DV
28. okt, 2011

Þjóðaratkvæði um frumvarp Stjórnlagaráðs

Nú eru liðin þrjú ár frá hruni, og samfélag okkar er enn í sárum. Talsvert vantar enn á, að allsherjaruppgjör hrunsins hafi farið fram. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) var góðra gjalda verð svo langt sem hún náði, en stjórnvöldum virðist ekki mjög í mun að læra af henni. Það er slæmt, því að aldrei gefst vel að búa um óhrein sár. Fjöldi fólks á ekki fyrir skuldum án þess að hafa gert nokkuð af sér. Hjól réttvísinnar snúast svo hægt og dómstólarnir njóta svo lítils álits, að áhöld eru um, hvort armur laganna nái utan um ýmis meint lögbrot, sem framin voru í aðdraganda hrunsins og sérstakur saksóknari hefur til rannsóknar. Tíminn mun skera úr því.

Hrunið var þó ekki alslæmt. Það hefur kallað á vakningu og viðbrögð, sem eiga vonandi eftir að láta gott af sér leiða. Hrunið leiddi til þess, að Alþingi samþykkti loksins að leggja fram umsókn um aðild Íslands að ESB. Ég segi loksins, því að skoðanakannanir höfðu árum saman sýnt, að meiri hluti kjósenda var oftast nær hlynntur aðild eða a.m.k. hlynntur aðildarumsókn, en það breyttist að vísu eftir hrun, þar eð sumir kjósendur virðast kenna Evrópulöndum um ófarir Íslands. Bókarheiti Styrmis Gunnarssonar, Umsátrið, vitnar um þennan hugsunarhátt. Styrmir kennir útlendingum um hrunið, en hafði þó þetta að segja við RNA: „Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt.“ (8. bindi, bls. 179).

Hrunið leiddi einnig til þess, að Alþingi samþykkti loksins að fela öðrum (stjórnlaganefnd, þjóðfundi, Stjórnlagaráði) heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, úr því að Alþingi hafði ekki tekizt að ljúka því verki í 67 ár. Stjórnarskráin, sem við búum við, var samþykkt til bráðabirgða svo sem saga málsins öll vitnar skýrt um. Þar var tjaldað til einnar nætur eins og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur lýst.

Ég nefni þessi tvö mál, umsóknina um aðild að ESB og endurskoðun stjórnarskrárinnar, þar eð þau snertast. Hugsum okkur eitt andartak, að Alþingi félli frá fyrirheiti sínu um þjóðaratkvæði um ESB-aðild og léti einfaldan meiri hluta Alþingis ráða málinu til lykta, án þess að þjóðin fengi að greiða atkvæði um málið. Það væru svik, því að fólkið í landinu gengur út frá því sem gefnum hlut, að aðildin um ESB verði útkljáð með þjóðaratkvæði, enda hefur því verið lofað.

Hugsum okkur nú, að Alþingi félli frá fyrirheiti forsætisráðherra og annarra þingmanna um þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp Stjórnlagaráðs og léti einfaldan meiri hluta Alþingis ljúka málinu eða svæfa það, án þess að þjóðin fengi neitt um það að segja. Það væru einnig svik, gróf svik, og má þó skilja á ýmsum alþingsmönnum, að þeir telji, að þingið eigi að útkljá málið upp á sitt eindæmi í samræmi við gildandi stjórnarskrá. Alþingismenn þurfa að viðurkenna, að Alþingi sækir vald sitt til þjóðarinnar, svo sem skýrt er kveðið á um í frumvarpi Stjórnlagaráðs, og Alþingi getur því skilað valdi sínu til þjóðarinnar með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um tiltekin mál, svo sem frumvarp Stjórnlagaráðs kveður einnig skýrt á um og stundum hefur verið gert á fyrri tíð.

Alþingi ákvað að skila til þjóðarinnar valdi sínu til að endurskoða stjórnarskrána, skipaði í því skyni stjórnarskrárnefnd til að undirbúa málið og kveðja saman þjóðfund, hélt kosningar til Stjórnlagaþings og skipaði síðan Stjórnlagaráð til að gera tillögur um breytta stjórnarskrá. Alþingi treysti ekki sjálfu sér til að vinna verkið, enda fer ekki vel á, að Alþingi skipti sér af inntaki stjórnarskrárinnar vegna þess, að stjórnarskráin fjallar m.a. um Alþingi. Þess vegna ákvað Alþingi að fela öðrum verkið.

Nú er of seint fyrir Alþingi að skipta um skoðun og hætta við allt saman. Málið er komið lengra en svo, að sú leið sé fær. Telji alþingismenn þörf á að bæta frumvarp Stjórnlagaráðs, geta þeir annaðhvort samið eigið frumvarp og boðið kjósendum að velja á milli eigin frumvarps og frumvarps Stjórnlagaráðs eða komið breytingatillögum sínum fyrir í viðaukum við frumvarp Stjórnlagaráðs. Alþingi ber að ljúka málinu eins og til var stofnað og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um óbreytt frumvarp, e.t.v. með viðaukum um einstök atriði. Skoðanakönnun MMR sýndi nýlega, að 75% þjóðarinnar vilja fá að kjósa um frumvarpið óbreytt. Teningunum hefur verið kastað.