Verðtrygging: Endurmat eða afnám?
Uppi er hávær krafa um endurskoðun eða afnám verðtryggingar húsnæðislána og annarra neytendalána. Því er vert að spyrja: Hvort væri skárra eða hyggilegra, að endurmeta verðtryggingu slíkra lána eða afnema verðtrygginguna tafarlaust?
Verðtrygging fjárskuldbindinga var í upphafi leidd í lög 1979 til að hemja óhóflega rýrnun sparifjár vegna langvinnrar verðbólgu. Fyrir daga verðtryggingarinnar báru lánveitendur alla áhættu vegna verðbólgu, og sparifé fólks fuðraði upp í bönkum og sjóðum. Lántakandi, sem keypti sér fjögurra herbergja íbúð, þurfti ekki að borga nema eitt eða tvö herbergi til baka. Við þessu ranglæti þurfti að bregðast. Það var gert með Ólafslögum 1979, sem kennd eru við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra.
Í framkvæmd hefur verðtryggingin reynzt hafa tvo megingalla:
- Þegar kaupgjald hækkaði hægar en verðlag, t.d. 2008-10, leiddi verðtryggingin til þess, að skuldir heimilanna uxu hraðar en laun og mörg heimili lentu í greiðsluerfiðleikum. Þeir, sem misstu vinnuna, lentu í enn meiri vandræðum.
- Vegna viðmiðunar fjárskuldbindinga við verðlag án tillits til kaupgjalds hafa lántakendur borið mesta áhættu vegna lánasamninga og lánveitendur borið litla áhættu.
Við bætast efasemdir lögfræðinga um lögmæti verðtryggingar húsnæðis- og neytendalána eins og hún hefur verið framkvæmd. Efasemdirnar snúast m.a. um, að bankar hafi vanrækt að kynna lántakendum til fulls þá áhættu, sem felst í verðtryggðum lánum á óvissum tímum í samræmi við reglur um neytendavernd innan EES, sem Ísland hefur lögleitt.
Væri verðtrygging afnumin tafarlaust, er hætt við, að ranglæti óbreyttrar verðtryggingar gagnvart lántakendum á húsnæðismarkaði myndi snúast upp í gamalkunnugt ranglæti gagnvart lánveitendum, t.d. lífeyrisþegum. Sporin hræða. Lífeyrissjóðir og aðrir eigendur sparifjár eiga nú að vísu fleiri og öruggari sparnaðarkosti en fyrir daga verðtryggingarinnar, en kostunum hefur fækkað eftir hrun. Gjaldeyrishöftin girða nú fyrir gengistryggðar fjárfestingar erlendis. Lýðræðisvaktin vill rétta hlut lántakenda gagnvart lánveitendum.
Lýðræðisvaktin leggur til, að húsnæðislán og önnur neyzlulán verði miðuð við nýja vísitölu, sem er ætlað að girða fyrir áhrif misgengis kaupgjalds og verðlags á hag heimilanna. Þetta væri hægt með því að miða höfuðstól húsnæðislána sjálfkrafa við verðlag þau ár sem kaupgjald hækkar hraðar en verðlag og við kaupgjald þau ár sem kaupgjald hækkar hægar en verðlag. Einnig væri hægt að miða húsnæðislán við blandaða vísitölu, sem tekur mið bæði af verðlagi og launum. Til álita kemur einnig að taka t.d. erlenda verðskelli og innlendar skattaálögur út úr vísitölunni. Tillagan gerir því ráð fyrir endurmati frekar en afnámi verðtryggingar. Markmiðið er jafnræði milli lánþega og lánveitenda, svo að
- Lántakendur skaðist ekki, þegar kaupmáttur launa minnkar (t.d. 1989-90, 1992-94 og 2008-10 og einnig um og eftir 1983);
- Lánveitendur haldi sínu, þegar kaupmáttur launa vex, sem er algengast;
- Veitt sé færi á, að höfuðstóll verðtryggðra lána verði endurreiknaður á grundvelli nýrrar vísitölu aftur í tímann, t.d. frá og með hruninu 2008, til að rétta hlut heimilanna;
- Betra færi skapist á umskipan bankamála og fjármálamarkaðar fram í tímann til að tryggja samkeppni;
- Lántakendum sé frjálst að velja milli lána, sem miðast við nýja vísitölu, og óverðtryggðra lána í skjóli nýrrar lagaverndar lántakenda gegn lánveitendum;
- Skilyrði skapist til afnáms verðtryggingar húsnæðis- og neytendalána sem almennrar reglu til samræmis við skipan mála í nálægum löndum.
Aðrar leiðir eru færar að sama marki, t.d. viðmiðun húsnæðislána við verðbólgumarkmið Seðlabankans frekar en við núgildandi verðvísitölu. Þak á vísitöluhækkun lána kæmi einnig til álita og einnig lán með tekjuskilyrtri endurgreiðslu, þannig að höfuðstóll væri að fullu verðtryggður, en endurgreiðsla ávallt fast hlutfall af tekjum. Kosti og galla ólíkra leiða og kostnaðinn, sem af þeim leiðir, þarf að vega og meta. Tryggja þarf virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa, svo að vextir og gjaldtaka lánastofnana geti orðið með svipuðum hætti og í nálægum löndum og lántakendur geti auðveldlega endurfjármagnað lán sín, bjóðist betri kjör. Til að auka samkeppni þarf að lækka kostnað við að flytja viðskipti á milli banka, m.a. með afnámi stimpilgjalda. Með lögum þarf að knýja bankana til að taka sér tak, banna kaupauka bankastjórnenda (bankarnir eru aftur komnir í gamla gírinn!) og girða fyrir getu banka til að braska með innstæður.
Miklar skuldir eru ekki aðeins á ábyrgð lántakandans, heldur einnig lánveitandans. Engum verður gert að bera þyngri skuldabyrði en hann getur borið. Réttlát skuldajöfnun felst í, að skuldunautar semja við lánardrottna á réttum grunni, þar sem báðir aðilar sitja við sama borð. Það vill Lýðræðisvaktin: að allir sitji við sama borð.