5. sep, 2019

Vestur-Evrópa og Norður-Ameríka: Landsframleiðsla á vinnustund 1950 og 2015

Kaupmáttur landsframleiðslu á vinnustund er skásti hagræni kvarðinn á lífskjör almennings sem til er þar eð hann tekur fyrirhöfnina á bak við framleiðsluna — fjölda vinnustunda — með í reikninginn. Kaupmáttur landsframleiðslu á vinnustund er reiknaður í Bandaríkjadölum á verðlagi ársins 2014. Á myndinni sjáum við m.a. þrennt: (a) Munurinn á ríkasta landinu í hópnum (Lúxemborg) og fátækasta landinu (Tyrklandi) var áttfaldur 1950, en er nú þrefaldur. Þetta er til marks um hversu dregur saman með ríkum þjóðum og fátækum í efnahagslegu tilliti. (b) Munurinn á Bandaríkjunum og Íslandi var næstum þrefaldur (2,7) 1950. Dregið hefur saman með Bandaríkjamönnum og Íslendingum eins og vænta mátti, en samt er ennþá næstum helmingsmunur (40%). Bilið hefur breikkað frá hruni. (c) Munurinn á Noregi og Íslandi var 80% (1,8) 1950 Noregi í vil, en er nú næstum 90% (1,9). Ísland hefur dregizt aftur úr Noregi þvert á það sem búast hefði mátt við, enda virðist sem Íslendingar hefðu átt að geta gert sér mat úr sínum auðlindum og öðrum tækifærum til jafns við Norðmenn. Ísland safnaði skuldum og hrundi meðan Noregur safnaði eignum og blómgaðist.

Heimild: Groningen Total Economy Database.