgluggann minn hér í Moskvu – Kreml og dómkirkju Krists frelsara – velti ég því fyrir mér, hvort borgin hafi skartað svo fögrum sýnum á fyrri tíð, t.d. á Stalínstímanum 1924-1953. Mér er það til efs. Þeim fer fækkandi, sem sáu hvort tveggja með eigin augum. Verzlunargatan Tverskaya skartar nú fínni búðum en nokkru sinni fyrr og keppir við Laugaveginn eða a.m.k. Skólavörðustíginn og Madison Avenue.

Loftið er samt lævi blandið innan um allt ríkidæmið, sem blasir við augum gestsins í hjarta Moskvu. Rúblan er nýfallin um helming. Fyrir 1000 rúblur fengust fyrir nokkru 30 Bandaríkjadalir, en nú fást bara fimmtán. Þetta þýðir, að vinnulaun hafa skroppið saman um helming í dölum talið. Rússar taka eftir því. Það er sárasjaldgæft, að gjaldmiðill lands taki svo djúpa dýfu í einu vetfangi, en það hefur nú gerzt í Rússlandi líkt og gerðist á Íslandi 2007-2008. Íslendingar tóku eftir högginu, þótt úthald athyglinnar hefði mátt vera meira.

Hvers vegna féll rúblan um helming? Því veldur einkum tvennt. Efnahagsþvinganir Bandaríkjanna og ESB vegna íhlutunar Rússa í Úkraínu bíta hvað sem hver segir eins og Dmitry Medvedev forsætisráðherra viðurkenndi fúslega á fundi (Gaidar Forum), sem ég sat í vikunni. Medvedev lagði ríka áherzlu á traust. Traust, sagði hann, er ein mikilvægasta undirstaða nútímaefnahagslífs. Menn verða að geta treyst hver öðrum. Og til þess að það sé hægt, verða menn að verðskulda traust. Hann sagði það ekki, en það lá í orðunum: Það stoðar lítt að standa uppi trausti rúinn og biðja um traust eins og ekkert hafi í skorizt.

Hin höfuðskýringin á falli rúblunnar er hrap olíuverðs um helming á heimsmarkaði að undanförnu. Tekjur á mann og lífskjör í Rússlandi eru nátengd olíuverði, þar eð Rússar hafa ekki hirt um að reisa skjólveggi líkt og Norðmenn milli sveiflugangs á olíumörkuðum og ástandsins í þjóðarbúskapnum heima fyrir. Norska krónan hefur til samanburðar fallið um sjöttung gagnvart Bandaríkjadal í kjölfar hrapandi olíuverðs. Þess sér nú stað, hversu Norðmenn hafa gætt þess að halda olíuauði sínum í hæfilegri fjarlægð frá gangi efnahagsmála frá ári til árs. Olíusjóður Norðmanna nemur nú andvirði lítillar íbúðar á hvert mannsbarn í Noregi.

Einn ráðherrann í ríkisstjórn Pútíns barði sér á brjóst á fundinum og uppskar fögnuð sumra áheyrenda, þegar hann sagði: Það verður upplit á þeim, þegar olían hækkar aftur upp í 100 dali fatið! Forsætisráðherrann mælti af meiri hyggindum. Hann sagði: Við skulum ekki bíða þess, að olían hækki aftur í verði, heldur skulum við halda áfram umbótastarfinu, því að við eigum enn svo margt ógert á þeim vettvangi. Hann virðist líta svo á, að lækkun olíuverðs að undanförnu sé að miklum líkindum varanleg, og ekki bara það: Olíuverð gæti átt eftir að lækka enn meira, t.d. niður í 40 dali fatið. Því veldur m.a. bandarísk tækninýjung frá 2008, sem hefur ekki farið hátt. Þar vestra hefur mönnum lærzt að bora lárétt eftir olíu og skyldum orkugjöfum frekar en lóðrétt (þetta er kallað hydrolic fracturing eða einfaldlega fracking á ensku). Við þetta hefur framboð olíu og skyldra efna aukizt svo mjög, að verðið á olíu hlaut að hrapa. Takist öðrum þjóðum að beita sömu tækni og Bandaríkjamönnum, mun það leiða af sér enn frekari straumhvörf í orkumálum. Aðferðin er að vísu umdeild af umhverfisástæðum. Frakkar hafa t.d. lagt blátt bann við henni og kjósa heldur að halda sig við gamalgróin kjarnorkuver. Rafbílar gætu í ljósi þessarar óvæntu þróunar þurft að bíða aukinnar útbreiðslu enn um hríð.

Reynist lækkun olíuverðs á heimsmarkaði varanleg, gæti gengisfall rúblunnar einnig reynzt varanlegt eins og raunin varð á um íslenzku krónuna eftir hrun. Lægra gengi rúblunnar gæti reynzt Rússum vel. Við gamla genginu tókst Rússum varla að framleiða neitt, sem aðrir þjóðir kæra sig um að kaupa, nema helzt hráefni og vopn. Á venjulegu íslenzku heimili er yfirleitt ekki að finna neinar rússneskar vörur nema kannski vodkaflösku í frystinum. Á venjulegu rússnesku heimili er yfirleitt ekki heldur að finna neinn íslenzkan varning nema kannski lopapeysu. Þetta gæti átt eftir að breytast í báðum löndum í krafti nýs gengis gjaldmiðlanna. Hrun getur haft æskilegar aukaverkanir, sé vel á málum haldið.