DV
21. jún, 2013

Vald hinna valdalausu

Atburðir síðustu daga hafa leitt hugann að frægri ritgerð leikskáldsins og andófsmannsins Vaclavs Havel, sem hann skrifaði 1978 og dreift var með leynd, „Vald hinna valdalausu“. Ritgerð Havels hefst á þessum orðum: „Vofa gengur nú ljósum logum um Austur-Evrópu – vofa þess, sem í Vestur-Evrópu er kallað andóf.“ Havel skildi, að einræðisstjórn kommúnista bar dauðann í sér eins og kom á daginn, en þó ekki fyrr en ellefu árum síðar, 1989, þegar Berlínarmúrinn hrundi – nei, var brotinn niður af manna höndum.

Greining Havels reyndist rétt í grundvallaratriðum. Hann lýsti stjórnarfari kommúnista svo:

„Einstaklingar þurfa ekki að trúa allri lyginni, en þeir þurfa að hegða sér eins og þeir trúi henni eða a.m.k. umbera lygina þegjandi … Þess vegna þurfa þeir að lifa lífinu ljúgandi. Þeir þurfa ekki að gangast við lyginni. Það er nóg fyrir þá að taka því að lifa lífi sínu með lyginni og fyrir lygina. Og þannig gangast þeir við skipulaginu, festa það í sessi, fullkomna skipulagið, eru skipulagið.“

Halldór Kiljan Laxness lýsti sama vanda fyrir 1930: „Það getur enginn heilbrigður maður dregið andann hér í landinu fyrir vitlausum kenningum, nema uppi á öræfum. Strax og komið er til byggða, tekur lygin við.“

Íslendingar lifa við endalaus ósannindi. Gegn skýrum vitnisburðum um hið gagnstæða tala menn t.d. enn um „hreinasta og ómengaðasta land í heimi“, „sáralítið brottkast“ og „hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi“ eins og ekkert hafi í skorizt. Látum „hreinasta og ómengaðasta land í heimi“ og „sáralítið brottkast“ liggja milli hluta að sinni.

Í meira en 40 ár hafa hagfræðingar og aðrir – fyrst Bjarni Bragi Jónsson, Gunnar Tómasson, Gylfi Þ. Gíslason og Þorkell Helgason, svo að fjórir menn séu tilgreindir, og síðan margir aðrir, þ. á m. ég sjálfur í bráðum 30 ár – mælt fyrir veiðigjaldi sem heilbrigðri markaðslausn á fiskveiðistjórnarvandanum. Alþingi kaus að fara aðra leið. Vitað er og skjalfest, að fyrsta frumvarpið, sem lagði drög að kvótakerfinu, var samið á skrifstofum LÍÚ, og Alþingi hleypti því í gegn nánast án umræðu. Þetta var 1983. Þá var lagður nýr grunnur að óförum og ófriði. Þing og þjóð voru vöruð við afleiðingum þess, að Alþingi byggi til nýja stétt auðmanna með einu pennastriki, þar eð með því væri lýðræðinu beinlínis stofnað í hættu. Stjórnmálaflokkarnir drógu lappirnar og féllust loks á málamyndagjald fyrir veiðiréttinn 2002. Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, segir í einni bóka sinna: „Handhafar kvótans … höfðu líf plássanna í hendi sér. … Það jafngilti pólitísku sjálfsmorði að rísa upp gegn handhafa kvóta á landsbyggðinni.“

Eftir hrun neyddust stjórnmálaflokkarnir til að þykjast gera hreint fyrir dyrum sínum með því að birta upplýsingar um fjárframlög fyrirtækja til flokkanna frá 2008. Fulltrúar flokkanna, þ. á m. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sátu í nefndinni, sem samdi reglurnar (Nefnd um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi). Nú vitum við, að Sjálfstæðisflokkurinn tók árin 2008-2011 við 23 mkr. frá útvegsfyrirtækjum, Framsókn fékk 9 mkr. og aðrir flokkar 3 mkr. (heimild: Ríkisendurskoðun). Auðvitað þarf að rekja þráðinn allar götur aftur til 1983.
Í þessu ljósi þarf að skoða þá ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar, sem lofaði tafarlausri leiðréttingu á skuldum heimilanna, að láta það samt verða eitt sitt fyrsta verk að leggja fram frumvarp um lækkun veiðigjalds. Þetta minnir á bandaríska repúblikana, sem sigruðu demókrata hvað eftir annað með því að lofa að skera upp herör gegn fóstureyðingum, en notuðu sigrana til þess eins að létta skattbyrði auðmanna. Robert Dole, fv. varaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana, lagði til í sjónvarpi um daginn, að flokkur hans hengdi upp skilti, sem á stæði: Lokað vegna viðgerða.

Hingað til hefur erindrekum útvegsmanna á Alþingi haldizt uppi að storka lýðræðinu með því að ganga gegn skýrum vilja þjóðarinnar eins og hann birtist t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslunni um frumvarp að nýrri stjórnarskrá, þar sem 83% kjósenda sögðust styðja ákvæði um auðlindir í þjóðareigu og m.a. er kveðið á um fullt gjald, þ.e. markaðsverð, fyrir nýtingarréttinn. Nýja ríkisstjórnin ætlar að fara sínu fram að boði LÍÚ, en stendur nú frammi fyrir tugþúsundum kjósenda sem segja: Hingað og ekki lengra.

Væri nýja stjórnarskráin gengin í gildi í samræmi við vilja 67% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október s.l., myndu 23.800 undirskriftir duga til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um veiðigjald. Undirskriftirnar eru nú þegar, á örfáum dögum, orðnar miklu fleiri en svo. Ef Alþingi hlýðir ekki kalli hinna valdalausu, hlýtur forseti Íslands að vísa málinu í þjóðaratkvæði. Nýja stjórnarskráin kveður að vísu á um, að þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda megi ekki fjalla um „fjárlög, fjáraukalög … né heldur um skattamálefni“, en það á ekki við hér, þar eð veiðigjald er ekki skattur alveg eins og húsaleiga er ekki skattur, heldur afgjald fyrir nýtingarrétt.