Um Ísland og Noreg
Það hefði getað gerzt í gær. Ég var á opinberlega auglýstum fundi í hjarta Reykjavíkur fyrir mörgum árum, hafði ásamt öðrum verið beðinn um að hafa framsögu um fiskveiðistjórn og lýsti fyrir fundarmönnum, að vel gæti reynzt að leita til Noregs um fyrirmynd að hagkvæmri og réttlátri stjórn á náttúruauðlindum. Norðmenn höfðu fyrir löngu með rammgerðri lagasetningu lagt grunninn að olíuauði í þjóðareign, og olíusjóðurinn var byrjaður að taka á sig mynd. Nema flestir fundarmanna komu af fjöllum. Þögn sló á mannskapinn. Leyfir maðurinn sér að bera saman olíu og fisk? hugsuðu sennilega einhverjir í salnum, en enginn sagði neitt. Mér varð hugsað til reynslu eins kollega míns af eldri kynslóðinni, sem hafði í ræðustól á fundi mörgum árum fyrr lýst þeirri skoðun, að enginn viti borinn eigandi laxveiðiár myndi hleypa veiðimönnum í ána sína án endurgjalds og sömu búhyggindi ættu að sjálfsögðu við um sameiginarauðlindina á miðunum umhverfis Ísland. Þá reis einn fundarmaðurinn upp (hann var bæði alþingis- og útvegsmaður) og spurði með þjósti: Leyfir prófessorinn sér að bera saman þorsk og lax?
Hvar stöndum við nú? Norðmenn eiga olíusjóð, sem þeir kalla eftirlaunasjóð og geyma í útlöndum utan seilingar stjórnmálamanna, og nemur hann nú 4,4 milljónum norskra króna – það gerir rösklega 82 milljónir íslenzkra króna – á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Noregi. Ekki bara það: þjóðartekjur á mann í Noregi eru nú tvöfaldar á við Ísland, og þjóðartekjur á hverja vinnustund í Noregi eru nærri þrefaldar á við Ísland. Norðmenn hafa í krafti hyggilegrar hagstjórnar og auðlindastjórnar tekið út aukna velsæld ekki bara í auknum tekjum, heldur einnig í auknum tómstundum, þ.e. minni vinnu. Atvinnuleysi í Noregi er minna en nokkurs annars staðar í Evrópu. Velgengni sína eiga Norðmenn öðrum þræði því að þakka, að þeir gættu sín á að lýsa olíuna þjóðareign skv. lögum og hleypa hagsmunahópum ekki í hana, en á því svelli hefur mörgum öðrum olíulöndum orðið hált, t.d. Nígeríu. Fólkið í Nígeríu situr eftir með tvær hendur tómar, en Norðmenn hafa fullar hendur fjár. Þar skilur milli feigs og ófeigs. Orðin „olíukóngur“ og „olíudrottning“ eru ekki til í norskum orðaforða, enda engin ástæða til, þar eð norska þingið girti fyrir hættuna á ójöfnum aðgangi að þjóðarauðlindinni.
Hefðu Íslendingar farið eins að við stjórn fiskveiða við Ísland og Norðmenn við stjórn olíuauðsins, væri trúlega öðruvísi umhorfs hér heima en nú er. Ég benti á það fyrir bráðum 30 árum, að álagning veiðigjalds á markaðsforsendum myndi þá duga til að fjármagna afnám tekjuskatts einstaklinga, og hefði Ísland þá orðið fyrsta tekjuskattslausa landið á OECD-svæðinu. Hefði þjóðin sem réttur eigandi fiskimiðanna tekið fullt gjald af afnotunum af eign sinni strax í árdaga kvótakerfisins og áfram og lagt tekjurnar til hliðar frekar en að afnema tekjuskattinn, hefði hlaðizt upp gildur sjóður, sem gæti nú slagað hátt upp í olíusjóð Norðmanna miðað við fólksfjölda.
Ekkert af þessu mátti þó verða, þar eð Alþingi láðist að verja fólkið í landinu fyrir ágangi hagsmunahópa. Alþingi veitti þeim beinlínis færi á að hrifsa auðlindina til sín. Stjórnmálaflokkarnir reyndu að bæta fyrir vanræksluna einn af öðrum eftir dúk og disk með því að taka veiðigjald á stefnuskrá sína líkt og til málamynda, og Alþingi leiddi lítils háttar veiðigjald í lög 2002, en skaðinn var skeður. Útvegsmenn voru orðnir að ríki í ríkinu, svo að Ísland ber nú að ýmsu leyti ríkari svip af Rússlandi en Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Afstaða fólksins í landinu er skýr og birtist m.a. í því, að 83% kjósenda lýstu fylgi við auðlindir í þjóðareigu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá 20. október 2012. Alþingi kom sér undan því að staðfesta vilja kjósenda í stjórnarskrármálinu og þá um leið í fiskveiðistjórnarmálinu og reynir nú að drepa málinu á dreif til að þóknast útvegsmönnum enn frekar en orðið er.
Málið er samt ekki einfalt. Þegar olía fannst við Noreg, voru engir olíugreifar til staðar. Norska þingið þurfti því ekki að setja gamalgrónum hagsmunum stólinn fyrir dyrnar, heldur dugði að girða fyrir yfirvofandi hættu. Þegar aflaheimildir urðu verðmætar við upptöku kvótakerfisins hér heima, biðu útvegsmenn við dyrnar. Þeir voru góðu vanir frá fyrri tíð, þegar þeir fengu margir sjálfsafgreiðslu í bönkunum og gátu fellt gengið nánast eftir geðþótta. Þeir þurftu ekki að kunna fótum sínum forráð, þeim var alltaf bjargað. Það hefði því þurft sterk bein til að segja þeim að standa nú loksins utan dyra. Því var ekki að heilsa á Alþingi. Raunar er fiskveiðistjórn Norðmanna sama marki brennd og hér heima, en Norðmenn hafa ráð á því, þar eð sjávarútvegur skiptir litlu máli í þjóðarbúskap Norðmanna á heildina litið, þótt hann sé mikilvægur í byggðarlögunum meðfram langri og vogskorinni strandlengju Noregs.