Fréttablaðið
6. okt, 2005

Þannig eiga blöð að vera

New York Times er gott blað og hefur meira að segja á að skipa sérstökum umboðsmanni lesenda, sem blaðið kallar public editor. Til hans geta áskrifendur leitað og aðrir lesendur, ef þeir telja blaðið hafa brugðizt skyldu sinni. Umboðsmanninum er ætlað að fylgjast með því, að fréttir blaðsins séu réttar, ritstjórar og aðrir blaðamenn fari rétt og kurteislega með staðreyndir og aðsent efni standist sömu kröfur. Umboðsmaðurinn gefur lesendum blaðsins með reglulegu millibili skýrslu um samskipti sín við lesendur. Fyrir nokkru birti umboðsmaðurinn opinbera afsökunarbeiðni fyrir hönd blaðsins. Tilefnið var, að vonsvikinn lesandi í Massachusetts sakaði blaðið um að hafa brugðizt skyldu sinni með því að láta það hjá líða að fræða lesendur um þróun mála í New Orleans, vaxandi fátækt og vanrækta flóðgarða. Lesendur New York Times komu af fjöllum, þegar fréttir í kjölfar fellibylsins Katrínar færðu þeim heim sanninn um það, að 70% borgarbúa voru blökkumenn og fjórðungur íbúanna bjó undir fátæktarmörkum. Borgin hafði breytzt frá fyrri tíð, og langflestir lesendur blaðsins vissu það ekki. New York Times hafði mörg undangengin ár birt margar glaðlegar greinar um dynjandi djassinn í Franska hverfinu og matargerðina á veitingahúsum borgarinnar, en lýsingu á lífi fólksins í fátækrahverfunum var hvergi að finna nema aftarlega í örfáum línum, sem auðvelt var að missa af.

Blaðið hafði einnig fjallað um flóðgarðana við borgina og hættuna á því, að sjórinn myndi trúlegaflæða yfir garðana í miklum fellibyl. En blaðið sagði lítið eða ekkert um þá vanrækslu á viðhaldi garðanna, sem gerði það að verkum, að þeir rofnuðu, svo að hörmungarnar af völdum fellibylsins urðu miklu meiri en ella. Fátæklingarnir í borginni gátu litla björg sér veitt, þegar fellibylurinn æddi yfir svæðið, enda þótt hann gerði boð á undan sér með löngum fyrirvara. Almannavarnir komu af fjöllum, eins og Guðmundur Andri Thorsson lýsti vel á þessum stað fyrir nokkru. New York Times hafði ekki heldur varað lesendur sína við hættunni, sem hlaut að fylgja því, að Bush forseti hafði trúað nokkrum einkavinum sínum fyrir yfirstjórn Almannavarna, mönnum, sem höfðu enga reynslu af almannavörnum eða neyðarhjálp í náttúruhamförum (heldur arabískum hestum!). Enda komu þeir af fjöllum, þegar fellibylurinn kom á land í Louisiana. Forstjórinn neyddist til að segja af sér nokkru síðar eftir þingnefndaryfirheyrslur. Og blaðið baðst afsökunar. Þetta kallar maður að kunna að skammast sín. New York Times ætlaði samt ekki að villa um fyrir lesendum sínum. Blaðið hafði engan hag af því að halda ástandinu leyndu.Þögn blaðsins var óviljaverk.

Himinn og haf skilja New York Times frá fjölmiðlum í einræðisríkjum og ýmsum öðrum löndum, þar sem lýðræðið gengur við staf. Höfuðhlutverk dagblaða og annarra fjölmiðla í einræðisríkjum er beinlínis að villa um fyrir fólki, ýmist með beinum lygum eða óbeint með því þegja um ýmis mál, sem geta komið sér illa fyrir yfirvöld (eða fyrir eigendur blaðanna, nema hvort tveggja sé). Þar er þagað um flugslys, af því að þau varpa rýrð á ríkisflugfélögin. Þar er þagað um spillingu og græðgi stjórnmálastéttarinnar og ýmsa sjálftöku forréttinda og fríðinda, svo að yfirstéttin getur þá farið sínu fram án aðhalds og eftirlits. Þar er þagað um mútumál og ýmis önnur lögbrot. Þar er þagað um innlagnir á bankareikninga í útlendum skálkaskjólum, enda þótt um augljóst misferli sé að ræða. Þar er aldrei krafizt opinberrar rannsóknar á einu eða neinu, sem gæti varpað skugga á valdastéttina eða aðra þá, sem fjölmiðlarnir hafa tekið að sér að hlífa. Þar er þagað um harðræði óeinkennisklæddra lögreglumanna gegn saklausum borgurum – ef ekki í fréttarými, þá í forustugreinum. Þar er þagað um lögreglustjóra, sem sæta kærum fyrir líkamsárásir. ,,Þau eru verst hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu” segir í þýðingu Bjarna Jónsonar frá Vogi á gömlu kvæði eftir norska skáldið Arne Garborg. New York Times er ekki þannig blað. New York Times baðst afsökunar á að hafa brugðizt skyldu sinni með því að þegja – og það um þjóðfélagsvandamál, sem blaðið og eigendur þess höfðu engan hag af að breiða yfir. Þannig eiga blöð að vera.