DV
19. okt, 2012

Þjóðarheimilið

Í baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá hefur mér verið mikil ánægja að því að kynnast mörgu nýju fólki. Margt af þessu góða fólki hefur engan sérstakan áhuga á stjórnmálum frá degi til dags, ekki frekar en t.d. ég sjálfur. En það hefur eigi að síður brennandi áhuga á stjórnskipun landsins, áhuga, sem kviknaði oftar en ekki eftir hrun. Þetta fólk er nú að reyna að hjálpa til við að tryggja, að grunnur þjóðarheimilisins sé svo traustur sem verða má, þótt það hafi hingað til ekki séð ástæðu til að skipta sér af yfirbyggingunni og innréttingum. Sjálfur hef ég aldrei skipt mér af stjórnmálum og aldrei komið nálægt neinum stjórnmálaflokki.

En þegar ég horfði á efnahagslíf landsins hrynja af mannavöldum 2008 eftir að hafa í fjölmiðlum ásamt mörgum öðrum varað oft við óstjórn og veikluðum undirstöðum, þá var mér nóg boðið. Ég afréð, þegar færi gafst eftir hrun, að bjóðast til að reyna að hjálpa til við að treysta grundvöllinn með endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem Alþingi hafði statt og stöðugt lofað frá 1944, án efnda. Þjóðin lagði sjálf grunninn að nýrri stjórnarskrá á þjóðfundinum 2010 að frumkvæði Alþingis. Þjóðfundurinn er hryggjarstykkið í endurskoðunarferlinu vegna þess, að allir Íslendingar 18 ára og eldri höfðu jafna möguleika á að veljast til setu þar. Stjórnlagaráð, þar sem ég átti sæti, gerði í reyndinni ekki annað en að færa niðurstöður þjóðfundarins í frumvarpsbúning. Frávik frumvarpsins frá niðurstöðum þjóðfundarins eru smávægileg og helgast af þörfinni fyrir innbyrðis samræmi í frumvarpinu. Þannig kveður frumvarpið t.d. á um óbreyttan fjölda þingmanna til að veikja ekki stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, þótt þjóðfundurinn kallaði eftir fækkun þingmanna.

Ákvæði frumvarpsins um jafnt vægi atkvæða, persónukjör, beint lýðræði, auðlindir í þjóðareigu, aukin mannréttindi og margt fleira eru í samræmi við leiðsögn þjóðfundarins. Við bætist, að Stjórnlagaráð starfaði fyrir opnum tjöldum og bauð fólkinu í landinu að gera athugasemdir við störf ráðsins frá degi til dags. Mörg hundruð manns víðs vegar að tóku áskoruninni og veittu kærkomna hjálp – bændur, eftirlaunaþegar, hjúkrunarfræðingar, kennarar, læknar og löggur, sjómenn, skrifstofumenn og margir aðrir. Ég þekki ekkert dæmi um stjórnarskrá, sem stendur á lýðræðislegri grunni en frumvarp Stjórnlagaráðs.

Þrír af helztu stjórnarskrárfræðingum heims á vegum Chicagoháskóla (prófessorarnir Zachary Elkins, Tom Ginsburg og James Melton) taka í sama streng í glænýrri skýrslu um frumvarpið (sjá sans.is). Þar segir (í þýðingu minni): „Endurskoðunarferli stjórnarskrár Íslands hefur verið ákaflega nýstárlegt og lýðræðislegt. Þótt frumvarpið standi traustum fótum í stjórnskipunarhefð landsins frá 1944, speglar frumvarpið umtalsvert framlag almennings til verksins og markar skýrt uppgjör við liðna tíð. Frumvarpið er einnig í fremstu röð varðandi aðild almennings að ákvörðunum stjórnvalda, og slík aðild hefur stuðlað að langlífi stjórnarskráa í öðrum löndum.“

Áður hafði Jon Elster, prófessor í Columbiaháskólanum í New York og einn helzti sérfræðingur heimsins í evrópskum stjórnarskrám, haft þetta að segja í Silfri Egils 13. maí 2012 (sjá sans.is): „Mér sýnist inntak tillögunnar, upp að því marki sem ég er dómbær á það, vera afbragðsgott. Nýja kosningafyrirkomulagið er vel heppnað, ákvæðið um að náttúruauðlindir séu þjóðareign er mjög gott, að efla aðskilnað valdsins, t.d. með tilliti til skipunar dómara, er mjög gott. Að mínu mati er margt gott í tillögunum, og ég sé enga áberandi meinbugi á skjalinu. … Ég held að nýja stjórnarskráin sé gott plagg sem ætti að taka gildi í nánast óbreyttri mynd, eða kannski með dálitlum lagfæringum.“

Alþingi hefur óskað eftir leiðsögn kjósenda með því að biðja þá að segja til um, hvort frumvarp Stjórnlagaráðs skuli lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá, já eða nei. Alþingi óskar líka eftir leiðsögn um fimm tiltekin ákvæði frumvarpsins um auðlindir í þjóðareigu, þjóðkirkju, persónukjör, jafnt vægi atkvæða og beint lýðræði, já eða nei. Upphafsorð frumvarpsins lýsa anda þess og bókstaf: „Við, sem byggjum Ísland, viljum skapa réttlátt samfélag, þar sem allir sitja við sama borð.“ Frumvarpið býður þeim, sem hafa setið að ýmsum forréttindum, t.d. í kjörklefanum í alþingiskosningum og við úthlutun aflaheimilda, að taka sér sæti við sama borð og aðrir landsmenn með almannahag, sátt og sameiningu að leiðarljósi.

Öllum þykir okkur sjálfsagt að leggja rækt við heimili okkar, hús og híbýli. Við þurfum nú eftir allt, sem á undan er gengið, að leggja sömu rækt við þjóðarheimilið og treysta grunn þess eftir föngum.