Fréttablaðið
27. des, 2007

Þegar Ísland var Afríka

Þegar föðuramma mín og afi stofnuðu heimili í Þingholtunum í Reykjavík við upphaf heimastjórnar 1904, voru þjóðartekjur á mann á Íslandi svipaðar og þær eru nú í Gönu, fyrsta sjálfstæða Afríkulandinu (1957). Amma mín eignaðist sex börn, en meðalfjöldi barnsfæðinga á hverja konu hafði að vísu minnkað úr sex um 1860 í fjórar um 1900. Og fjögur börn á hverja konu voru meðaltalið á Íslandi jafnvel 1960 eins og í Gönu á okkar dögum, svo að munurinn á Íslandi og Gönu að þessu leyti er ekki nema hálf öld eða þar um bil. Það tók Gönu innan við hálfa öld að fækka barnsfæðingum á hverja konu um þrjár, úr sjö í fjórar. Það tók Ísland hálfa aðra öld, frá 1860 til dagsins í dag, að fækka fæðingum á hverja konu um þrjár, úr fimm í tvær.

Gana hefur að sönnu dregið meira úr fólksfjölgun en mörg önnur Afríkulönd. Meðalfjöldi fæddra barna á hverja konu í Afríku sunnan Sahara hefur minnkað úr tæpum sjö 1960 í rösk fimm 2005. Þessi meðaltöl leyna talsverðum mun á frjósemi í einstökum löndum. Á Máritíus í miðju Indlandshafi er fólksfjölgunin komin niður í tvö börn á hverja konu líkt og hér heima á móti næstum sex 1960. Í Botsvönu eignast hver kona nú þrjú börn að meðaltali, ekki sjö eins og 1960. Það er engin tilviljun, að Máritíus og Botsvana búa við mestar tekjur á mann í allri Afríku. Öðrum miðar hægar. Í Keníu eignast hver kona nú fimm börn, ekki átta eins og 1960, og í Malaví og Tansaníu sex börn frekar en sjö.

Færri börn eru framför í fátækum löndum, því að barnmargar fátækar fjölskyldur hafa ekki efni á að senda þau öll í skóla. Fjölskyldur með færri börn – segjum tvö eða þrjú – eru betur í stakk búnar að bjóða öllum börnum sínum og ekki bara elzta syninum góða menntun og opna þannig fyrir þeim öllum glugga og gættir, sem annars kynnu að standa lokaðar. Þá sitja öll börn við sama borð, og ekkert þeirra þarf að fara alls á mis. Hægari fólksfjölgun helzt þannig í hendur við meiri og betri menntun, betri líðan og lengri ævir.

Sífellt fleira fólk um allan heim tekur langar ævir í litlum fjölskyldum fram yfir stuttar ævir í stórum fjölskyldum. Í Gönu hefur ævi heimamanna lengzt um röska þrjá mánuði á ári síðan 1960, eða úr 46 árum 1960 í 58 ár 2005. Í Afríku hefur framförin verið hægari á heildina litið: þar hefur meðalævin lengzt úr 41 ári 1960 í 47 ár 2005. Ævilíkur Afríkumanna fara nú aftur vaxandi, en þær fóru minnkandi eftir 1990 einkum af völdum eyðniveirunnar.

Ef Ísland ömmu minnar og afa við upphaf heimastjórnar var á svipuðu hagþróunarstigi og Gana er nú, hvar stóðum við þá í stríðslok 1945? Þá voru þjóðartekjur á mann á Íslandi svipaðar og þær eru nú í Namibíu. 1960? Þá stóðum við í sömu sporum og Botsvana nú. Þar eru þjóðartekjur á mann nú um þriðjungur tekna á mann hér heima, og hér hafa tekjur á mann ríflega þrefaldazt frá 1960. Til þeirrar þreföldunar þurfti minni hagvöxt en margur skyldi halda: tekjur á mann uxu hér um 2,8 prósent á ári 1960-2005. Við hefðum getað vaxið hraðar.

Gana hefur nú haft hálfa öld til að leysa sig undan oki ævagamallar fátæktar. Það hefur fólkinu þar ekki enn tekizt nema að litlu leyti. Hvað þarf til þess? Aðeins röskur fjórðungur fullorðinna Afríkumanna kunni að lesa og skrifa 1970. Nú kunna þrír af hverjum fjórum fulltíða Afríkumönnum að lesa og skrifa, en það er ekki nóg. Ólæsinu þarf að eyða til fulls, svo að enginn sé skilinn út undan. Nær allir Íslendingar voru læsir við upphaf heimastjórnar.

Með almennu læsi ætti Afríka að geta tekið stórstígum framförum á stuttum tíma líkt og við gerðum. Hvort þarf að koma á undan, hægari fólksfjölgun eða aukin menntun? Svarið er: þetta tvennt helzt í hendur, og hitt kemur af sjálfu sér. Fátæktin flýr undan almennri hagsæld. Engin fulllæs og fullvalda þjóð lætur bjóða sér almenna fátækt til langframa. Saga Íslands ber vitni, lifandi fjölskyldusaga. Amma mín giftist í Gönu, steig aldrei fæti á erlenda grund og dó í Suður-Afríku. Sjálfur sleit ég barnsskónum í Botsvönu, þar sem tekjur á mann eru nú fimm sinnum meiri en í Gönu. Botsvana sigldi fram úr Gönu 1965 og er enn á fleygiferð.