Þjóðkjörnir forsetar
Ísland varð fyrst ríkja í Evrópu til að setja sér stjórnarskrá með ákvæði um þjóðkjörinn forseta frekar en þingkjörinn forseta. Árið var 1944. Flokkarnir reyndu að sölsa undir sig forsetaembættið, en þeim tókst það ekki af þrem skyldum ástæðum. Fyrst ber að nefna skoðanakönnun Torfa Ásgeirssonar hagfræðings, fyrstu vísindalegu skoðanakönnunina á Íslandi. Niðurstöður hennar voru birtar í Helgafelli 1943. Þær sýndu yfirgnæfandi stuðning almennings við þjóðkjör forseta frekar en þingkjör. Í annan stað nutu stjórnmálaflokkarnir lítils álits bæði meðal almennings og innbyrðis, svo mjög að forustumenn þeirra gátu sumir ekki talað saman og gátu varla heldur setið í sama herbergi. Svo rammt kvað að ósættinu að Sveinn Björnsson ríkisstjóri hafði neyðzt til að skipa utanþingsstjórn 1942 og sat hún til 1944. Í þriðja lagi sló hjarta ríkisstjórans með fólkinu í landinu frekar en með flokkunum á Alþingi svo illa sem þeir höfðu reynzt. Það var ekki sízt verk Sveins Björnssonar að berja flokkana til hlýðni við þjóðarviljann eins og ráða má af einkaskjölum Sveins sem Svanur Kristjánsson prófessor hefur rannsakað. Þegar Alþingi lét undir höfuð leggjast eftir lýðveldisstofnunina að standa við fyrirheit flokkanna um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944 snupraði Sveinn Björnsson, þá orðinn forseti Íslands, Alþingi fyrir vanræksluna í nýársávarpi til þjóðarinnar 1949 og hamraði á nauðsyn nýrrar stjórnarskrár. Svona eiga sýslumenn að vera.
Í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar 1944 voru Bandaríkin að vísu ekki nefnd sérstaklega sem fyrirmynd ákvæðisins um þjóðkjörinn forseta, heldur Þýzkaland millistríðsáranna og Finnland. Skyldleikinn við Bandaríkin leynir sér þó ekki. Bandaríska stjórnarskráin er elzta stjórnarskrá heimsins enn í gildi og er mörgum því að ýmsu leyti eðlileg fyrirmynd, þótt æ fleiri bandarískir stjórnskipunarfræðingar og aðrir geri sér grein fyrir ýmsum göllum hennar eins og ég hef áður lýst á þessum stað. Sumir þessara galla hafa ágerzt með tímanum þar eð stjórnarskráin hefur ekki fylgt samfélagsþróuninni. Aðrir gallar hafa verið til staðar frá upphafi, m.a. ákvæðið um forsetakjör.
Gallinn hér er sá, að frambjóðandi getur náð meiri hluta kjörmanna og þar með kjöri sem forseti þótt hann hafi minni hluta kjósenda að baki sér og jafnvel þótt keppinautur hans hafi fengið fleiri atkvæði en „sigurvegarinn“. Þetta er ekki bara fræðilegur möguleiki enda hefur þetta gerzt nokkrum sinnum, einkum en samt ekki eingöngu þegar höfuðflokkarnir tveir hafa fengið sterk mótframboð úr eigin röðum.
Árið 1876 náði Rutherford Hayes kjöri í forsetaembættið með 48% atkvæða að baki sér þótt andstæðingur hans, Samuel Tilden, hlyti 51% atkvæða í kosningunni. Sama gerðist aftur 2000 þegar George W. Bush var kjörinn eða réttar sagt skipaður forseti eftir flokkslínum í Hæstarétti með 47,9% atkvæða að baki sér þótt andstæðingur hans Al Gore hlyti 48,4% atkvæða. Atkvæðamunurinn hefði trúlega orðið meiri hefði neytendafrömuðurinn Ralph Nader ekki einnig boðið sig fram.
Gallinn við forsetakosningaákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar er að þar er hvorki að finna ákvæði um aðra umferð kjörsins milli tveggja efstu frambjóðenda eins og tíðkast víða, t.d. í Frakklandi, né ákvæði um forgangsröðun til að tryggja að sá einn geti náð kjöri sem hefur meiri hluta kjósenda að baki sér eins og t.d. á Írlandi og einnig skv. nýju stjórnarskránni sem samþykkt var í þjóðaratkvæði hér heima 2012. Þannig náði Bill Clinton kjöri 1992 með 43% atkvæða þar eð þriðji frambjóðandinn, auðjöfurinn Ross Perot, fékk 19%. Óvíst er hvort Clinton hefði náð kjöri hefði George Bush eldri, sitjandi forseti, verið einn í framboði gegn honum. Líku máli gegnir um kosningarnar 1968 þegar suðurríkjademókratinn George Wallace klauf flokk sinn og flokksbróðir hans Hubert Humphrey tapaði fyrir Nixon sem náði kjöri með 43% atkvæða að baki sér. Demókratinn Woodrow Wilson var kjörinn forseti 1912 með 42% atkvæða þar eð repúblikaninn Theodore Roosevelt fv. forseti fór fram gegn flokksbróður sínum William Taft, sitjandi forseta.
Munstrið er býsna skýrt. Ef annar flokkanna gengur klofinn til forsetakjörs, þá sigrar frambjóðandi hins.
Hraðspólum nú fram til 2016. Ef fasteignajöfurinn Donald Trump nær ekki útnefningu repúblikana sem forsetaefni, virðist hugsanlegt að hann bjóði sig fram eigi að síður. Efasemdir virðast yfirleitt ekki sækja hart að honum og ekki skortir hann heldur fé. Fari hann fram virðist líklegt að frambjóðandi demókrata, trúlega Hillary Clinton, nái kjöri með mun minna en helming atkvæða að baki sér.