DV
28. júl, 2011

Stjórnarskrá gegn leynd

Orðstofninn „upplýs“ kemur fyrir á 21 stað í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Stiklum á stóru.

Í tjáningarfrelsisákvæðinu stendur: „Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.“ Þarna er girt fyrir getu stjórnvalda til að skerða aðgang að vefnum.

Í frumvarpinu er langt ákvæði um upplýsingarétt: „Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum. Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum. Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur. Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.“ Þarna er kveðið á um, að öll opinber gögn skuli vera uppi á borðum, nema sérstakar ástæður beri til.

Ákvæðið um frelsi fjölmiðla hljóðar svo: „Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum. Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.“ Þessu ákvæði er ætlað að búa í haginn fyrir frjálsa fjölmiðlun.

Þá er í frumvarpinu sérstakt ákvæði um upplýsingar um umhverfi og málsaðild og hljóðar fyrri hluti þess svo: „Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.“

Annars staðar í frumvarpinu segir: „Í lögum skal kveðið á um skyldu þingmanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.“ Og einnig: „Fjárlaganefnd Alþingis getur krafið stofnanir ríkisins, ríkisfyrirtæki og þá aðra, sem fá framlög úr ríkissjóði, um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár.“ Og síðan þetta: „Ráðherrum er skylt að veita utanríkismálanefnd Alþingis upplýsingar um utanríkis- og varnarmál.“

Sérstakt ákvæði um upplýsinga- og sannleiksskyldu hljóðar svo: „Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum. Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra með því að bera fram fyrirspurn um mál eða óska eftir skýrslu, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum. Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi.“

Þá er þarna ákvæði um sjálfstæði ríkisstofnana: „Í lögum má kveða á um að tilteknar stofnanir ríkisins, sem gegna mikilvægu eftirliti eða afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru í lýðræðisþjóðfélagi, njóti sérstaks sjálfstæðis. Starfsemi slíkra stofnana verður ekki lögð niður, henni breytt að verulegu leyti eða fengin öðrum stofnunum, nema með lögum sem samþykkt eru með ⅔ atkvæða á Alþingi.“ Þarna er reynt að girða fyrir hættuna á, að upplýsingar líði fyrir ótta þeirra, sem safna þeim. Tilefnið er meðal annars sú staðreynd, að Þjóðhagsstofnun var lögð niður 2002 til mikils skaða fyrir landið.

(Birtist á dv.is)