DV
14. okt, 2011

Þýðing þýðinga

Ísland gerðist aðili að GRECO (e. Group of states against corruption) 1999. Síðan þá hefur GRECO gefið út nokkrar skýrslur um Ísland með gagnlegum ábendingum um fjármál stjórnmálaflokka og varnir gegn mútum og annarri spillingu með því fororði, að skýrslurnar yrðu þýddar á íslenzku, því að annars gætu þær ekki gert nema hálft gagn.

GRECO varaði sérstaklega við spillingarhættunni, sem fylgdi einkavæðingu bankanna eins og Jóhann Hauksson blaðamaður rifjar upp í nýrri bók sinni, Þræðir valdsins. Skemmst er frá því að segja, að íslenzk stjórnvöld hafa látið sér nægja að birta skýrslur GRECO á ensku, en þau hafa ekki látið þýða skýrslurnar á íslenzku. Kannski ert þú, lesandi minn góður, fyrst að heyra um þessar skýrslur GRECO núna.

Þetta er ekki einsdæmi. Stjórnvöld hafa fengið áskoranir utan úr heimi og einnig hér innan lands um að láta þýða skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á ensku. Að baki þessum áskorunum búa tvö meginsjónarmið.

Annað sjónarmiðið er, að nú eru hafin eða eru í undirbúningi ýmis málaferli erlendis, þar sem íslenzku bankarnir og meint brot þeirra koma við sögu. Af þessu leiðir, að erlendir lögmenn og skjólstæðingar þeirra þurfa sárlega á að halda greiðum aðgangi að gögnum og ályktunum rannsóknarnefndarinnar.

Hitt sjónarmiðið er, að bankahrunið kostaði erlenda lánardrottna, hluthafa og innstæðueigendur fjárhæð, sem nemur um fimmfaldri landsframleiðslu Íslands. Af þeirri ástæðu ættu íslenzk stjórnvöld að sjá sóma sinn í að veita útlendingum óskoraðan aðgang að skýrslu RNA, en svo langt virðist sómakennd stjórnvalda ekki ná. Alþingi og utanríkisráðuneytið hafa svarað óskum um enska þýðingu skýrslunnar með því að segja, að þeim hafi ekki tekizt að finna fjármagn til að kosta þýðinguna. Það er augljóslega einber fyrirsláttur.

Enn annað dæmi er hægt að nefna. Tillögu þingmanns um að láta þýða frumvarp Stjórnlagaráðs á ensku til að gera útlendingum grein fyrir gangi stjórnarskrármálsins og til að geta leitað álits erlendra sérfæðinga frumvarpinu var hafnað í nefnd á Alþingi. Samt skilaði Stjórnlagaráð umtalsverðum afgangi af fjárveitingu sinni aftur til ríkisins eins og fram hefur komið á Alþingi.

Því brá Stjórnarskrárfélagið á það ráð að kosta löggilta þýðingu á frumvarpinu með samskotum, og liggur hún frammi á vefsetri félagsins (http://stjornarskrarfelagid.is/english/) ásamt enskri þýðingu á ákvörðun Hæstaréttar um að ógilda kosninguna til Stjórnlagaþings 2010 og niðursallandi greinargerð Reynis Axelssonar stærðfræðings um ákvörðun Hæstaréttar.

Stjórnarskrárfélagið hefur dreift þýðingunni víða erlendis til að vekja athygli á málinu. Með þessu framtaki hefur Stjórnarskrárfélagið gert það mögulegt að leita álits erlendra manna á frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Í sama skyni hef ég birt tvær greinar um málið í víðlesnu vefriti (www. VoxEU.org).

Sú spurning hlýtur nú að vakna, hvort ekki væri ráð að stofna til almennra samskota um þýðingu á skýrslu RNA, svo að sannleikurinn um hrunið — a.m.k. sá hluti hans, sem kemur fram í skýrslunni — komi fyrir almenningssjónir úti í heimi. Íslendingum hefur of lengi verið gert að lifa á hálfsannleik og lygum. Blekkingar, leynd og lygar hafa gegnsýrt samfélagið og áttu umtalsverðan þátt í hruninu.

Undanbragðalaust uppgjör við fortíðina fyrir augum umheimsins myndi leysa landið úr læðingi. Sannleikurinn mun gera yður frjálsa, segir í hinni góðu bók (Jóhannesarguðspjall, 8. kafli).