DV
1. mar, 2013

Tími til að tengja

Þegar þetta er skrifað, hafa 24 alþingismenn staðfest, að þeir vilji samþykkja nýja stjórnarskrá fyrir þinglok. Yfir þingmennina 35, sem samþykktu að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna gegn aðeins 15 mótatkvæðum á Alþingi, hefur undanfarna daga rignt skeytum og skilaboðum frá vefsetrinu 20.oktober.is, þar sem þingmennirnir eru beðnir að svara því, hvort þeir ætli sér að virða vilja kjósenda eins og hann birtist í úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október. Eftirtekt vekur, að meðal þeirra, sem virðast þurfa að hugsa sig um, eru báðir nýkjörnir formenn ríkisstjórnarflokkanna og fjórir ráðherrar af átta auk forseta Alþingis. Þau virðast telja það vera umhugsunarefni, hvort Alþingi þurfi að virða vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu. Alþingi hélt atkvæðagreiðsluna. Þingið spurði þjóðina. Ef Alþingi vanvirðir úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar, kallar það vansæmd yfir landið og slítur sundur friðinn.

Ólafur Jóhannesson, síðar forsætisráðherra, lýsti stjórnmálaflokkunum sem „ríki í ríkinu“ í merkri ritgerð í Helgafelli 1945 og mælti fyrir stjórnarbótum til að taka á vandanum. Slíkar stjórnarbætur er að finna í stjórnarskrárfrumvarpinu, m.a. í ákvæðum um persónukjör og beint lýðræði með tíðari þjóðaratkvæðagreiðslum. Beint lýðræði fær kaldar kveðjur frá þeim þingmönnum, sem liggja nú undir feldi frekar en að heita því að virða þjóðarviljann undanbragðalaust. Í frumvarpinu stendur skýrum stöfum: „Allt ríkisvald sprettur frá þjóðinni.“ Slíkt ákvæði vantar í gildandi stjórnarskrá, enda er hún að stofni til frá 1874, eða réttar sagt 1849, arfur frá Danakonungi, samin af syfjuðum embættismanni, sagði Jón forseti.

Nú er kominn tími til að tengja. Hvers er að vænta af öðrum vilyrðum alþingismanna, ef þeir skeyta ekki um skýran og afdráttarlausan vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu? Þetta hangir saman. „Alþingi er á reynslutíma hjá þjóðinni“, sagði forsætisráðherra eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Skeytingarleysi stjórnmálastéttarinnar um hag og vilja fólksins í landinu ríður ekki við einteyming. Stjórnmálaflokkarnir hegða sér sem fyrr eins og hagsmunasamtök stjórnmálamanna, eins og „ríki í ríkinu“. Þeir virðast láta sér í léttu rúmi liggja einróma ályktun Alþingis frá 28. september 2010, þar sem segir m.a.: „Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur. Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu …“

Nú berast þær fréttir innan af Alþingi, að ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu vefjist fyrir þingmönnum. Ætla mætti, að alþingismenn sæju sóma sinn í að hrófla hvorki við orðalagi né inntaki ákvæðis, sem 83% kjósenda lýstu stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslunni, en því er e.t.v. ekki að heilsa. Í ákvæðinu segir m.a.: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.“ Alþingi spurði Stjórnlagaráð í fyrra, hvort til greina kæmi að breyta orðunum „gegn fullu gjaldi“ í „gegn sanngjörnu gjaldi“. Í svari fv. ráðsfulltrúa til Alþingis 11. marz 2012 segir svo:

„Ráðið ræddi orðasamböndin „gegn fullu gjaldi“ og „gegn sanngjörnu gjaldi“ í þaula og ákvað, að „gegn fullu gjaldi“ skyldi standa í auðlindaákvæðinu í 34. gr. með rökum, sem er ítarlega lýst í greinargerð (bls. 88). Þar segir: „Með „fullu“ gjaldi er átt við markaðsverð, þ.e. hæsta gjald sem nokkur er fús að greiða t.d. á markaði eða uppboði eða í samningum við ríkið sem umboðsmann rétts eiganda, þjóðarinnar. Til álita kom að segja heldur „gegn sanngjörnu gjaldi“, en það orðalag þótti ekki eiga við þar eð í því getur þótt felast fyrirheit um frávik eða afslátt frá fullu gjaldi.“ Væri fullu verði breytt í sanngjarnt verð gæti það skilist sem tillaga um stjórnarskrárvarinn afslátt handa þeim sem nýta auðlindirnar.“ Vilji Alþingi veita t.d. útvegsmönnum afslátt með gamla laginu, þarf hann að vera uppi á borðum og öllum sýnilegur.

Ennfremur segir í svari fv. ráðsfulltrúa til Alþingis: „Í greininni er gætt innbyrðis samræmis við aðrar greinar. Með breytingu þar á væri eignarrétti gert mishátt undir höfði eftir því hver í hlut á. Eignarréttarákvæðið í 13. gr. kveður á um, að „fullt verð“ komi fyrir eignarnám. Því hlýtur skv. 34. gr. frumvarpsins að gera sama tilkall til að „leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða [séu veitt] gegn fullu gjaldi“ til ríkisins í umboði þjóðarinnar, eiganda auðlindanna sem um ræðir.“ Við þurfum öll að fá að sitja við sama borð.