DV
2. júl, 2011

Tilboð til þings og þjóðar

Stjórnlagaráð býst til að gera Alþingi og þjóðinni tilboð um stjórnskipulegan grundvöll að opnara og réttlátara þjóðfélagi, nýja stjórnarskrá gegn flokksræði og forréttindum í samræmi við niðurstöður þjóðfundarins 2010.

Væri hyggilegt af hálfu Alþingis að neita þjóðinni um tækifæri til að greiða atkvæði um tilboðið til samþykktar eða synjunar? Alþingi samþykkti lögin um kosninguna til stjórnlagaþings og skipaði síðan ráðið í samræmi við úrslit kosninganna.

Skjalið er sem óðast að taka á sig mynd svo sem sjá má í áfangaskjalinu á vef Stjórnlagaráðs (stjornlagarad.is). Tillögur ráðsins geyma að svo stöddu m.a. svo hljóðandi ákvæði í samræmi við niðurstöður þjóðfundarins 2010:

„Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.“

„Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af.“

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.“

„Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist ekki til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.“

Nær allar tillögur Stjórnlagaráðsins í áfangaskjalinu voru samþykktar án mótatkvæða í ráðinu.

Við höfum ráðfært okkur við mikinn fjölda fólks innan lands og utan, bæði sérfræðinga og aðra, sem hafa sent okkur gagnlegar ábendingar og erindi. Nú er tæpur mánuður til stefnu, þar eð við þurfum að skila tillögum okkar til Alþingis fyrir júlílok.

Við lýsum eftir stuðningi fólksins í landinu við tillögur okkar.

(Birtist á dv.is)