DV
2. des, 2011

Þá er ekkert rangt

Þegar sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var birt 1776, höfðu Englendingar og aðrir Evrópumenn haft búsetu í Bandaríkjunum í rösk 150 ár. Á þeim tíma tíðkaðist þrælahald þar vestra líkt og víða annars staðar um heiminn og hafði gert frá ómunatíð. Þeim mun markverðari er önnur efnisgrein sjálfstæðisyfirlýsingarinnar (í þýðingu Jóns Ólafssonar ritstjóra frá 1884):

„Vér ætlum þessi sannindi auðsæ af sjálfum sér: – að allir menn eru skapaðir jafnir; að þeir eru af skapara sínum gæddir ýmsum ósviftanlegum réttindum; að á meðal þessara réttinda eru líf, frelsi og viðleitni til velvegnunar; að stjórnir eru með mönnum settar, til að tryggja þessi réttindi, og að réttmæti valds þeirra grundvallast á samþykki þeirra, sem stjórnað er; að þegar eitthvert stjórnarform verður skaðvænlegt þessum tilgangi, þá er það réttur þjóðarinnar að breyta því eður afnema það, og að stofna sér nýja stjórn, er grundvölluð sé á þeim frumreglum og valdi hennar hagað á þann hátt, er þjóðinni virðist líklegast til að tryggja óhultleik hennar og farsæld.“

Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna var beint gegn brezku krúnunni. Bandaríkjamenn þurftu að heyja blóðugt stríð 1775–1783 til að brjótast undan yfirráðum Breta. Eftir orðanna hljóðan – „allir menn eru skapaðir jafnir“ – mætti ætla, að yfirlýsingunni hafi einnig verið beint gegn þrælahaldi, en svo var ekki. Thomas Jefferson, aðalhöfundur yfirlýsingarinnar og þriðji forseti Bandaríkjanna 1801–1809, átti hundruð þræla, seldi marga þeirra og gaf öðrum frelsi. Þar á meðal voru synir Jeffersons og dætur, sem hann átti með einni af ambáttum sínum, Sally Hemings, svo sem í ljós kom löngu síðar. Í hjarta sínu var Jefferson þó andvígur þrælahaldi og beitti sér fyrir lagasetningu gegn innflutningi þræla 1807, en þrælasala og þrælahald héldu áfram í suðurríkjunum. Endanlega var þrælahald afnumið í norðurríkjunum á árabilinu 1827 (New York) til 1848 (Illinois), þar eð þrælahald var þar ekki talið svara kostnaði. Í suðurríkjunum færðist þrælahald þvert á móti í aukana með eflingu baðmullarræktar. Stjórnarskrá Bandaríkjanna, samin á fjórum mánuðum 1787 og samþykkt árið eftir, leyfði innflutning á þrælum og verndaði tilkall þrælahaldara til þræla sinna án þess þó að nefna þrælahald því nafni.

Tíminn leið. Bretar afnámu þrælahald í nýlendum sínum með lögum 1833. Norðurríkjamenn í Bandaríkjunum höfðu yfirleitt andúð á þrælahaldi suðurríkjamanna. Abraham Lincoln var kjörinn forseti Bandaríkjanna 1860. Honum var mjög í mun að varðveita einingu ríkisins og hefta útbreiðslu þrælahalds. Hann var norðurríkjamaður, frá Illinois, og var andvígur þrælahaldi, þótt hann léti sig hafa það að þiggja andvirði nokkurra þræla í arf eftir tengdaforeldra sína.

Áður en Lincoln varð forseti, fannst honum líklegt, að þrælahald myndi fjara út af sjálfu sér og því dygði að hefta útbreiðslu þess og ekki þyrfti að uppræta það. Hann skipti um skoðun, þegar þrælahald færðist í vöxt í suðurríkjunum. Næði þrælahald einnig að breiðast út til vesturríkjanna, gætu norðurríkin lent í minni hluta í landinu. Miklir hagsmunir voru bundnir við þrælahald í suðurríkjunum. Þegar Lincoln varð forseti, sögðu suðurríkin, 11 talsins, sig úr lögum við norðurríkin 25. Suðurríkin óttuðust, að norðurríkin myndu neyta aflsmunar til að breyta stjórnarskránni og banna þrælahald með öllu. Ríkisstjórn Lincolns leit á úrsögn suðurríkjanna sem ólöglega uppreisn. Borgarastyrjöld brauzt út og stóð í fjögur ár, 1861-65, með miklu mannfalli. Framan af stríðinu leit Lincoln svo á, að það snerist um að varðveita einingu ríkisins, þótt kveikjan væri ágreiningur um þrælahald. Í miðju stríði varð Lincoln ljóst, að stríðið var í reyndinni þrælastríð og norðurríkin urðu að sigra til að geta síðan rifið þrælahaldið upp með rótum. Ef þrælahald er ekki rangt, sagði Lincoln, þá er ekkert rangt.

Samsærismenn frá suðurríkjunum myrtu Lincoln á föstudaginn langa 1865 og reyndu einnig að myrða varaforsetann og utanríkisráðherrann, en það tókst ekki eins og Robert Redford rifjar upp í kvikmynd sinni frá 2010, The Conspirator. Norðurríkin höfðu fullan sigur síðar sama ár. Bandaríkjaþing samþykkti viðauka við stjórnarskrána, sem bannaði þrælahald í Bandaríkjunum fyrir fullt og allt. Það var þó ekki fyrr en hundrað árum síðar, 1964, að bandarískir blökkumenn öðluðust fullt jafnrétti að lögum á við hvíta. Barack Obama forseti telst blökkumaður. Kjör hans í embætti 2008 er ávöxtur 200 ára baráttu fyrir réttlæti.