Fréttablaðið
21. feb, 2008

Vandamál hvers?

Tveir af helztu frumkvöðlum atvinnulífsins létu nýlega falla ummæli, sem hljóta að vekja eftirtekt og umhugsun, hvor á sinn hátt. Björgólfur Thor Björgólfsson, annar aðaleigandi Landsbankans og Straums, vakti í sjónvarpsviðtali máls á þeim möguleika, að Íslendingar taki upp svissneskan franka í stað krónunnar til að draga úr þeirri áhættu og óvissu, sem krónan leggur akkerislaus á efnahagslífið, af því að hún er örmynt og má sín ekki mikils í ólgusjó heimsfjármálanna. Tillaga Björgólfs vitnar ekki um glöggt hagskyn, enda hefur hún engan hljómgrunn fengið, jafnvel ekki meðal stjórnmálamanna. Enginn málsmetandi viðskiptaleiðtogi í Noregi myndi tefla fram svo fráleitri hugmynd í umræðum um afstöðu Norðmanna til ESB, né heldur heyrðust slík sjónarmið í aðdraganda aðildar Finnlands og Svíþjóðar að ESB á sínum tíma. Hluthafar í fyrirtækjum þar gætu ekki borið óskorað traust til viðskiptaleiðtoga, sem léti svo athugunarlaus ummæli falla um svo mikilvægt mál. Stjórnmálamenn leyfa sér að tala út og suður, það er þeirra háttur sumra hér frá gamalli tíð langt umfram nálæg lönd, og enginn kippir sér upp við það. En viðskiptaleiðtogar nýrrar kynslóðar þurfa að standast strangari kröfur. Tillaga Björgólfs er fráleit vegna þess, að með því að taka upp svissneskan franka sem lögeyri myndu Íslendingar kasta frá sér öllum kostum fullrar aðildar að ESB öðrum en föstu gengi og segja sig um leið úr lögum við þær þjóðir, sem við höfum allan lýðveldistímann eða lengur haft nánast samneyti við. Tillögu Björgólfs svipar til furðuhugmynda í þá veru, að Íslendingar taki upp evruna á eigin spýtur líkt og Svartfellingar og fáeinar aðrar utangarðsþjóðir. Hún virðist hafa verið sett fram til að koma til móts við sjónarmið stjórnmálamanna, einkum í Sjálfstæðisflokknum, sem mega ekki til þess hugsa að missa andlitið með því að láta af mosavaxinni andstöðu sinni við inngöngu Íslands í ESB.

Hin ummælin voru í Ríkisútvarpinu höfð eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, einum af óbeinum kjölfestuhluthöfum Glitnis: „Takist íslensku bönkunum ekki að fjármagna sig er það vandamál þjóðarinnar allrar.“ Þessa afstöðu bankahluthafans þarf að skoða í ljósi ummæla forsætisráðherra á Alþingi nýlega um óbeina ábyrgð ríkisins á bönkunum. Jón Ásgeir sagði, að það virtist vera álit manna úti í heimi, að íslensku bankarnir séu „hreinlega gjaldþrota.“ Daginn eftir dró hann í land og sagðist telja, að bankarnir standi vel. Hann lýsti þeirri skoðun, að Íslendingar þurfi að ganga í ESB, svo að bankarnir geti haldið áfram að vaxa. Jóni Ásgeiri er það sýnilega jafnljóst og öðrum málsmetandi viðskiptaleiðtogum í nálægum löndum, að hag atvinnulífsins er bezt borgið innan ESB. Andstaða gegn aðild hlýtur að berast úr öðrum áttum. En Samtök atvinnulífsins geta samt í hvorugan fótinn stigið nema kannski á leynifundum, ekki frekar en Vörður eða Hvöt.

Eru bankarnir of stórir til að standa á eigin fótum eða falla? – eins og sagt var á sinni tíð um Samband íslenzkra samvinnufélaga. Ég segi nei. Bankarnir verða að standa á eigin fótum. Þeir geta ekki verið þekktir fyrir að hlaupa undir pilsfald ríkisins. Í fyrsta lagi er beinni ríkisábyrgð á bönkunum ekki lengur til að dreifa, enda eru þeir nú í einkaeigu. Innstæður eru tryggðar, en ekki til fulls; lögum frá 1999 er ætlað að „veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum … lágmarksvernd.“ Í annan stað eru íslenzku bankarnir nú með annan fótinn í útlöndum. Hví skyldu íslenzkir skattgreiðendur þurfa að ábyrgjast viðskipti bankanna erlendis? Útrás bankanna til annarra landa hlaut að fela í sér afsal ríkisábyrgðar. Þessu afsali þurfa bankarnir nú að gefnu tilefni að gangast við vafningalaust. Í þriðja lagi getur aðeins ein björgunaraðgerð komið til greina af hálfu ríkisins, skyldu bankarnir komast í kröggur og kalla eftir hjálp. Það er tímabundin endurþjóðnýting af því tagi, sem grípa þurfti til í bankakreppunni á Norðurlöndum 1988-93 og nú síðast fyrir nokkrum dögum á Bretlandi. Hafi bankarnir farið sér svo óðslega, að þeir reynist „hreinlega gjaldþrota,“ eins og Jón Ásgeir Jóhannesson ýjaði að, hlýtur einkavæðing þeirra að teljast hafa mistekizt svo hrapallega, að nauðsyn beri til að koma bönkunum í betri hendur og draga núverandi eigendur þeirra til ábyrgðar frekar en skattgreiðendur eða aðra saklausa vegfarendur. Fari svo, hefur mikill vaxtamunur – háir útlánsvextir, lágir innlánvextir – í vernduðu fákeppnisumhverfi ekki dugað bönkunum til að spjara sig og ekki heldur forgjöfin til eigendanna, sem fólst í einkavæðingu bankanna langt undir markaðsverði að mati Ríkisendurskoðunar.