DV
18. júl, 2014

Um siðblindu

Hrunið, aðdragandi þess og eftirleikur breyttu Íslandi í hálfgildings blóðvöll eins og búast mátti við. Úlfúðin tekur á sig ýmsar myndir. Þungar ásakanir eru bornar fram. Einelti og ofsóknir hafa færzt í vöxt á vinnustöðum, einnig málaferli. Þess eru dæmi, að reynt hafi verið að þagga niður í mönnum með því að hóta þeim lögsókn eða draga þá fyrir dóm. Aðrir hafa misst vinnuna vegna skoðana sinna. Þung orð, sem menn notuðu sjaldan eða ekki áður fyrr svo aðrir heyrðu, eru nú býsna algeng í opinberri umræðu. Eitt þeirra er siðblinda, sem t.d. Jónas Kristjánsson ritstjóri notar stundum um stjórnmálamenn og aðra.

Aukin harka birtist með ýmsu öðru móti. Fv. dómsmálaráðherra hefur lýst þeirri skoðun, að eðlilegt sé, að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hafi aðkomu að vali nýs seðlabankastjóra, þar eð „á ábyrgð seðlabankastjóra hafa verið teknar ákvarðanir sem sumir telja brjóta í bága við lög.“ Það virðist ekki skipta ráðherrann fv. máli, ekki frekar en lögreglustjórann sjálfan, að lögreglustjórinn er sem stendur umsækjandi um annað starf hjá ríkinu. Til að girða fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi og vanda til verka er forseta Íslands falið að skipa formann sjálfstæðrar nefndar til að fjalla um skipun æðstu embættismanna skv. frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, sem 2/3 hluta kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og Alþingi heldur nú í gíslingu. Eitt dæmi enn um aukna hörku: Fram er komin annars vegar kæra og hins vegar opinber ásökun um lögbrot á hendur tveim sitjandi hæstaréttardómurum og sérstökum saksóknara. Morgunblaðið birti 25. júní 2006 eftirminnilegt Reykjavíkurbréf um „andrúmsloft dauðans“ – það var áhrifarík aldarfarslýsing – og felldi síðan talið.

Siðblinda er ungt orð. Elzta dæmið í Orðabók Háskólans er að finna í ritgerð eftir Halldór Laxness, sem hann endurbirti í Sjálfsagðir hlutir 1946. Þá eins og nú var hiti í mönnum. Siðleysi er hundrað árum eldra orð og kom stundum fyrir í fjölmiðlum löngu fyrir hrun.

Munurinn á siðblindu og siðleysi er sá, að siðleysinginn þekkir muninn á góðum og vondum siðum og veit því, hvenær hann fer út fyrir velsæmismörk. Siðblindinginn þekkir ekki muninn á góðum siðum og siðleysi og hefur því ekki hugmynd um, hvenær hann fer yfir strikið. Hvor er ámælisverðari? Kannski siðleysinginn eftir kenningu Krists: „Fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra“.

Þessi merkingarmunur er hliðstæður muninum á lygum og þvættingi eins og Harry G. Frankfurt, heimspekiprófessor í Princetonháskóla, hefur lýst í bók sinni On Bullshit (2005; Um þvætting). Lygarinn þekkir muninn á sannindum og ósannindum og hallar réttu máli vitandi vits. Bullarinn hefur ekki fyrir því að kynna sér staðreyndir og fer áhyggjulaust með staðlausa stafi. Hvor er skaðlegri?

Heimska var bróðurpartinn af öldinni sem leið nánast bannorð í bandarískri stjórnmálaumræðu. Stíflan brast árið 2001, eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna skipaði George W. Bush forseta Bandaríkjanna með fimm atkvæðum gegn fjórum eftir flokkslínum. John Paul Stevens, einn reyndasti hæstaréttardómari Bandaríkjanna fyrr og síðar, sagði, að með þessu hefði Hæstiréttur fyrirgert því trausti, sem fólkið í landinu gæti borið til réttarins. Alan M. Dershowitz lagaprófessor í Harvardháskóla tekur í sama streng í bók sinni Supreme Injustice: How the High Court Hijacked Election 2000. Eftir þetta var heimska ekki lengur bannorð í bandarískri stjórnmálaumræðu. Demókratar og repúblikanar á Bandaríkjaþingi talast varla við, svo mikil er úlfúðin. Bandaríkin njóta ekki lengur sömu virðingar og sama trausts og áður.

Þessir atburðir vestra ríma við reynsluna hér heima. Jónas Kristjánsson birti 7. júlí s.l. örleiðara á vefsetri sínu undir yfirskriftinni Siðrof Hæstaréttar. Þar segir: „Hæstiréttur framdi siðrof, þegar hann ógilti kosningar til stjórnlagaþings á tæknilegum forsendum. Hann gat ávítað Landskjörstjórn eða beitt viðeigandi viðurlögum fyrir losaralega túlkun á reglum um fyrirkomulag á kjörstöðum. En Hæstiréttur gat ekki látið þetta koma niður á þjóðinni og mátti ekki. Engar vísbendingar höfðu komið um kosningasvik. Hæstiréttur var bara að skemmta sér á kostnað saklausra. Við þetta brast trú margra á kerfið. Bankar, ríkisstjórn og alþingi höfðu brugðizt og þarna brást dómsvaldið líka.“

Kannski er vandinn ekki sá, að orðræðan er nú harðari og aðgangsharkan meiri en áður. Kannski er vandinn sá, að ærin tilefni gefast í hrundu landi til vægðarleysis til orðs og æðis. Veldur hver á heldur.