Þegar hjólin snúast
Andi laganna (1748) eftir Montesquieu lagði grunninn að þeirri stjórnskipunarfræði, sem fyrsta stjórnarskrá Bandaríkjanna hvílir á. Bandaríkjaþing staðfesti fyrstu stjórnarskrá landsins 1781, fimm árum eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1776. Þessi fyrsta stjórnarskrá var samin og staðfest í miðju frelsisstríði Bandaríkjamanna gegn Bretum. Hún reyndist ekki vel að stríðinu loknu, en þá brauzt sums staðar út ófriður innan lands, og einstök ríki settu lög, sem þóttu ógna eignarrétti og efnahagslegum stöðugleika.
Þetta varð til þess, að Bandaríkjaþing stofnaði til sérstaks Stjórnlagaþings, sem skyldi leggja til breytingar á stjórnarskránni. Tólf ríki af 13 tilnefndu 55 fulltrúa til setu á þinginu, sem kom saman í Fíladelfíu 25. maí 1787 og lauk störfum tæplega fjórum mánuðum síðar, 17. september. Frægasti stjórnlagaþingsfulltrúinn var George Washington, oddviti sendinefndarinnar frá Virginíu, sem var þá fjölmennasta ríki landsins. Hann var fyrrum hershöfðingi og þjóðhetja að loknum frækilegum sigri í frelsisstríðinu.
Stjórnlagaþingið hélt fundi sína á bak við luktar dyr. Það ákvað að fara fram úr lagalegu umboði sínu til að breyta gildandi stjórnarskrá og samdi heldur og samþykkti nýja stjórnarskrá með undirskrift 39 fulltrúa. Þrettán fulltrúar voru farnir af þinginu fyrir þinglok, og þrír neituðu að skrifa undir.
Nú upphófst líflegasta stjórnmálaumræða, sem sögur fara af í Bandaríkjunum. Allir Bandaríkjamenn, var sagt, eða nær allir, lásu frumvarpið, og það var rætt í þaula. Dagblöðin, sem voru nálega 100 að tölu, birtu mikið efni um frumvarpið, auk þess sem fylgismenn frumvarpsins og andstæðingar þess gáfu út bæklinga.
Deilurnar um frumvarpið snerust einkum um verkaskiptingu alríkisstjórnarinnar og einstakra ríkja. Andstæðingar frumvarpsins töldu, að alríkisstjórninni væru færð of mikil völd á kostnað ríkjanna. Þeir töldu mannréttindaákvæði vanta í frumvarpið (e. Bill of Rights), ákvæði, sem þeir hugðust nota einnig til að tryggja ríkjunum meiri rétt gagnvart alríkisstjórninni. Stuðningsmenn frumvarpsins töldu, að alríkisstjórnin þyrfti að hafa næg völd til að varðveita einingu Bandaríkjanna. Þetta var landamæradeila: hvar átti að draga mörkin milli þessara tveggja sjónarmiða? Hvorug fylkingin var fyllilega ánægð með frumvarpið, engum þótti það vera fullkomið. Mörgum stuðningsmönnum þess þótti misráðið, að fjöldi öldungadeildarmanna skyldi ákveðinn hinn sami í öllum ríkjum óháð fólksfjölda. Þetta var tilslökun af hálfu meiri hlutans gagnvart minni hlutanum. Stuðningsmenn frumvarpsins voru kallaðir sambandssinnar (e. federalists), og andstæðingarnir voru fylkissinnar (e. anti-federalists).
Bandaríkjaþing ákvað að senda frumvarpið athugasemdalaust til samþykktar eða synjunar í ríkjunum 13. Stjórnlagaþingið hafði kveðið á um, að samþykkt níu ríkja dygði til að lögfesta frumvarpið, svo að það tæki gildi sem ný stjórnarskrá Bandaríkjanna. Sumir töldu, að þingið þyrfti fyrst sjálft að samþykkja frumvarpið, en þeirri skoðun var hafnað. Stjórnlagaþingið – með skipuðum fulltrúm, ekki kjörnum – hafði samið frumvarpið, og Bandaríkjaþing taldi það ekki vera í sínum verkahring að fjalla efnislega um frumvarpið, hvað þá breyta því, það gætu ríkin ein gert. Sumir töldu, að með því að taka ekki efnislega afstöðu til frumvarpsins væri þingið að lýsa samþykki sínu, þar eð þögn væri sama og samþykki. Aðrir litu svo á, að með því að samþykkja ekki frumvarpið væri þingið í reyndinni að lýsa andstöðu sinni.
Ríkin 13 fólu ýmist lögþingum sínum að fjalla um frumvarpið eða sérstökum þingum, þar sem sérkjörnir fulltrúar sátu ásamt þingmönnum. Delaware reið á vaðið með einróma samþykkt frumvarpsins 7. desember 1787. Næst kom Pennsylvanía 12. desember, þar sem 46 fulltrúar studdu frumvarpið gegn 23 mótatkvæðum. New Jersey og Georgía samþykktu frumvarpið einróma 18. og 31. desember. Connecticut samþykkti frumvarpið í byrjun janúar 1788 með 128 atkvæðum gegn 40. Mjótt varð á munum í Massachusetts í byrjun febrúar, þar sem frumvarpið var samþykkt með 187 atkvæðum gegn 168. Nú höfðu sex ríki samþykkt frumvarpið. Í apríllok samþykkti Maryland frumvarpið með 63 atkvæðum gegn 11 og Suður-Karólína í maílok með 149 atkvæðum gegn 73. Nú vantaði eitt ríki enn. Í júnílok samþykkti New Hampshire frumvarpið með 57 atkvæðum gegn 47. Frumvarpið var í höfn níu mánuðum eftir að Stjórnlagaþingið skilaði því af sér til Bandaríkjaþings. Fáeinum dögum síðar samþykkti Virginía, fjölmennasta ríkið, frumvarpið með naumum meiri hluta, eða 89 atkvæðum gegn 79. Í júlílok samþykkti New York frumvarpið með 30 atkvæðum gegn 27. Norður-Karólína hafnaði frumvarpinu skömmu síðar með 184 atkvæðum gegn 83, en það breytti engu. Rhode Island, þrettánda ríkið, samþykkti frumvarpið í maí 1790 með 43 atkvæðum gegn 32, þótt frumvarpinu hefði verið hafnað með 2708 atkvæðum gegn 237 í almennri atkvæðagreiðslu í ríkinu. Þetta var enginn dans á rósum, en hann endaði vel.