Þjófar, lík og falir menn
Tvær tölur koma aftur og aftur við sögu stjórnarskrármálsins frá þjóðfundarárinu 2010. Það eru tölurnar 2/3 og 1/3. Staðan í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem fór með málið í þinginu 2009-2013 var sex manna meiri hluti gegn þrem fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í minni hluta, sem sagt 2/3 gegn 1/3. Atkvæðagreiðslur um málið í þinginu þá, t.d. um að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012, fóru á sömu lund: 2/3 greiddra atkvæða stóðu gegn 1/3. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni lýstu 2/3 kjósenda sig fylgjandi frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og 1/3 kjósenda hafnaði frumvarpinu.
Nú er staðan þessi: Flokkarnir sem báru nýja stjórnarskrá undir þjóðaratkvæði 2012, Samfylking og Vinstri græn, ásamt Bjartri framtíð og Pírötum, njóta stuðnings 2/3 kjósenda meðan Sjálfstæðisflokkur og Framsókn njóta stuðnings 1/3 kjósenda (við bætist að sjálfstæðismenn munu ganga klofnir til næstu kosninga). Hinir þingflokkarnir fjórir með 2/3 kjósenda að baki sér hafa því staðfestingu nýrrar stjórnarskrár í hendi sér eftir kosningar. Samt hafa fulltrúar þessara flokka nú setið 48 fundi í stjórnarskrárnefnd og bisað við að úrbeina þrjú ákvæði nýrrar stjórnarskrár að kröfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Þingmenn virðast telja sig þess umkomna að draga bitið úr stjórnarskrá sem 2/3 kjósenda lýstu sig samþykka í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hitt væri heilbrigðara og hyggilegra að staðfesta nýju stjórnarskrána í heilu lagi gegn vilja þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir kosningar. Einmitt þannig fór Sjálfstæðisflokkurinn ásamt tveim minni þingflokkum að gagnvart Framsókn bæði 1942 og 1959 enda var það eina færa leiðin til að koma nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni gegnum þingið. Fordæmin geta varla skýrari verið. Hnignandi Sjálfstæðisflokki og Framsókn má ekki haldast uppi að kúga fólkið í landinu til undirgefni, allra sízt eftir að hafa átt svo ríkan þátt í að kalla hrun og smán yfir landið 2008. Rétt er að hafa hugfast að innan við 14% kjósenda segjast bera mikið traust til Alþingis, en 52% bera lítið traust til Alþingis skv. nýrri könnun MMR.
Stjórnarskrárnefnd Alþingis hefur nú kynnt drög að þrem frumvörpum, eitt er um náttúruauðlindir, annað um umhverfis- og náttúruvernd og hið þriðja um þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda. Öll miða frumvarpsdrögin að því að veikja samsvarandi ákvæði í frumvarpi stjórnlagaráðs og mylja undir ríkjandi hagsmuni gegn almannahag og lýðræði. Enda hafa fulltrúar a.m.k. tveggja flokka í nefndinni, Samfylkingar og Pírata, lýst óánægju með frumvarpsdrögin á opnum fundum. Drögin marka að vísu framför frá gildandi stjórnarskrá frá 1944, en miklu minni framför en þá sem kjósendur samþykktu sér til handa í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar reynir nú að lokka minni hlutann til að hjálpa sér við að svíkja þegar samþykktar réttarbætur af fólkinu í landinu.
Frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar um náttúruauðlindir markast af undanslætti. Tónninn er sleginn strax í byrjun: „Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni.“ Textinn minnir á strákinn sem var stöðvaður fyrir of hraðan akstur og sagði við lögregluna: Bíllinn tilheyrir mér, en pabbi á hann. Falklandseyjar tilheyra Bretlandi, en Bretar eiga þær ekki. Greinargerðin með frumvarpsdrögunum viðurkennir undansláttinn, þar stendur (bls. 17): „Með þessu orðalagi er ekki vísað til hefðbundins eignarréttar“. Þarna er gefið í skyn að þjóðareign eigi heima skör lægra en aðrar eignir. Nefndin herðir á undanslættinum með því að láta orðin „sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar“ í upphafi auðlindaákvæðis stjórnlagaráðs víkja fyrir berskjaldaðri „þjóðareign“ inni í miðjum texta. Í staðinn fyrir „fullt gjald“ fyrir nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareigu er nú kominn tvöfaldur afsláttur: „Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald“. Í athugasemdum við drögin er hvergi fjallað um hvort „eðlilegt“ geti talizt að útvegsmenn hirði 90% af fiskveiðirentunni svo sem verið hefur hingað til eins og Indriði Þorláksson fv. ríkisskattstjóri hefur lýst. Í staðinn fyrir orðin „sem ekki eru í einkaeigu“ eru nú komin orðin „sem ekki eru háð einkaeignarrétti“. Þarna er skýrt orðaval stjórnlagaráðs – allir vita hvað orðin „í einkaeigu“ merkja – látið víkja fyrir loðnu og teygjanlegu orðalagi sem býður upp á lagaþref. Allir vita að útvegsmenn eiga ekki fiskinn í sjónum, en þeir gætu reynt að gera tilkall til að hafa áunnið sér eignarrétt yfir honum. Til þess virðast refirnir skornir.
Greinargerðin með frumvarpsdrögunum hefur að sönnu ekkert lagagildi, en hún er til þess fallin að grafa undan þeirri réttarbót sem kjósendur samþykktu þegar 83% þeirra – 5/6 frekar en 2/3! – lýstu stuðningi við þjóðareignarákvæðið í frumvarpi stjórnlagaráðs. Greinargerðin segir berum orðum að frumvarpstexti nefndarinnar „leiðir hins vegar ekki sjálfkrafa til breytinga á gildandi nýtingarheimildum“ og „ákvæðið mun ekki sjálfkrafa raska þeim óbeinu eignarréttindum sem kunna að felast í afnota- eða hagnýtingarrétti sem þegar kann að hafa verið stofnað til gagnvart landsréttindum og auðlindum sem samkvæmt frumvarpinu munu teljast í þjóðareign“. Í greinargerðinni segir einnig: „Ef gjald er ekki ákvarðað á markaði má gera ráð fyrir að gjaldtaka taki mið af arðsemi nýtingar …“ Skilaboð stjórnarskránefndar til útvegsmanna eru skýr: Haldið bara áfram að skuldsetja ykkur upp í rjáfur og þá fáið þið stjórnarskrárvarinn afslátt eins og ekkert hafi í skorizt.
Greinargerðin með frumvarpsdrögum stjórnarskrárnefndar fer mörgum orðum um lagatexta sem litlu skipta en hún nefnir hvergi tímamótadóm Hæstaréttar frá 1998 þar sem fiskveiðistjórnarkerfið var lýst brotlegt gegn gildandi stjórnarskrá. Greinargerðin nefnir ekki heldur bindandi álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007 sem staðfesti dóm Hæstaréttar frá 1998. Þögnin heyrist, og sést.