DV
17. sep, 2012

Þjóðaratkvæði og ESB

Er þörf á stjórnarskrárákvæði um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB? – svo sem frumvarp Stjórnlagaráðs kveður á um. Ég tel brýna þörf fyrir slíkt ákvæði. Til þess liggja tvær höfuðástæður.

Nú háttar svo til, að ríkisstjórnin hefur lofað að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þegar drög að samningi um aðild liggja fyrir. Þingmenn virðast þó sumir ekki taka loforð ríkisstjórnarinnar alvarlegar en svo, að þeir segjast ætla að gera ESB að kosningamáli fyrir alþingiskosningarnar vorið 2013. Það ættu þeir þó einmitt ekki að gera, úr því að ríkisstjórnin hefur lofað að vísa málinu til þjóðaratkvæðis. Þar með er málið komið úr höndum Alþingis, og þingmenn ættu að haga málflutningi sínum í samræmi við það og beina heldur kröftum sínum að þeim málum, sem Alþingi hefur á sinni könnu. Vandinn hér er sá, að loforð ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB er einhliða. Ríkisstjórnin gæti hlaupið frá loforðinu og dregið Ísland inn í ESB í krafti einfalds meiri hluta á Alþingi. Forseti Íslands gæti þá að vísu beitt málskotsrétti sínum og skotið málinu í þjóðaratkvæði, en fyrir því er engin trygging að lögum. Frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár byrgir brunninn með því að mæla fyrir um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur um samninga, sem fela í sér framsal ríkisvalds. Hér fer þó e.t.v. betur á að tala um að deila fullveldi með öðrum þjóðum en að framselja vald.

Dæmi Bretlands er umhugsunarvert í þessu viðfangi. Bretar gengu inn í ESB 1973 í stjórnartíð Íhaldsflokksins undir forsæti Edwards Heath, án þess að þjóðin væri spurð. Verkamannaflokkurinn undir forustu Harolds Wilson lofaði að efna til þjóðaratkvæðis um aðildina að ESB, kæmist flokkurinn til valda, og það gerði hann 1974 og hélt þá þegar þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort Bretar vildu vera áfram í ESB. Í atkvæðagreiðslunni sögðu 67% kjósenda já. Málið var leyst. Dæmi Bretlands sýnir, að ríkisstjórn getur upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun um aðild að ESB, sé enginn varnagli sleginn í stjórnarskrá.

Stofnríki ESB (Frakkland, Ítalía, Þýzkaland, Belgía, Holland og Lúxemborg) héldu ekki þjóðaratkvæðagreiðslur um stofnun ESB. Þær þjóðir, sem síðar slógust í hópinn, hafa flestar en ekki allar greitt atkvæði fyrir fram um aðild að ESB nema Bretar, sem greiddu atkvæði eftir á um málið.

Írland samþykkti með 83% atkvæða að ganga inn í ESB 1973 og Danmörk með 63% atkvæða. Noregur hafnaði aðild sama ár með 54% atkvæða. Grikkland gekk inn 1981 án þjóðaratkvæðis. Portúgalar og Spánverjar gengu inn 1986, einnig án þjóðaratkvæðis. Austurríki, Finnland, Svíþjóð og Noregur héldu þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild að ESB 1994. Austurríki samþykkti með 67% atkvæða að ganga inn 1995, Finnland með 57% atkvæða og Svíþjóð með 53% atkvæða, en Noregur hafnaði inngöngu öðru sinni með 52% atkvæða.

Í næstu hrinu 2003 ákváðu mörg lönd að ganga í ESB: Malta (54% atkvæða með inngöngu), Slóvenía (90%), Ungverjaland (84%), Litháen (90%), Slóvakía (92%), Pólland (78%), Tékkland (77%), Eistland (67%) og Lettland (67%). Búlgaría, Kýpur og Rúmenía gengu hins vegar inn án þjóðaratkvæðis líkt og Grikkir, Portúgalar og Spánverjar höfðu áður gert. Fyrr á þessu ári héldu Króatar þjóðaratkvæðagreiðslu og ákváðu að ganga inn með 66% atkvæða. Norðmenn eru eina þjóðin, sem hefur hafnað aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, og það tvisvar. Af þessu stutta yfirliti má ráða, að þjóðþing ESB-landanna hafa ýmist haldið þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild að ESB eða lokið málinu á eigin spýtur án þess að spyrja kjósendur. Í þessu ljósi sýnist brýnt, að stjórnarskrá Íslands tryggi, að þjóðin eigi síðasta orðið um aðild að ESB. Fylgismenn aðildar vilja varla þröngva þjóðinni inn í ESB gegn vilja hennar. Það vil ég ekki.