DV
6. júl, 2012

Þá fékk þjóðin að ráða

„ … það verður gengið til þingkosninga næsta vor án þess að nokkur maður viti hver yrði stjórnskipuleg staða alþingis, eða stjórnskipuleg staða forsetans þegar þessu ferli lýkur,“ sagði forseti Íslands við RÚV um daginn og bætti við: „ … það er verið að setja stjórnarskrá og breyta henni, ekki í þágu einhverrar ríkisstjórnar, eða einstakra ráðherra eða flokka. Það er verið að setja stjórnarskrá og breyta henni í þágu þjóðarinnar … Það er ekkert vit í því að fara að breyta stjórnarskránni sjálfri, grunnrammanum að öllum átökum í landinu, í bullandi átökum og ágreiningi.“

Við þessi ummæli forsetans er ýmislegt að athuga, þar eð Alþingi hefur heitið þjóðinni að fá að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá eigi síðar en 20. október til að leiða málið til lykta.

Stjórnarskrármálið er í föstum farvegi. Þjóðfundurinn 2010 – lýðræðislega valið slembiúrtak allrar þjóðarinnar – lagði línurnar í framhaldi af búsáhaldabyltingunni. Starf stjórnlaganefndar og frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár spratt af þjóðfundinum, enda bar Stjórnlagaráði skv. lögum að taka mið af niðurstöðum þjóðfundarins. Það var gert.

Þjóðin mun fá að segja álit sitt á frumvarpi Stjórnlagaráðs eigi síðar en 20. október skv. ákvörðun, sem Alþingi hefur tekið og ekki verður breytt úr þessu, þótt máttlítil atlaga væri gerð á Alþingi gegn rétti þjóðarinnar til að fjalla milliliðalaust um málið. Þjóðin hefur málið í hendi sér skv. ákvörðun Alþingis, og niðurstaða hennar mun liggja fyrir löngu fyrir þinglok, nema ríkisstjórnin leggi upp laupana og þing verði rofið fyrir 20. október, en það virðist ólíklegt eins og sakir standa.

Verði frumvarpinu hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni, kemur upp ný staða, sem Alþingi þarf ásamt þjóðinni að takast á við. Verði frumvarpið hins vegar samþykkt, þá mun Alþingi einnig hljóta að samþykkja frumvarpið fyrir þinglok 2013, því varla gengur Alþingi gegn þjóðinni í máli, sem þingið hefur falið þjóðinni að fjalla um. Fari svo, hlýtur nýtt Alþingi, hvernig sem það verður saman sett, að staðfesta vilja þjóðarinnar að loknum alþingiskosningum og ljúka málinu með því að samþykkja frumvarpið.

Stjórnarskrár kveða á um réttindi og skyldur og hljóta því nær ævinlega að mæta andstöðu. Sumum er sýnna um að þiggja réttindi en rækja skyldur. Einn helzti sérfræðingur heimsins í nýjum evrópskum stjórnarskrám, norski heimspekingurinn Jon Elster, prófessor í New York, hefur rakið, að þess eru nær engin dæmi, að nýjar stjórnarskrár taki gildi eða gamlar stjórnarskrár taki umtalsverðum breytingum, þegar allt er með kyrrum kjörum. Þvert á móti er stjórnarskrám nær aldrei breytt að ráði nema í kjölfar ólgu og óróa. Elster tilgreinir aðeins tvær undantekningar frá reglunni, Svíþjóð 1974 og Kanada 1982.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna var víða samþykkt með naumum meiri hluta 1787-88. Svo mjótt var á munum, að hefðu 20 manns í þrettán fylkjum Bandaríkjanna greitt atkvæði gegn frumvarpinu, sem stjórnlagaþing Bandaríkjanna samþykkti í Fíladelfíu 1787, frekar en að greiða atkvæði með því, hefði frumvarpið ekki náð fram að ganga. Í Pennsylvaníu studdu t.d. 46 fulltrúar frumvarpið gegn 23 mótatkvæðum. Massachusetts samþykkti frumvarpið með 187 atkvæðum gegn 168 og Suður-Karólína með 149 atkvæðum gegn 73. New Hampshire samþykkti frumvarpið með 57 atkvæðum gegn 47, Virginía með 89 atkvæðum gegn 79 og New York með 30 atkvæðum gegn 27.

Norður-Karólína hafnaði frumvarpinu með 184 atkvæðum gegn 83. Rhode Island samþykkti frumvarpið með 43 atkvæðum gegn 32, þótt frumvarpinu hefði verið hafnað með 2708 atkvæðum gegn 237 í almennri atkvæðagreiðslu í fylkinu. Delaware, Georgía og New Jersey voru einu fylkin, sem samþykktu frumvarpið án mótatkvæða.

Bandaríkjaþing breytti ekki stafkrók í frumvarpi stjórnlagaþingsins, heldur lét þingið fólkið og fulltrúa þess í fylkjunum þrettán um að ljúka málinu eins og lagt var upp með. Þingið hafði falið stjórnlagaþinginu frumvarpsgerðina og stóð við þá ákvörðun. Þingmenn skildu, að það var annarra en þeirra sjálfra að setja þinginu reglur og valdheimildir. Auðvitað heyrðust þær raddir, að ekkert vit væri í að „fara að breyta stjórnarskránni sjálfri … í bullandi átökum og ágreiningi“, en það sjónarmið varð undir. Þjóðin fékk að ráða.