Um traust
Hugsum okkur tvö lönd, sem eru alveg eins að öllu leyti öðru en því, að í öðru landinu eru stjórnmál og viðskipti morandi í spillingu og í hinu er engri teljandi spillingu til að dreifa. Í hvoru landinu myndir þú heldur vilja búa? Spurningin svarar sér sjálf. Þjóðhagsreikningar ná ekki yfir spillingu, heldur aðeins yfir landsframleiðslu, þjóðartekjur og slíkar stærðir og gera því engan greinarmun á spilltum löndum og óspilltum. Þess vegna m.a. var spilling ekki til umræðu sem þjóðhagsstærð lengi vel víðast hvar nema í skúmaskotum, jafnvel ekki í gerspilltum löndum, þar eð engum haldbærum upplýsingum um vandann var til að dreifa. Upplýsingaleysið kallaði á viðbrögð. Mönnum varð ljóst, að þurrir hagvísar ná ekki að segja alla söguna um velferð og viðgang þjóða. Meira þurfti til.
Þannig gerðist það, að Transparency International var sett á laggirnar, fjölþjóðlegt átak gegn spillingu, þar sem helzta vopnið var að afla upplýsinga um spillingu og svipta hulunni af henni. Þannig vitum við nú eða þykjumst vita, að Danmörk, Nýja-Sjáland, Finnland, Svíþjóð og Noregur teljast búa við minnsta spillingu í viðskiptum meðal landa heimsins (Ísland stendur þeim alllangt að baki skv. mælingum Transparency International), og Sómalía, Norður-Kórea, Afganistan og Súdan teljast búa við mesta spillingu. Mælingarnar eru reistar á viðtalskönnunum við heimamenn og gesti, sem stunda viðskipti, og ná yfir mútur, óeðlilega fyrirgreiðslu og meðfylgjandi mismunun.
Transparency International er ekki lengur eitt um hituna. Fleiri stofnanir birta nú upplýsingar um útbreiðslu spillingar um heiminn. Gallup birti t.d. í fyrra niðurstöðu könnunar, þar sem fram kemur, að meiri hluti aðspurðra í 108 löndum af 129 telur spillingu í stjórnmálum og stjórnsýslu vera útbreitt vandamál, ekki aðeins í löndum, þar sem fjölmiðlum er haldið niðri og fáar fréttir berast af spillingu, heldur einnig sums staðar annars staðar, þar sem fjölmiðlar eru frjálsir. Í Tékklandi t.d. telja 94% aðspurðra spillingu vera alvarlegt vandamál og 86% á Ítalíu (enginn hissa á því) borið saman við 15% í Danmörku og 14% í Svíþjóð.
Til samanburðar telja 67% aðspurðra á Íslandi spillingu vera alvarlegt vandamál í stjórnmálum og stjórnsýslu skv. könnun Gallups. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart eftir allt, sem á undan er gengið. Ísland er ekki eitt á báti. Ýmis önnur Evrópulönd eiga við enn meiri eða sama spillingarvanda að etja: Albanína (82%), Austurríki (67%), Bosnía og Herzegóvína (89%), Búlgaría (75%), Grikkland (92%), Króatía (74%), Kýpur (76%), Lettland (75%), Litháen (90%), Makedónia (67%), Moldóva (84%), Pólland (68%), Portúgal (88%), Rúmenía (80%), Rússland (80%), Serbía (84%), Slóvakía (71%), Slóvenía (76%), Spánn (76%), Ungverjaland (79%) og Úkraína (77%) auk Ítalíu og Tékklands. Öll önnur Evrópulönd eru óspilltari en Ísland skv. könnun Gallups. Þetta skiptir máli m.a. vegna þess, að spilling hamlar vexti og viðgangi efnahagslífsins og bitnar því á lífskjörum til langs tíma litið.
Ein ástæðan til þess, að spilling slævir hagvöxt, er þessi: Spilling grefur undan trausti manna hvers á öðrum. Nú ber svo við, að annað fjölþjóðlegt átak (World Values Survey) hefur staðið yfir í rösk 30 ár til að vega og meta með viðtalskönnunum traustið, sem menn bera hver til annars. Þar eru menn spurðir, hvort flestu fólki sé treystandi eða hvort menn þurfi að gæta ýtrustu varúðar í samskiptum við annað fólk. Þar kemur fram, að traustið, sem Íslendingar bera hver til annars, var löngu fyrir hrun miklu minna en annars staðar um Norðurlönd. Ein vísitalan, sem notuð er til að mæla traust, er 100 plús hlutfall (%) þeirra, sem telja, að flestu öðru fólki sé treystandi, að frádregnu hlutfalli (%) þeirra, sem telja sig þurfa að gæta ýtrustu varúðar í samskiptum við annað fólk. Vísitala yfir 100 vitnar um, að meiri hlutinn treystir öðru fólki, en vísitala undir 100 vitnar um, að meiri hlutinn vantreystir öðru fólki. Ísland mældist 1999 með traustvísitöluna 83 borið saman við 132 í Danmörku (1999), 118 í Finnlandi (2005), 148 í Noregi (2007) og 134 í Svíþjóð (2006).
Tvennt vekur athygli í þessum tölum um traust milli manna. Í fyrsta lagi er Ísland á allt öðrum stað en önnur Norðurlönd líkt og í spillingartölunum að framan. Í öðru lagi var vantraust milli manna landlægt hér heima löngu fyrir hrun. Spilling og vantraust voru því trúlega meðal orsaka hrunsins frekar en afleiðingar hrunsins.
Hvað er til ráða? Spillingu er eða ætti a.m.k. að vera hægt að uppræta á tiltölulega skömmum tíma með lögum og eftirfylgni. Vantraust er erfiðara viðfangs. Reynslan sýnir, að glatað traust er jafnan erfitt og tímafrekt að endurheimta. Það getur tekið margar kynslóðir. Traust milli manna er í öllu falli ekki hægt að endurvekja með lögum. En heilbrigt eftirlit getur hjálpað til að girða fyrir svik og pretti og efla traust með tímanum.