29. nóv, 2024

Þegar augun opnast

Sú var tíð að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru tveir langstærstu flokkar landsins og gátu reitt sig á fylgi yfirgnæfandi hluta kjósenda. Þeir fengu samtals 78% greiddra atkvæða í alþingiskosningunum 1927 og 80% 1931. Þeir stjórnuðu landinu yfirleitt á víxl í samstarfi við minni flokka.

Þeir mynduðu samsteypustjórn tveir einir 1950, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, þótt formenn flokkanna tveggja töluðust varla við og treystu sér með naumindum til að sitja saman í ríkisstjórn. Hún sprakk 1953 og skiptust forustumenn og aðrir frambjóðendur flokkanna á allsvakalegum svívirðingum í kosningabaráttunni sem fylgdi stjórnarslitunum og héldu síðan samstarfinu áfram eins og ekkert hefði í skorizt fram til 1956.

En þá skildi leiðir flokkanna tveggja vegna ágreinings um breytingu á stjórnarskránni til að jafna atkvæðisrétt landsmanna og flokkarnir töluðust varla við aftur fyrr en 1974 eftir 18 ára hlé sem var hlaðið gagnkvæmri óvild. Mér er kunnugt um að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði nánum samstarfsmanni sínum, það hefur verið 1969 eða 1970, að hann myndi hætta afskiptum af stjórnmálum færu þingkosningarnar 1971 á þann veg að flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, þyrfti að mynda stjórn með Framsóknarflokknum. Bjarni var þá 62ja ára.

Smám saman hallaði undan fæti. Nú er fylgi þessara gömlu forustuflokka ekki nema svipur hjá sjón. Þeir fengu samtals 36% atkvæða í kosningunum 2017 og 42% 2021. Í nýrri skoðanakönnun Prósents er samanlagt fylgi þessara flokka nú komið niður í 16%, fimmtung af fylginu sem þeir nutu 1927 og 1931, Sjálfstæðisflokkurinn með 12% og Framsókn með 4% sem þýðir fall út af þingi. Hér er þó þess að gæta að í skoðanakönnunum vega öll svör jafnt eins og vera ber, en í kosningum vega sum atkvæði tvöfalt á við önnur. Frá 1995 til 2016 fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn að jafnaði rösklega tvö þingsæti samtals í forgjöf í þingkosningum og fjögur sæti í forgjöf 2016 í krafti misvægis atkvæða eftir búsetu.

 

Hvað veldur?

Kannski augu æ fleiri kjósenda séu að opnast.

Fyrst kom hermangið sem laðaði óprúttna fjárglæframenn að báðum þessum flokkum, menn sem settu svip á báða flokka. Síðan kom ókeypis afhending sameignarinnar í sjónum í hendur útvegsmanna með þeim afleiðingum að fáeinar fjölskyldur hafa nú að heita má öll ráð í hendi sér hringinn í kringum landið og stjórna þingmönnum eins og strengjabrúðum eins og Styrmir Gunnarsson, þá ritstjóri Morgunblaðsins, lýsti vel úr návígi.

Styrmir segir í bók sinni Umsátrið (2009, bls. 206): „Handhafar kvótans urðu þeir valdamenn, sem máli skiptu í sjávarplássunum í kringum landið. Þeir höfðu líf plássanna í hendi sér. … Þingmenn landsbyggðarkjördæmanna stóðu nær undantekningarlaust með kvótahöfunum. Þeir vissu sem var, að snerust þeir gegn þeim, væri stjórnmálaferli þeirra lokið. … Frambjóðendur í prófkjörum þurftu og þurfa að leita fjárstuðnings …, þar á meðal hjá handhöfum kvóta. Það jafngilti pólitísku sjálfsmorði að rísa upp gegn handhafa kvóta á landsbyggðinni.“

Úr því að Alþingi komst upp með að afhenda útvegsmönnum sameignina í sjónum á silfurfati, hví skyldu þau þá ekki hafa haft sama hátt á „einkavæðingu“ ríkisbankanna 1998-2003? Bankarnir voru þá ekki seldir heldur gefnir vel tengdum mönnum. Sjálfstæðismenn tóku Landsbankann og framsóknarmenn tóku Búnaðarbankann. Brýnt var talið að „Landsbankinn kæmist í hendur manna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði a.m.k. talsamband við“, eins og Styrmir lýsti því svo eftirminnilega í bókinni Forsætisráðherrar Íslands: Ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar í 100 ár (2004, bls. 467).

Þessir nýju eigendur bankanna með suma helztu virðingarmenn flokkanna í fararbroddi þurftu ekki nema fáein ár til að keyra báða bankana í þrot. Landið allt lék á reiðiskjálfi. Fjöldi fólks og fyrirtækja missti allt sitt. Afbrot höfðu verið framin í stórum stíl. Dómar gengu, mest þó yfir smáfiskum.

 

Hrunið, þið munið

Eftir þessar hamfarir kvöddu kjósendur Samfylkinguna og Vinstri græn til að reyna að taka til í rústunum. Ekki leið þó á löngu þar til Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hófu að flækjast fyrir björgunarstarfinu. „Skilaðu lyklunum!“ var hrópað að forsætisráðherra úr ræðustóli Alþingis.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn náðu að mynda nýja stjórn saman með gamla laginu 2013. Hennar helzta kennimark, mér liggur við að segja brennimark, var að endurreisa gamla Ísland eftir því sem hægt var og læra sem allra minnst af Hruninu, sem sum þeirra kölluðu „svokallað hrun“. Það gekk þar til formenn beggja stjórnarflokka voru gripnir glóðvolgir í Panama-skjölunum 2016 og stjórnin hrökklaðist frá. En flokkar þeirra héldu velli og hafa haldið áfram að stjórna landinu saman með hjálp smærri flokka (með stuttu hléi 2017) þar til nú að sér fyrir endann á valdasetu þeirra.

Þessir tveir gömlu valdaflokkar standa nú á barmi hengiflugs. Þeir hafa ásamt meðreiðarsveinum sínum og meyjum svikizt um að staðfesta vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi efndi til 2012. Af því leiðir að alþingiskosningarnar fram undan verða ólögmætar eina ferðina enn í þeim skilningi að kosið verður eftir kosningalögum sem 67% þjóðarinnar höfnuðu 2012 með því að lýsa sérstaklega stuðningi við jafnt – ekki jafnara, heldur jafnt! – vægi atkvæða. Við bætist að ekki verður með góðu móti hægt að efna til þjóðaratkvæðis um önnur mál, til dæmis aðild að Evrópusambandinu, úr því að Alþingi vanvirti úrslit atkvæðagreiðslunnar 2012. Lýðræðið í landinu er nú ekki nema svipur hjá sjón.

 

Ísland og ESB

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar keppast nú við að hallmæla Evrópusambandinu á alla lund svo brýnt sem það er einmitt nú að Evrópa þétti raðir sínar frammi fyrir nýjum viðsjám í álfunni. Málflutningur hallmælendanna um ESB rímar við þau ummæli þáverandi fjármálaráðherra 2021, nú forsætisráðherra, að „það hafi verið mistök að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að borðinu til að aðstoða við endurreisn efnahagslífsins eftir gjaldþrot fjármálakerfisins.“ Þarna var brennuvargur að fjargviðrast út í slökkviliðið.

Myndin sýnir kaupmátt landsframleiðslu á mann 1990-2023 í Bandaríkjadölum á föstu verðlagi ársins 2021 (heimild: Alþjóðabankinn). Hér er átt við framleiðslu með svo nefndri kaupmáttarleiðréttingu sem er gerð til að jafna metin milli þeirra landa þar sem verðlag er hátt og annarra þar sem verðlag er lægra. Dollarinn dregur lengra í Bangladess en í Bolungarvík. Slík leiðrétting tíðkast og er eiginlega nauðsynleg í fjölþjóðlegum samanburði. Enn betra væri að skoða framleiðslu á hverja vinnustund frekar en framleiðslu á mann til að taka fyrirhöfnina að baki framleiðslunnar með í reikninginn, en slíkar tölur eru ekki nógu áreiðanlegar enn sem komið er til að henta vel til samanburðar milli landa og svæða.

Hvað sem því líður leiðir myndin þrennt í ljós.

  • Vitaskuld er framleiðsla á mann minni í ESB að jafnaði en á Íslandi þar eð í ESB eru nú mörg ný lönd sem eru að reyna að rífa sig upp úr fátækt fyrri tíðar.
  • Frá Hruni 2008 hefur kaupmáttur framleiðslu á mann vaxið um 8% á Íslandi þessi 15 ár borið saman við 15% vöxt í ESB. Takið eftir þessum næstum tvöfalda mun.
  • Síðan fráfarandi ríkisstjórn tók við völdum á Íslandi 2017 hefur kaupmáttur framleiðslu á mann vaxið um 3% á Íslandi borið saman við 8% í ESB. Þetta er næstum þrefaldur munur og hjálpar okkur ef til vill að skilja betur ófriðareldinn sem nú geisar á vinnumarkaði og veika stöðu fráfarandi ríkisstjórnar og flokkanna sem að henni standa.

Svo er bara að sjá hvað kemur upp úr kössunum.