28. nóv, 2006

Útgjöld til heilbrigðismála leiðrétt miðað við aldur 2001

Mynd 93. Hér sjáum við vinstra megin á myndinni hrá útgjöld almannavaldsins og einstaklinga til heilbrigðismála 2001. Með hráum útgjöldum er átt við útgjöldin eins og þau koma af skepnunni, þ.e. eins og þau birtast í ríkisreikningi og þjóðhagsreikningum. Þarna sést, að Ísland er langt fyrir ofan meðallag innan OECD. Við verjum 9,2% landsframleiðslunnar til heilbrigðismála – og það þótt hér sé hlutfallslega fátt gamalt fólk, sjá mynd 92. Hægra megin á myndinni að ofan sjáum við sömu tölur leiðréttar miðað við aldurssamsetningu. Þetta er gert með því að margfalda hverja tölu á vinstri myndinni með meðalhlutfalli gamals fólks í mannfjöldanum í OECD-löndunum í heild og deila síðan með hlutfalli gamals fólks í mannfjöldanum í hverju landi fyrir sig. Þannig fæst mynd af því, hver útgjöldin væru í einstökum löndum, ef aldurssamsetningin væri alls staðar eins. Þessi leiðrétting lyftir Íslandi upp úr áttunda sæti á vinstri myndinni í þriðja sæti á hægri myndinni. Er það gott? Það er álitamál. Sumir kunna að líta svo á, að þetta sé til marks um mikla rækt yfirvalda og almennings við heilbrigðismál og vitni um gott heilbrigðiskerfi. Aðrir gætu túlkað tölurnar svo, að þær séu þvert á móti til marks um óhagkvæmni: mikið vanti upp á það, að heilbrigðiskerfið fullnægi þeim kröfum, sem til þess þurfi að gera, og því sé það óheppilegt, að það skuli vera svona dýrt í þokkabót. Úr þessum ágreiningi er ekki með góðu móti hægt að greiða vegna þess, að sjálfstæður mælikvarði á afurðir heilbrigðiskerfisins er vandfundinn. Þarna er verk að vinna handa talnasmiðum OECD, en sú merka stofnun hefur á liðnum árum unnið stórvirki í gagnagerð um ýmsa aðra þætti efnahagslífsins, svo sem vinnumarkað, menntamál og landbúnað. Sjá meira um málið í Menntun, aldur og heilbrigði.