Þjóðremba sem skálkaskjól
Þjóðremba og þjóðrækni eru sitt hvað. Þjóðremba ber jafnan skýr ytri einkenni. Þjóðremblar skreyta sumir klæði sín með þjóðfánum. Þjóðrækni er innhverf. Þjóðræknu fólki dugir að ylja sér við ættjarðarlög og dást að þjóðminjum. Ég er að tala um tvo heima.
Þjóðernishyggja sem öfgafullt stjórnmálaafl til aðgreiningar frá heilbrigðri þjóðrækni á sér jafnan aðra hvora tveggja skýringa, sé saga heimsins höfð til marks. Önnur skýringin er auðmýking, sem erlendar þjóðir kalla yfir heimalandið. Þá þjappa heimamenn sér saman eins og t.d. í Þýzkalandi milli heimsstyrjaldanna og steyta hnefann framan í umheiminn og upphefja sjálfa sig um leið (Deutschland, Deutschland über alles). Hin skýringin er óstjórn heima fyrir, sem stjórnvöld reyna að breiða yfir með því að fylkja þjóðinni að baki sér gegn tilbúnum erlendum óvini. Dæmi um þetta er innrás Argentínu í Falklandseyjar 1982, þegar gerspillt og trausti rúin herforingjastjórn undir forustu Leopoldos Galtieri hershöfðingja réðst á Falklandseyjar, brezkt yfirráðasvæði undan ströndum Argentínu, til að ganga í augun á kjósendum heima fyrir. Það tókst, en þó aðeins skamma hríð, þar eð Bretar sendu herskip suður eftir og gersigruðu argentínska flotann. Galtieri og menn hans fengu fangelsisdóma.
Þessar tvær skýringar eru sjálfstæðar, en þær geta þó skarazt. Þýzkir þjóðremblar voru stjórnarandstæðingar og þurftu því ekki að breiða yfir neina óstjórn heima fyrir eftir fyrri heimsstyrjöldina. Argentínskir þjóðremblar höfðu ekki þurft að sæta auðmýkingu að utan, enda var Argentína hálflokað land í litlu sambandi við umheiminn. Auðmýkingin kom innan frá, og þaðan spratt þörf herforingjanna fyrir að hylja klúðrið.
Þjóðernishyggja hefur tvisvar skotið upp kollinum á Íslandi eftir stríð. Fyrst gerðist þetta, að vísu með vægum formerkjum, í landhelgisdeilunum við Breta á áttunda áratug síðustu aldar. Þá hitnaði svo í kolunum hér heima, að sumir töldu, að grundvöllur væri að myndast undir stofnun þjóðernisflokks til höfuðs gömlu flokkunum.
Síðara skiptið? Við stöndum nú frammi fyrir því, nema nú rúmast þjóðremban að mestu innan vébanda Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Þar er nú innan búðar fólk, sem myndi ganga í einkennisbúningum flokkanna, væru þeir í boði, en þannig lýsti Egill Helgason blaðamaður flokkskonu einni, sem hann rakst á í Melabúðinni.
Hvernig víkur þessu við? Eftir hrun skaut upp kollinum ný þjóðremba, sem styðst við báðar stoðirnar nefndar að framan. Mest ber á þeim, sem telja, að hrunið og afleiðingar þess hafi verið útlendingum að kenna og nefna beinlínis umsátur í því sambandi. Í bók sinni Umsátrið (2009) lýsir Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri Morgunblaðsins þeirri skoðun, að þeir, sem hífðu Ísland upp úr þeirri djúpu holu, sem samherjar Styrmis í Sjálfstæðisflokknum áttu öðrum mönnum meiri þátt í að grafa skv. skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA), hafi setið um Ísland í því skyni að ná kverkataki á landinu og auðlindum þess. Styrmir segir: Íslendingar voru beittir „fantatökum“ (bls. 103) og „flæmdir í fang Alþjóðagjaldeyrissjóðsins“ (bls. 107). Umsáturstal er elzta brellan í bók þjóðrembla. Það snýst um að æsa fólk til andúðar á útlendingum til að breiða yfir ábyrgð heimamanna. Þetta er nú gert hér heima með því að stofna til ágreinings og illinda við hrægammasjóði, AGS, ESB, Norðurlönd o.s.frv. til að þétta raðir flokksmanna. Íslenzka umsáturskenningin státar af því sérkenni, að Styrmir Gunnarsson sagði við RNA: „Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt.“ Hann heldur áfram að vaða eld og reyk fyrir flokkinn.
Þjóðremban tekur á sig ýmsar myndir. Hún birtist nú m.a. í vilja Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins til að stöðva langt komnar samningaviðræður Íslands við ESB og einnig í upphöfnum fögnuði yfir úrskurði EFTA-dómstólsins í IceSave-málinu. Úrskurðurinn hafði þó mun minni efnahagslega þýðingu fyrir þjóðina en útlit var fyrir í fyrstu, þar eð þrotabú Landsbankans reyndist eiga fyrir kröfum Breta og Hollendinga. Úrskurðurinn gerði því ekki annað í reynd en að leysa skattgreiðendur undan vaxtakröfum Breta og Hollendinga. Eftir stendur að afla gjaldeyris til að greiða Bretum og Hollendingum kröfur þeirra. Úrskurðurinn studdist ekki við málsvörn íslenzka ríkisins, heldur önnur sjónarmið, sem ríkið sá ekki fyrir. Þjóðernisaldan eftir úrskurðinn var eins og hrifningaraldan, sem kynni að rísa, ef Ísland ynni fótboltalandsleik með hlutkesti, en þannig voru sumir landsleikir útkljáðir fyrir daga vítaspyrnukeppninnar.
Þjóðrembustjórnmál leiða ævinlega til ófarnaðar. Loforð Framsóknar um að færa niður skuldir heimilanna á kostnað erlendra hrægammasjóða er óinnleysanlegt. Niðurfærsla skulda getur því aðeins átt sér stað, að fólkið í landinu taki byrðarnar á sig með skattgreiðslum, skuldasöfnun eða verðbólgu. Þá skiptir vitanlega miklu, hvernig byrðunum er skipt milli manna. Hvernig væri nú að snúa sér að innlendum gömmum? Nóg er af þeim.