Fréttablaðið
18. jan, 2007

Þegar Svíar höfnuðu evrunni

Svíar styðjast við þjóðaratkvæðagreiðslur til að ráða ýmsum erfiðum málum til lykta. Þessi aðferð hentar vel, þegar þverpólitísk mál þarfnast úrlausnar – mál, sem ágreiningur er um innan stjórnmálaflokka ekki síður en milli þeirra. Þannig ákváðu Svíar til dæmis að hafna áfengisbanni 1922 og hafna hægri umferð 1955, en þingið tók fram fyrir hendurnar á kjósendum í umferðarmálinu fimm árum síðar. Og þannig ákváðu Svíar einnig með þjóðaratkvæðagreiðslu 1994 að ganga inn í Evrópusambandið (ESB) árið eftir eins og Austurríkismenn og Finnar; Norðmenn sögðu nei; Íslendingar voru ekki spurðir. Með líku lagi var upptaka evrunnar í Svíþjóð borin undir þjóðaratkvæði þar 2003. Aðdragandi atkvæðagreiðslunnar var lærdómsríkur. Í öllum stjórnmálaflokkum voru skiptar skoðanir um málið, en flokkarnir leystu innbyrðis ágreining með því að leyfa meiri hluta flokksmanna að ráða ferðinni. Það er hin sjálfsagða leikregla lýðræðisins. Skákin tefldist þannig, að fjórir þingflokkar með rösklega 80 prósent kjörfylgi að baki sér mæltu með evrunni við kjósendur, en þrír smáflokkar á þingi – Miðflokkurinn, Umhverfisflokkurinn og Vinstri flokkurinn – með tæpan fimmtung kjörfylgisins á bak við sig lögðust gegn evrunni. Helztu hagsmunasamtök mæltu með evrunni svo sem Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins og einnig Bændasamtökin. En allt kom fyrir ekki: kjósendur höfnuðu evrunni með 56 prósentum atkvæða gegn 42 prósentum.

Hvað gekk Svíum til? Var þetta uppreisn almennings gegn yfirgangi stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka? – líkt og þegar Norðmenn höfnuðu aðild að ESB í tvígang gegn tilmælum helztu stjórnmálaflokka þar og hagsmunasamtaka. Kannski. Þegar úrslit atkvæðagreiðslunnar um evruna í Svíþjóð 2003 eru brotin til mergjar, kemur ýmislegt markvert í ljós, eins og Lars Jonung prófessor og fyrrum efnahagsráðgjafi Carls Bildt, þá forsætisráðherra, hefur lýst á prenti. Úrslitin skýra átakalínurnar milli opingáttarmanna og hálfgáttarmanna í Svíþjóð. Opingáttarmenn kalla ég til hægðarauka þá, sem kjósa að efla sem mest viðskipti og önnur tengsl við útlönd til að lyfta lífskjörum almennings. Hálfgáttarmenn kalla ég hina, sem vilja halda erlendum viðskiptum í hæfilegum skefjum til að vernda innlenda hagsmuni gegn erlendum áhrifum. Þessi aðgreining opingáttarstefnu og hálfgáttarstefnu er nytsamleg í þessu viðfangi vegna þess, að afstaða manna til evrunnar ræðst öðrum þræði af svipuðum sjónarmiðum og afstaða þeirra til annarra viðskiptahindrana. Þjóðmynt er viðskiptahindrun í þeim skilningi, að hún íþyngir viðskiptum við aðrar þjóðir.

Upptaka evrunnar myndi létta af Svíum fyrirhöfninni, sem fylgir því að þurfa í sífellu að skipta sænskum krónum yfir í evrur og öfugt. Þetta dregur úr erlendum viðskiptum og innstreymi erlends framkvæmdafjár til Svíþjóðar og birtist meðal annars í hærra verðlagi og hærri vöxtum heima fyrir en ella. Erlendir fjárfestar þurfa nú að gizka á gengi sænsku krónunnar gagnvart evrunni fram í tímann til að geta gert sér grein fyrir væntanlegum arði fjárfestinga sinna í Svíþjóð. Ef Svíar notuðu evruna, sem er vaxandi heimsmynt, væri þessari óvissu og meðfylgjandi umstangi og kostnaði létt af fjárfestum, og Svíþjóð yrði að því skapi fýsilegri áfangastaður fjármagns. Þessi rök eiga einnig við um önnur lönd.

Hvernig skiptist fylgið við evruna í Svíþjóð? Þéttbýlisbúar voru frekar hlynntir evrunni en dreifbýlisbúar, enda er stuðningur við fríverzlun jafnan meiri í borgum en til sveita. Karlar og hátekjumenn voru frekar hlynntir evrunni en konur og lágtekjumenn. Þetta kemur ekki heldur á óvart, því að sænskir karlar eru hlutfallslega fleiri í fyrirtækjum í erlendri samkeppni og konur eru tiltölulega fleiri við önnur störf. Með líku lagi voru starfsmenn í einkafyrirtækjum frekar hlynntir evrunni en starfsmenn ríkis og byggða. Munstrið er býsna skýrt. Svíar virðast í þetta sinn hafa greitt atkvæði með veskinu sínu. Opingáttarstefnan fór halloka fyrir hálfgáttarstefnunni, öndvert úrslitunum 1994 um inngönguna í ESB. Þinginu er heimilt að taka af skarið eins og það gerði með því að samþykkja hægri umferð 1960. Innilokunarstefnan er hins vegar dauð: það er enginn umtalsverður stuðningur í Svíþjóð við þá skoðun, að Svíar eigi að ganga úr ESB.