Fréttablaðið
22. jan, 2009

Stjórnarskráin og ESB

Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn á sínum tíma, varð niðurstaða þingsins sú eftir miklar rökræður, að ekki væri þörf á að breyta stjórnarskránni. Þessi niðurstaða lá ekki í augum uppi, þar eð EES-samningurinn fól í sér víðtækt – og frá mínum bæjardyrum séð velkomið – framsal á fullveldi Íslands. Orðalagið „framsal á fullveldi“ er að sönnu arfur frá fyrri tíð og á ekki vel við í síminnkandi heimi. Betur færi á að tala um að deila fullveldi sínu með öðrum líkt og við gerum með glöðu geði, þegar við göngum í hjónaband. Það þætti varla gott mannsefni, sem gengi út úr kirkjunni með þau orð á vörum, að hann hefði engu fórnað og fullveldi hans væri óskert gagnvart eiginkonunni. Enn betur fer á að tala um að deila valdheimildum ríkisins með öðrum ríkjum. Evrópusambandið hvílir á hugsjóninni um sameiginlegar lausnir á sammálum og sérlausnir á sérmálum. Þau mál, sem geta ekki talizt einkamál hverrar þjóðar fyrir sig, þarf að leysa í sameiningu, en þó þannig, að sérstaða hverrar þjóðar sé virt. Landamærin milli sammála og sérmála eru ekki föst, þau fljóta. Þessi mörk þurfa að færast til, þegar Íslendingar semja við ESB um útvegsmál, þar eð fiskimiðin við Ísland varða hag heillar þjóðar (sjávarafurðir námu þó ekki nema sjö prósentum af landsframleiðslu 2006) og ekki bara hagsmuni einstakra byggða líkt og háttar um útveginn annars staðar innan ESB. Smáríkjum hefur vegnað vel innan ESB. Grænland er eina landið, sem hefur séð sér hag í að yfirgefa ESB.

Sumir þeirra, sem tryggðu EES-samningnum brautargengi á Alþingi á sínum tíma, tefldu fram þeim rökum, að fullveldisafsalið samkvæmt samningnum væri ekki svo stórfellt, að það kallaði á stjórnarskrárbreytingu, en þegar röðin kæmi að hugsanlegri aðild að ESB, myndi þurfa að breyta stjórnarskránni. Þessi rök voru ekki fyllilega sannfærandi. Fullveldisafsalið samkvæmt samningnum var í fyrsta lagi umtalsvert. Í annan stað var fyrirheitið um stjórnarskrárbreytingu síðar, þegar röðin kæmi að ESB, ef til vill óþarft eins og ég lýsti á þessum stað fyrir viku. Óbreytt stjórnarskrá virðist leyfa inngöngu í ESB samkvæmt rúmri túlkun á þeim greinum stjórnarskrárinnar, sem máli skipta, og samlestri við dönsku stjórnarskrána, sem er fyrirmynd okkar stjórnarskrár. Greinarnar tvær (19. og 20. gr.), sem Danir bættu inn í stjórnarskrá sína 1953 til að greiða fyrir nánu Evrópusamstarfi síðar, snerust ekki um, hvort Danir gætu ákveðið að ganga í ESB, heldur hvernig. Grein, sem fyrir var í dönsku stjórnarskránni (3. gr.), þótti ekki standa í vegi fyrir inngöngu Dana í ESB. Þessi grein í dönsku stjórnarskránni er samhljóða 2. grein í okkar stjórnarskrá, sem við hljótum því að geta lagt sama skilning í og Danir. Enda þótt einfaldur meiri hluti Alþingis gæti eftir þessum lögskilningi samþykkt aðild Íslands að ESB, væri hyggilegra að leggja málið í bindandi dóm þjóðarinnar til að taka af öll tvímæli um lögmætið. Til þess þarf ekki stjórnarskrárbreytingu. Hitt er eftir sem áður rétt, að stjórnarskráin þarfnast endurskoðunar, ekki sízt í ljósi þeirra djúpu bresta, sem fjármálakreppan nú hefur afhjúpað.

Eru þeir, sem biðja nú um breytta stjórnarskrá vegna aðsteðjandi umsóknar um aðild að ESB, að biðja um, að forsendur ákvörðunarinnar um aðildina að EES 1994 án stjórnarskrárbreytingar séu endurskoðaðar? Ekki endilega. Aðildin að EES fól í reynd í sér umfangsmeira afsal valdheimilda en aðild að ESB myndi fela í sér nú til viðbótar; skrefið, sem þá var stigið, var stærra. Innan EES þurftu Alþingi og ráðuneyti að breyta lögum og reglum í stórum stíl: það var tilgangurinn. Alþingi komst að þeirri niðurstöðu, að stjórnarskráin leyfi svo víðtækt afsal valdheimilda. Í lagalegu tilliti er aðild að ESB þó í eðli sínu ólík aðild að EES. Aðild að ESB þýðir, að stofnanir ESB fá lagasetningarvald á Íslandi og dómstóll ESB fær bindandi dómsvald, en hvorugu er til að dreifa innan EES. Hvort tveggja yrði að minni hyggju Íslandi til framdráttar líkt og öðrum aðildarlöndum. Margir lögfræðingar og allir stjórnmálaflokkar landsins líta svo á, að eðlismunurinn á ESB og EES kalli á stjórnarskrárbreytingu. Mér sýnist sú staðreynd, að aðild að ESB myndi í reynd kalla á minna framsal valdheimilda til viðbótar en aðildin að EES gerði, veita hugsanlegt færi á inngöngu í ESB að óbreyttri stjórnarskrá, enda er stjórnarskrá okkar rýmri en stjórnarskrá Danmerkur eins og lýst er að framan. Þessi skoðun, ef rétt reynist, reisir skorður við tilraunum andstæðinga ESB-aðildar til að misnota stjórnarskrána til að drepa málinu á dreif. Fólkið í landinu þarf samt að fá að eiga síðasta orðið um málið frekar en Alþingi.