DV
25. maí, 2012

Þjóðareign er auðskilin

Ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er nýmæli, en það á sér þó langa forsögu. Þjóðareignarhugtakið á sér virðulega sögu í rökræðum um náttúruauðlindir. Auðlindaákvæðið í stjórnarskrárfrumvarpi Stjórnlagaráðs er sprottið af og nátengt fyrri frumvörpum um málið. Samt klifa sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins á því, að þjóðareignarhugtakið sé óljóst. Þeir snúa baki við fyrri frumvörpum sjálfstæðismanna og annarra um nýja stjórnarskrá. Prentuð greinargerð með frumvarpi Stjórnlagaráðs rekur söguna.

Dr. Gunnar Thoroddsen, forsætisráðherra og formaður stjórnarskrárnefndar 1978-1983, lagði fram á Alþingi 1983 stjórnarskrárfrumvarp með nýrri grein um náttúruauðlindir: „Náttúruauðlindir landsins skulu vera ævarandi eign Íslendinga. Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign.“ Í athugasemdum við frumvarpið segir m.a.: „Lýst er yfir þjóðareign að auðlindum hafs og hafsbotns við Ísland. Jafnframt að náttúruauðlindir landsins skuli vera ævarandi eign Íslendinga.“ Gunnari Thoroddsen þótti þjóðareignarhugatkið ekki torskilið.

Ekki þótti Davíð Oddssyni þjóðareignarhugtakið heldur torskilið. Hann lagði fram á Alþingi sem forsætisráðherra stjórnarfrumvarp 1995 með nýrri grein um náttúruauðlindir í stjórnarskrá: „Nytjastofnar á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Hér er notað orðalagið „sameign íslensku þjóðarinnar“ um þá þjóðareignarhugsun, sem lýst var í frumvarpi Gunnars Thoroddsen tólf árum áður með orðinu „þjóðareign.“

Í frumvarpi oddvita ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Jóns Sigurðssonar iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á Alþingi 2007 var lögð til ný stjórnarskrárgrein: „Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign …“

Í skýrslu auðlindanefndar árið 2000 undir forustu dr. Jóhannesar Nordal, fv. seðlabankastjóra, var lagt til svohljóðandi stjórnarskrárákvæði: „Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.“ Frumvarp oddvita ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Alþingi 2009, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og fleiri flutningsmanna bauð upp á sama orðalag: „Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign.“

Af þessari sögulegu upprifjun má ráða þá breiðu samstöðu, sem ríkt hefur um að leiða ákvæði um auðlindir í þjóðareigu í nýja stjórnarskrá. Í ljósi þessarar forsögu ber að skoða og skilja auðlindaákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.“

Hér er fylgt langri hefð á bak við notkun hugtaksins þjóðareign. Orðalag Þingvallalaganna frá 1928 er notað í anda Gunnars Thoroddsen til að skýra, að þjóðareign er eign, sem má aldrei afhenda til eignar eða varanlegra afnota og má því aldrei selja eða veðsetja. Þessari hugsun er einnig lýst í greinargerð með ákvæðinu um menningarverðmæti, t.d. þjóðminjar og fornhandrit, svo að ekkert fari á milli mála. Eftir þessum skilningi deilir núlifandi kynslóð náttúruauðlindum í þjóðareign með óbornum kynslóðum og hefur því ekki rétt til að ráðstafa auðlindunum í eigin þágu. Skorðurnar, sem ákvæðinu er ætlað að reisa við ráðstöfun auðlinda í þjóðareign, eiga einnig við um réttindi tengd auðlindunum og ekki aðeins við auðlindirnar sjálfar.

Auðlindaákvæðið er í nánu efnislegu samræmi við fyrirliggjandi drög að nýrri stjórnarskrá Færeyja, en þar segir svo um auðlindir og umhverfi: „Margfeldið á landi og á havleiðum landsins, sum privat ikki eiga, er tilfeingi og ogn fólksins.“ Sem sagt: Þjóðin á auðlindirnar. Færeyingar eiga ekki í neinum erfiðleikum með að skilja hugtakið þjóðareign.