Fréttablaðið
3. sep, 2015

Þrjár dauðar og einn á lífi

Síðari heimsstyrjöldin setti svip sinn á Reykjavík og þjóðlífið allt. Hjá því varð ekki komizt. Ísland tók stakkaskiptum, bæði efnahagslífið og ásjóna landsins, einkum í Reykjavík. Braggabyggðin sem herir Breta og Bandaríkjamanna skildu eftir sig í stríðslok spillti ásjónu Reykjavíkur verulega fram undir 1970 eins og Eggert Þór Bernharðsson prófessor lýsti vel í máli og myndum í bók sinni Undir bárujárnsboga (2001). Hermangið spillti stjórnmálalífinu. Stríðið sundraði fjölskyldum og vinum. Föður veit ég um sem kvaddi ekki dóttur sína þegar hún fluttist frá Reykjavík vestur um haf í stríðslok með manni sínum, bandarískum hermanni, ég þekkti fólkið. Ólík afstaða manna til stórveldanna og stjórnmála setti einnig strik í reikninginn, djúpa ristu.

Styrjöldin kostaði 200 mannslíf á Íslandi, mest í skipsköðum. Norðmenn misstu 10 þúsund manns og Bandaríkjamenn og Bretar misstu um 400 þúsund manns hvor þjóð, Frakkar 600 þúsund og Sovétmenn 27 milljónir skv. nýju mati rússneskra mannfjöldafræðinga. Gamla matið, um 10 milljón mannslíf, missti marks, segja nú rússnesk stjórnvöld. Möndulveldin (Þjóðverjar, Japanar og Ítalar) misstu um 11 milljónir manns samtals.

Þeim fer ört fækkandi sem börðust í stríðinu og komust lífs af. Einn þeirra heitir Glenn Dowling Frazier. Hann fæddist í Alabama 1924 og skráði sig í herinn 1941 til að komast að heiman og var sendur til Filippseyja. Skömmu síðar réðust Japanar á Pearl Harbor á Havaí og drógu Bandaríkjamenn inn í stríðið, fyrst í Asíu. Japanar höfðu yfirburðastöðu á Kyrrahafi. Bandaríkjamenn gáfust upp fyrir Japönum á Filippseyjum vorið 1942 og voru teknir til fanga. Frazier var því stríðsfangi í þrælabúðum Japana í þrjú og hálft ár allt til stríðsloka 1945. Hann lýsir hörmungunum sem hann lifði þar í bók sinni Gestur helvítis (Hell´s Guest, 2012). Það sem hélt í honum lífinu í þrælabúðunum var vonin um að sjá kærustuna sína aftur í Alabama og kvænast henni.

Hann lýsir heimkomunni haustið 1945 þegar hann sá Kaliforníu rísa úr hafi. Þegar hann gekk á land í San Francisco kraup hann niður og kyssti jörðina og fór síðan í símaklefa til að hringja í móður sína, herinn borgaði símtalið. Hann vissi ekki að þeir í hernum höfðu tilkynnt fjölskyldu hans ári fyrr að hann væri talinn af. Þegar hann sagði til sín í símann heyrði hann dynk: móðir hans hafði dottið í gólfið meðvitundarlaus. Þá kom í símann systir hennar sem var í heimsókn og allt fór á sömu leið: annar dynkur. Þá kom systir hans í símann: þriðji dynkurinn. Þá bar þar að föður hans sem hafði verið uppi á lofti. Sonur sæll, sagði faðirinn, ég vissi alltaf að þú værir á lífi, velkominn heim. En bíddu aðeins, ég er hér með þrjár dauðar kerlingar, ég þarf að skvetta á þær vatni svo þær geti heyrt í þér í símanum.

Þegar Frazier kom heim til Alabama spurðist hann fyrir um kærustuna og fékk þær fréttir að hún væri að fara að gifta sig á sunnudaginn kemur.

Hermenn bandamanna segja margir að grimmd og staðfastur ásetningur Japana um að berjast til síðasta manns líkt og t.d. suðurríkjamenn gerðu í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum 1861-1865, hafi sannfært þá um að Harry Truman forseti hafi bjargað mörg hundruð þúsundum mannslífa með því að varpa kjarnorkusprengjunum tveim á Hírósíma og Nagasakí í ágúst 1945, þrem mánuðum eftir uppgjöf Þjóðverja í Evrópu. Japanar gáfust þá upp. Þeir vissu ekki að Bandaríkjamenn áttu aðeins þessar tvær sprengjur og hefðu þurft marga mánuði til að búa til eina sprengju enn. Hermenn bandamanna segja einnig margir að öllum efasemdum um nauðsyn stríðsins og aðildar Bandaríkjamanna að því hafi verið feykt í burtu þegar þeir komust undir lokin á snoðir um dauðabúðir nasista í Evrópu og grimmdarverk þeirra á austurvígstöðvunum í Rússlandi. Vitnisburðir Rússa eru á sömu lund.

Þessir vitnisburðir og aðrir færa okkur heim sanninn um þann mikla árangur sem Evrópulöndin með Þýzkaland og Frakkland í broddi fylkingar hafa náð með því að halda frið í álfunni í 70 ár samfleytt frá stríðslokum 1945, lengur en nokkru sinni fyrr í sögu Evrópu. Draumur margra um aðild Rússlands og Úkraínu að ESB hefur þó fjarlægzt í bili.