Þórhallur Vilmundarson
Þórhallur Vilmundarson, móðurbróðir minn, hefði orðið 100 ára í dag. Hann var prófessor og forstöðumaður Örnefnastofnunar 1969-1998. Hans verður lengi minnzt sem höfundar einhverrar frumlegustu, gagnlegustu og skemmtilegustu kenningar sem komið hefur fram á vettvangi íslenzkra fræða frá öndverðu.
Náttúrunafnakenning hans er kenning, studd hundruðum skýrra dæma, um að mörg bæjarnöfn og önnur örnefni hafi trúlega verið dregin af fjölbreyttum svipbrigðum náttúrunnar frekar en af mannanöfnum og ýmsir landnámsmenn og aðrir hafi því kannski aldrei verið til heldur séu skáldaðar sögupersónur. Þessi nýja sýn gerbreytti valdahlutföllum á vettvangi fræðanna með því að innsigla sigur bókfestukenningarinnar um að Íslendingasögur væru að miklu leyti skáldverk yfir sagnfestukenningunni um fornsögurnar sem sagnfræðilegar heimildir.
Ég átti því láni að fagna unglingur að fylgja Þórhalli í 2ja vikna yfirreið hans um Norðausturland allt frá Akureyri suður í Berufjörð þar sem hann leitaði fanga – og fann! – í náttúrunafnakenningu sína. Þetta var sumarið 1968.
Má ég kynna þig fyrir landnámsmanninum Hallormi? spurði Þórhallur ísmeygilega og benti mér út um opinn bílgluggann á hallandi klettabeltið sem minnir á hlykkjóttan skröltorm vestan Lagarfljóts.
Nafngiftin Hallormsstaður er meðal fjölmargra ljósra dæma úr náttúrunafnakenningu Þórhalls. Landnámsmenn nefndu bæi sína náttúrunöfnum sem skáldglaðir höfundar fornra heimilda gerðu löngu síðar að mannanöfnum. Eftir kenningunni var Hallormur kannski ekki til heldur bara tilbúningur.
Við veginn upp á Fjarðarheiðina að loknum rækilegum örnefnarannsóknum um allar sveitir og öræfin sáum við þessa líka lokkandi auglýsingu á litríku risavöxnu spjaldi frá Sjómannastofunni á Seyðisfirði um bananasplitt — þ.e. bjúgaldinklofning — og brunuðum eins og byssubrenndir yfir heiðina með lafandi tungur. Þórhallur notaði tækifærið til að sýna mér stóran stein á Eyrinni sem Vilmundur faðir hans og afi minn, gullsmiður sem hann var að iðn, hafði meitlað fangamarkið sitt í unglingur. Steinninn stendur nú í garðinum við hús Þórhalls og Ragnheiðar Torfadóttur við Ingólfsstræti í Reykjavík. Báðir afar mínir voru Austfirðingar.
Við Þórhallur þræddum firðina líkt og innsveitir og linntum ekki för fyrr en hjá frænku okkar Nönnu Guðmundsdóttur ræktunarfrömuði og fræðikonu í Berufirði þar sem er nú lítið og fallegt safn til minningar um hana og hennar fólk. Þaðan urðum við að snúa aftur norður í land og þaðan áfram suður því hringvegurinn var enn ófæddur.
Þórhallur sýndi mér Glúmsstaði í Fljótsdalshreppi, minnir mig það hafi verið, þar sem fjall í námunda við bæinn kastar dimmum skugga yfir bæjarstæðið. Hann sýndi mér þrjár myndir sem hann hafði tekið af samnefndum bæjum annars staðar á landinu þar sem fjöll kasta dimmum skuggum yfir bæjarstæðin. Elementary, dr. Watson.
Þessi ævintýraferð með Þórhalli kenndi mér að rannsóknarleiðangrar eru öðrum þræði skemmtiferðir sé vel á málum haldið. Þannig hef ég reynt að lifa lífinu þótt á öðrum vettvangi sé. Þórhallur var meðal skemmtilegustu manna. Hann troðfyllti Háskólabíó hvað eftir annað þegar hann kynnti náttúrunafnakenningu sína fyrir almenningi. Það hefur enginn prófessor leikið eftir honum.
Um þessa fyrirlestra hans sagði Helgi Haraldsson bóndi á Hrafnkelsstöðum í heilsíðugrein í Tímanum: „Háskólinn hefur nefnilega sett þarna [þ.e. í Háskólabíói] upp sláturhús og Þórhallur er slátrarinn, og hann er að slátra landnámsmönnum. … En það eru fleiri í háskólanum en Þórhallur Vilmundarson sem eru eitthvað myglaðir.“