Morgunblaðið
11. jan, 2010

Spurningar Morgunblaðsins um IceSave og svör mín

1. Hvaða afleiðingar telur þú líklegt að það hafi ef þjóðin fellir Icesave-samninginn?

Norðurlöndin munu þá næstum örugglega hætta stuðningi við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar vegna forsendubrests. Þá mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) eiga úr vöndu að ráða, því að honum er samkvæmt reglum ekki fært að styðja efnahagsáætlun aðildarlands upp á önnur býti en þau, að lánsféð til stuðnings áætluninni dugi. Sjóðurinn getur samkvæmt reglum ekki útvegað meira fé sjálfur. Vandséð er, að nokkurt annað land bjóði fram fé, ef Norðurlöndin draga sig í hlé. AGS þarf þá annaðhvort að skilja Ísland eftir einangrað frá erlendum lánsfjármörkuðum eða hjálpa stjórnvöldum að setja saman nýja áætlun með harkalegri niðurskurði ríkisútgjalda og auknum álögum á fólk og fyrirtæki til að fylla gapið, sem opnast við brottfall norrænu lánanna.

2. Hverjar telur þú þá líkurnar á greiðslufalli?

Falli IceSave-samningurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni, eykst hættan á enn frekari upplausn á vettvangi stjórnmálanna. Þegar það rennur upp fyrir þeim stjórnmálamönnum, sem töfðu afgreiðslu IceSave-málsins á Alþingi von úr viti, að án stuðnings Norðurlanda mun hagur fólks og fyrirtækja þrengjast til muna í bráð, annaðhvort vegna frekara gengisfalls krónunnar og aukinnar verðbólgu, ef AGS dregur sig í hlé, eða vegna herts aðhalds í fjármálum ríkis og byggða. Fari svo, eykst þá einnig hættan á, að ríkið geti ekki staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Á það mun reyna fyrst fyrir lok næsta árs, þegar stórt erlent lán fellur í gjalddaga.

3. Hvað afleiðingar telur þú líklegt að það hafi ef þjóðin samþykkir Icesave-samninginn?

Þá skapast skilyrði til að halda endurreisnarstarfinu áfram með vel útfærðum umbótum í ríkisfjármálum og bankamálum auk annars. Kostnaðurinn vegna IceSave-skuldbindinganna er umtalsverður, en hann er þó tiltölulega lítill miðað við annan kostnað, sem þjóðin þarf að bera af völdum hrunsins.

4. Hverjar telur þú þá líkurnar á greiðslufalli?

Verði IceSave-samningurinn samþykktur, verða líkurnar á greiðslufalli ríkisins minni en ella að öðru jöfnu. Hversu miklu minni þær verða getur enginn vitað.

5. Hvernig á þjóðin að vinna sig út úr þessu máli, að þínum dómi?

Þjóðin þarf að snúa bökum saman og kappkosta að standa við skuldbindingar ríkisins í útlöndum. Ríkisstjórnin þarf að halda fast við áætlunina, sem lagt var upp með fyrir rösku ári, og sjá jafnframt til þess, að ábyrgðarmenn hrunsins, bankamenn og aðrir, séu látnir sæta ábyrgð að lögum. Þannig og aðeins þannig getur ríkisstjórnin áunnið sér traust almennings og sannfært hann um nauðsyn þess að bíta á jaxlinn, standa skil á erlendum skuldum ríkisins og reisa landið aftur úr rústum hrunsins.

6. Voru gerð mistök við gerð Icesave-samningsins í upphafi eða var rétt að honum staðið af hálfu stjórnvalda?

IceSave-samningurinn getur talizt nokkuð hagfelldur Íslendingum í þeim skilningi, að Bretar og Hollendingar taka samkvæmt honum á sig hálfa ábyrgðina með því að krefja Íslendinga um ca. helming þeirrar fjárhæðar, sem þurfti til að bæta 400.000 innstæðueigendum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi skaðann, sem þeir urðu fyrir, þegar Landsbankinn hrundi. Það má kallast nokkuð vel sloppið miðað við kringumstæður. Falli samningurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni, geta Bretar og Hollendingar krafizt þess að fá skaðann bættan að fullu. Erlendur dómstóll þyrfti að fjalla um þá kröfu.