DV
1. feb, 2013

Þegar verkin tala

Þegar þér er sagt, að þú getir ekki unnið verk, sem þér hefur verið falið og þú þykist vita þú getir leyst af hendi, þá leggstu ekki í rökræður um úrtölurnar. Nei, þér dugir að sýna, að þú getur unnið verkið. Þú lætur verkin tala.

Það gerði Stjórnlagaráð. Á okkur, sem þar sátum, dundi, að ekki væri hægt að koma saman nýrri stjórnarskrá á aðeins fjórum mánuðum. Það var sá tími, sem Alþingi veitti okkur til verksins. Auðvitað vissu alþingismenn, að bandaríska stjórnarskráin, elzta stjórnarskrá heimsins, var samin frá grunni á fjórum mánuðum. Ekki virtust úrtöluskjóðurnar þó skeyta um það og ekki heldur um hitt, að Stjórnlagaráð stóð á öxlum annarra og hafði eftir því góða yfirsýn yfir sviðið. Ráðið gat nýtt sér margra mánaða vinnu stjórnlaganefndar og einnig mikla vinnu margra stjórnarskrárnefnda Alþingis meira en hálfa öld aftur í tímann auk skýrrar leiðsagnar þjóðfundarins 2010, sem Stjórnlagaráði bar að taka mið af. Stjórnlagaráð naut góðra ráða ekki aðeins af hálfu lagaprófessoranna Bjargar Thorarensen og Eiríks Tómassonar, svo að tveir fræðimenn séu nefndir af mörgum, heldur einnig forvera þeirra í Háskóla Íslands, þar á meðal Bjarna Benediktssonar, Gunnars Thoroddsen og Ólafs Jóhannessonar.

Frumvarp Stjórnlagaráðs geymir með einum eða öðrum hætti margar skriflegar tillögur þeirra allra og margra annarra. Látum eitt dæmi duga. Ólafur Jóhannesson lagaprófessor, síðar forsætisráðherra, kallaði stjórnmálaflokkana og hagsmunasamtök „ríki í ríkinu“ í merkri ritgerð í Helgafelli 1945 og lagði til breytingar á stjórnarskránni til að taka á vandanum. Frumvarpið, sem nú er rætt á Alþingi, hlýðir kalli Ólafs Jóhannessonar m.a. með því að mæla fyrir um persónukjör við hlið listakjörs með gamla laginu, enda kvað einnig þjóðfundurinn 2010 á um sama mál.

Úr því að fullyrt var, að okkur í Stjórnlagaráði væri ókleift að vinna verkið, sem þjóð og þing höfðu falið okkur, þá hlutum við að einsetja okkur að ljúka vönduðu verki á tilskildum tíma. Það tókst – meira að segja svo vel, að við samþykktum frumvarpið að lokinni fjögurra mánaða vinnu einum rómi, með 25 atkvæðum gegn engu. En allt kom fyrir ekki. Jafnvel eftir að við höfðum sýnt í verki, að við gátum leyst verkefnið á réttum tíma og á þann hátt, að margir innlendir og erlendir sérfræðingar hafa lokið lofsorði á frumvarpið og tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu stuðningi við það í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október s.l., halda úrtöluraddirnar áfram. Þær virðast ekki skeyta um raunveruleikann. Þær kjósa heldur að lifa í eigin heimi.

Þessa dagana dynja sömu úrtölur á Alþingi. Fullyrt var, að Alþingi hefðu borizt svo margar athugasemdir við frumvarpið að nýrri stjórnarskrá, að ekki væri vinnandi vegur að ganga frá frumvarpinu til annarrar umræðu nú í janúar. Hvað gerði Alþingi? – þ.e. þingmeirihlutinn að baki frumvarpinu. Lagðist meiri hlutinn, sem er skipaður þingmönnum úr öllum flokkum á þingi nema einum, í rökræður við úrtölukórinn? Nei. Meiri hlutinn bretti upp ermarnar, vann verkið og lagði fram nýja gerð frumvarpsins til annarrar umræðu, svo sem ráðgert hafði verið. Þetta var ekkert áhlaupsverk, þar eð margar nefndir Alþingis fóru yfir frumvarpið lið fyrir lið með tilheyrandi vitnaleiðslum og viðtölum við sérfræðinga og aðra, þar á meðal sérfræðinga Feneyjanefndarinnar, sem starfar á vegum Evrópuráðsins, en er þó enginn æðstidómstóll um stjórnarskrár. Dæmið gekk upp.

Ný gerð frumvarpsins, sem nú hefur verið tekið til annarrar umræðu á Alþingi, er að flestu leyti til fyrirmyndar frá mínum bæjardyrum séð. Alþingi þarf ekki síður en aðrir að fá að njóta sannmælis: hér stóðu þingmenn vel að verki. Látum aftur eitt dæmi duga. Nú segir í frumvarpinu: „Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.“ Þessari málsgrein hafði lögfræðinganefnd, sem Alþingi fól að fara yfir frumvarp Stjórnlagaráðs, kippt út. Alþingi bætir um betur með því að skeyta við nýrri málsgrein úr gildandi stjórnarskrá frá 1944: „Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hluti í atvinnufyrirtæki hér á landi.“ Þessa málsgrein hafði Stjórnlagaráð fellt út m.a. með þeim rökum, að duga myndi að styðjast við ákvæðið um, að eignarrétti fylgja skyldur, en Alþingi vill hafa báðar málsgreinarnar inni. Alþingi kýs axlabönd og belti. Ég felli mig vel við það fyrir mína parta.

Alþingismeirihlutinn á heiður skilinn fyrir vel unnið verk við erfiðar aðstæður. Megi þinginu lánast að ljúka verkinu og ganga frá nýrri stjórnarskrá lýðveldisins fyrir vorið í samræmi við kall og kröfur fólksins í landinu.