Fréttablaðið
15. sep, 2011

Stjórnarskrá fólksins

Það hafði ýmsa áþreifanlega kosti í för með sér og enga galla að bjóða fólkinu í landinu til samstarfs um samningu frumvarps Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Fyrir lá, að almenningur hafði hug á málinu, því að annars hefðu 522 frambjóðendur varla gefið kost á sér til setu á Stjórnlagaþingi. Kosningabaráttan, ef baráttu skyldi kalla, fór svo vel fram í alla staði, að hvergi bar skugga á. Frambjóðendur virtust flestir líta hverjir á aðra sem meðframbjóðendur frekar en mótframbjóðendur. Þeir frambjóðendur, sem létu í sér heyra opinberlega, töluðu langflestir af miklu viti um viðfangsefnið. Ríkur samhugur um vilja til verulegra breytinga á stjórnskipun landsins einkenndi svör frambjóðenda við rækilegum spurningum DV fyrir kosningar eins og ég lýsti í nokkrum fyrirlestrum í fjórum háskólum í janúar og í tveim greinum í Fréttablaðinu um svipað leyti, 6. og 13. janúar 2011. Til dæmis voru nær allir frambjóðendur á einu máli um, að óbreytt fyrirkomulag á skipun dómara kæmi ekki til álita. Einnig var ríkur samhugur um nauðsyn þess að kveða skýrt á um eign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Margt fleira mætti nefna. Þjóðfundurinn hafði slegið tóninn með því að lýsa eftir umtalsverðum endurbótum á stjórnarskránni. Engum þarf því að koma á óvart, að frumvarpinu, sem Stjórnlagaráð samþykkti einum rómi og afhenti forseta Alþingis 29. júlí sl., er ætlað að fela í sér gagngerar réttarbætur.

Af umferðinni um vefsetur Stjórnlagaráðs að dæma tók fólkið í landinu vel í tilboð ráðsins um aðild að samningu frumvarpsins. Stjórnlagaráði bárust 323 formleg erindi, sem nefndir ráðsins fjölluðu um og svöruðu. Rösklega 3600 skriflegar athugasemdir bárust inn á vefsetur ráðsins (stjornlagarad.is), og brugðust ráðsfulltrúar við mörgum þeirra. Nær öll innsend erindi og athugasemdir gerðu gagn, ekki aðeins það, sem sagt var, heldur einnig hitt, sem ekki var sagt. Ef enginn hreyfði andmælum, vorum við kannski á réttri leið. Nær undantekningarlaust voru erindin og athugasemdirnar virðulega fram settar ólíkt ýmsu því, sem mönnum þykir sumum hæfa að birta á vefnum. Þeir, sem óttuðust kannski, að vefsetur Stjórnlagaráðs myndi sligast undan níði og þvættingi, höfðu í reyndinni ekkert að óttast. Það er áleitin spurning, hvers vegna óhróðurinn og vitleysan, sem setur svo mjög mark sitt á stjórnmálaumræður og hefur lengi gert, sneiddi hjá Stjórnlagaráði. Kannski það hafi hjálpað til, að umræður á fundum Stjórnlagaráðs einkenndust af kurteisi og gagnkvæmri virðingu og af virðingu fyrir verkefninu, sem þjóð og þing höfðu falið ráðinu. Um 150 til 450 manns horfðu á beinar útsendingar frá fundum ráðsins. Rösklega 50 viðtöl við ráðsfulltrúa og aðra, sem að verkinu komu, voru birt á YouTube, og hafa þau nú verið skoðuð um 5000 sinnum. Vefur ráðsins er sneisafullur af upplýsingum um störf ráðsins og umfjöllun fjölmiðla innan lands og utan. Símanúmer ráðsfulltrúa og tölvupóstföng voru hverjum manni aðgengileg. Við funduðum í alfaraleið í hjarta Reykjavíkur, ekki í óbyggðum eins og stundum hefur þótt þurfa í útlöndum á fyrri tíð til að hlífa starfinu að nýrri stjórnarskrá við ágangi hagsmunahópa.

Þótt Stjórnlagaráð hafi lagt ríka áherzlu á gott samstarf við almenning, má enginn freistast til að álykta, að ráðið hafi ekki borið sig eftir skoðunum sérfræðinga. Stjórnlaganefnd lagði vandaða skýrslu upp í hendur Stjórnlagaráðs með góðum hugmyndum. Fjölmargir sérfræðingar voru fengnir til að leiðbeina ráðinu, bæði lögfræðingar og aðrir, ýmist á fundum eða skriflega. Ráðinu var ekki kleift að leita til allra sérfræðinga, sem til greina komu, en þá gátu þeir, sem höfðu sjónarmið fram að færa, gefið sig fram til jafns við aðra. Ólíkt því vinnulagi, sem tíðkast á Alþingi, var fulltrúum hagsmunasamtaka ekki boðið til samráðsfunda í Stjórnlagaráði, en hagsmunasamtök höfðu vitaskuld sama aðgang og almenningur að ráðinu og einstökum ráðsfulltrúum. Því má einnig halda til haga, að í ráðinu sat fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri með víðtæka reynslu af flestum sviðum þjóðlífsins: ekki aðeins lögfræðingar, læknar, prestar og prófessorar, heldur einnig baráttukona úr röðum fatlaðs fólks, bóndi, fjölmiðlamenn, fyrrum alþingismenn, heimspekingur, hjúkrunarfræðingur, leikstjóri, skáld og listamenn, stjórnarmenn í fyrirtækjum, stjórnmálafræðingar, stærðfræðingar og verklýðsforingi. Skemmtilegur þverskurður af þjóðinni, fannst mér.