DV
7. nóv, 2011

Veikur málatilbúnaður

Veikur – og ekki bara veikur, heldur beinlínis fráleitur – þykir mér málatilbúnaður Bjargar Thorarensen lagaprófessors gegn frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Björg lýsti þeirri skoðun í fréttum Stöðvar 2 fyrir helgi, að „hnökrar“ væru á frumvarpinu. Áheyrendur tóku væntanlega eftir því, að hún tilgreindi ekki „hnökrana“. Á málþingi um ákvæði frumvarpsins um hlutverk forseta Íslands í Þjóðminjasafninu fyrr sama dag hafði hún tilgreint fáeina „hnökra“, en málflutningur hennar var jafnharðan rekinn ofan í hana utan úr sal.

Í fyrsta lagi taldi hún frumvarpið, verði það samþykkt, líklegt til að leiða til árekstra innan stjórnkerfisins. Það, sem hún kallar árekstra, kallar Stjórnlagaráð valddreifingu. Frumvarpinu er ætlað að efla valdmörk og mótvægi, gagnkvæmt aðhald og eftirlit, svo að framkvæmdarvaldið geti ekki haft löggjafarvaldið í öðrum rassvasanum og dómsvaldið í hinum eins og verið hefur. Í þessu felst, að löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald þurfa að einhverju marki að skarast. Þetta er grundvallareiginleiki heilbrigðrar þrískiptingar valds, þar sem enginn valdþáttanna þriggja nær að gína yfir hinum. Skörun býður heim árekstrum, sem eru sjálfsagður fylgifiskur valddreifingar.

Í annan stað lýsti hún efasemdum um nauðsyn þess að setja í stjórnarskrána ákvæði um, að forseti Íslands eða 2/3 hlutar alþingismanna þurfi að staðfesta skipun dómara. Hún styður efasemdir sínar þeim rökum, líkt og Álfheiður Ingadóttir alþingismaður hefur gert, að búið sé að setja ný dómstólalög, sem kveða á um hæfniskröfur til dómara. Björg og Álfheiður þurfa að skilja, að stundum þarf að setja lagaákvæði í stjórnarskrá til að girða fyrir hættuna á, að lögin séu felld úr gildi til að gera stjórnvöldum kleift að hverfa aftur til fyrri hátta. Þetta er grundvallaratriði í stjórnskipunarrétti. Stjórnarskránni er ætlað að verja almenning gegn misbeitingu valds.

Í þriðja lagi taldi Björg „ósamræmi“ felast í því, að réttur forseta Íslands til að skjóta samþykktum lögum frá Alþingi í þjóðaratkvæði sé ótakmarkaður svo sem verið hefur, þótt málskotsréttur 10% kosningabærra manna sé takmarkaður á þann hátt, að ekki sé hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Hér er engu ósamræmi til að dreifa. Stjórnlagaráði þótti eðlilegt að kveða á um, að 10% kjósenda geti ekki tekið sig saman um að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu t.d. um fjárlög. Fyrirmynd að slíkri takmörkun er að finna t.d. í dönsku stjórnarskránni. Einnig þótti eðlilegt að halda óbreyttum ótakmörkuðum málskotsrétti forsetans frá 1944, svo sem gert er í frumvarpi Stjórnlagaráðs, þannig að forsetinn geti, telji hann efnisleg rök til þess, vísað t.d. fjárlögum í þjóðaratkvæði, en slíkt hefur forsetinn auðvitað aldrei gert og myndi næstum örugglega aldrei gera.

Björg Thorarensen átti sæti í stjórnlaganefnd, tilnefnd af Alþingi. Hún var því meðal höfunda 700 blaðsíðna skýrslu stjórnlaganefndar, sem Stjórnlagaráð lagði ásamt öðrum skjölum til grundvallar vinnu sinni. Hún var jafnframt meðal ráðgjafa Stjórnlagaráðs, kom á nefndarfundi þar og skilaði skriflegum álitsgerðum til ráðsins. Við samningu frumvarpsins var tekið tillit til sjónarmiða hennar líkt og annarra svo sem efni þóttu standa til, en auðvitað fékk Björg ekki frekar en aðrir ráðgjafar Stjórnlagaráðs að ráða öllu, sem hún vildi ráða um frumvarpið.

Séu hnökrar á frumvarpinu, hefur Björgu Thorarensen ekki tekizt að afhjúpa þá, enda er hún ekki vel til þess fallin sem aðili að málinu. Hún hefur sama rétt og aðrir til að vera efnislega ósammála tilteknum ákvæðum frumvarpsins (og getur í samræmi við það ráðstafað atkvæði sínu í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu), en einkalegur efniságreiningur af hennar hálfu á ekkert skylt við stjórnlagafræði.