Fréttablaðið
1. feb, 2007

Velsæmisástæður og evran

Jónas H. Haralz fyrrverandi bankastjóri leggur ævinlega gott til málanna, þegar hann er spurður álits um efnahagsmál. Það var því frískandi og fróðlegt að heyra hann spjalla við Jón Guðna Kristjánsson fréttamann í Speglinum í Ríkisútvarpinu 24. janúar. Þar lýsti Jónas þeirri skoðun, að umræðan að undanförnu um upptöku evrunnar á Íslandi væri ekki á réttri braut. Hann sagði, að menn mættu ekki líta á upptöku evrunnar sem lausn á þeim efnahagsvanda, sem við er að glíma og birtist í sveiflum á gengi krónunnar, háum vöxtum, verðbólgu, viðskiptahalla og væntanlegu gengisfalli. Hann benti á, að upptaka evrunnar myndi fela í sér gerbreytingu á umgerð efnahagslífsins og Íslendingar fái í öllu falli ekki leyfi til að taka upp evruna, nema þeir komi hagstjórninni í betra horf. Vandinn, sagði Jónas, er sá, að ,,hagstjórnin hefur ekki verið eins og hún ætti að hafa verið.“ Hann lýsti sök á hendur Seðlabankanum og ríkisstjórninni og nefndi einnig ábyrgð sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Það er vert að hlusta, þegar einn áhrifamesti sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum um margra áratuga skeið gefur flokknum falleinkunn fyrir hagstjórn og tekur undir sjónarmið okkar, sem höfum haldið fram sömu skoðun utan virkisveggja stjórnmálaflokkanna. Við fögnum liðsaukanum.

Umræðan um evruna hefur vakið tvær lykilspurningar. Önnur spurningin er þessi: Er hægt að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið (ESB)? Svarið er nei. Það gæti að vísu kannski verið hægt að semja um upptöku evrunnar á Íslandi eins og Andorra, Mónakó, Páfagarður og San Marínó hafa gert, en það er ekki raunhæfur kostur. Það væri nýlunda í utanríkisstefnu Íslendinga, ef við kysum að skipa okkur í lið með ófullburða örríkjum eins og þessum fjórum frekar en að taka okkur stöðu í hópi Norðurlandanna og annarra Evrópuríkja eins og við höfum hingað til alltaf gert. Til þess að geta tekið upp evruna þurfum við að ganga í ESB, enda hníga þung efnahags- og stjórnmálarök að þeirri niðurstöðu, hvað sem evrunni líður. Mótrökin eru einnig mikilvæg, en þau eru að minni hyggju léttvægari en rökin með. Ég lýsi báðum sjónarmiðum í ritgerðinni Öndverð sjónarmið, sem mun birtast í ráðstefnuriti Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands innan skamms. Við þyrftum í öllu falli samkvæmt reglum ESB að koma verðbólgunni hér heima niður fyrir þrjú prósent á ári, áður en okkur veittist kostur á að taka upp evruna.

Hin spurningin er þessi: Eigum við að bíða þess, að ríkisstjórninni takist að koma hagstjórninni í viðunandi horf, eins og Jónas Haralz heldur fram, og taka þá loksins upp evruþráðinn? Eða eigum við að stefna strax á ESB-aðild og evruna til að knýja á um betri hagstjórn? Ég hallast að síðari leiðinni. Hængurinn á fyrri leiðinni er sá, að ríkisstjórnin hefur engan sýnilegan hug á að koma hagstjórninni í betra horf. Hún hefur haft næg tækifæri til þess, enda hefur hún ráðið hér lögum og lofum frá 1995. Verðbólgan nú, hin næstmesta í allri Evrópu að Tyrklandi einu undan skildu, er eins og hún er vegna þess, að einmitt þannig vill ríkisstjórnin hafa það. Ríkisstjórnin hefur hag af verðbólgu vegna þess, að verðbólga er fylgifiskur kosningavíxlanna, sem stjórnin sendir nú frá sér í allar áttir. Verðbólgan er óhjákvæmileg afleiðing af lausatökum í ríkisfjármálum mörg undangengin ár, ábyrgðarlausri útþenslu íbúðalána í atkvæðakaupaskyni og risavöxnum, ríkistryggðum stóriðjuframkvæmdum án nauðsynlegs aðhalds til mótvægis. Það var því eftir öðru, að ríkisstjórnin skyldi ákveða að þenja ríkisbúskapinn út með því að eyða strax fénu, sem kom í ríkiskassann við sölu Landssímans, í stað þess að leggja féð til hliðar til að kæla hagkerfið. Allt leggst þetta á sömu sveif. Það kemur sér að auki vel fyrir ríkisstjórnina að hafa verðbólguna eins og hún er, því að þá er tómt mál að tala um inngöngu í ESB.

Þess vegna segi ég: Við skulum stefna strax á inngöngu í ESB og upptöku evrunnar, því að þá verður ekki lengur undan því vikizt að koma hagstjórninni í heilbrigt horf. Sumir segja, að við þurfum ekki á ESB-aðild að halda, því að við getum á eigin spýtur gert allt, sem við viljum. Reynslan kippir fótunum undan þessari skoðun. Við þurfum einmitt á ESB-aðild að halda til að brjótast undan ofríki innlendra sérhagsmuna, sem halda matarverði, vöxtum og verðbólgu langt fyrir ofan viðunandi velsæmismörk.