Fréttablaðið
19. júl, 2007

Sögulegar sættir

Vagga mannkynsins er hér í Suður-Afríku, segja heimamenn. Elztu mannvistarleifarnar í landinu eru þriggja milljóna ára gamlar. Ýmsar jarðminjar renna stoðum undir þessa skoðun. Ekki er þó mikið vitað um mannvistina langt aftur í aldir. Hitt vita menn, að nýliðin saga Suður-Afríku er átakasaga. Fyrst þurftu heimamenn líkt og Indjánar Norður-Ameríku að kljást við aðkomumenn norðan úr Evrópu, einkum frá Hollandi, þegar þeir stigu á land á Góðrarvonarhöfða á suðurodda Afríku 1652 til að koma sér þar upp bækistöð á miðri siglingaleiðinni frá Evrópu til Austurlanda fjær. Síðan ruddust Bretar einnig inn í Suður-Afríku og elduðu grátt silfur ýmist við hollenzku nýbúana eða frumbyggjana. Það var ójafn leikur: evrópskir byssustingir gegn afrískum spjótum.

Gullæðið eftir 1886 magnaði ófriðinn. Bretar hófu Búastríðið gegn afkomendum hollenzku nýbúanna 1899 einkum til að ná umráðum yfir gulli landsins og höfðu sigur 1902 og gerðu þá Suður-Afríku að brezkri nýlendu. Landið fékk fullt sjálfstæði 1961, en hvítir menn einir – afkomendur Hollendinga og annarra Evrópumanna – réðu lögum og lofum og skeyttu lítið um rétt og hag frumbyggjanna. Aðskilnaðarstefnan uppskar óbeit alls umheimsins, en hún hélt þó velli til 1994, þegar blökkumenn fengu loks langþráð mannréttindi til jafns við hvíta. Af því er mikil saga.

Þegar Hollendingar birtust á suðurodda Afríku um miðja sautjándu öld, voru íbúar Suður-Afríku trúlega um fimm milljónir að tölu. Í Afríku allri bjuggu þá nálega 100 milljónir manns, eftir því sem næst verður komizt, á móti tæpum 800 milljónum nú. Til viðmiðunar voru Indjánar Norður-Ameríku tæpar tvær milljónir, þegar Bretar og aðrir Evrópumenn lögðu Norður-Ameríku undir sig um svipað leyti. Indjánum í vesturheimi var útrýmt á stórum svæðum til að rýma fyrir nýbúum. Sambærilegt þjóðarmorð átti sér ekki stað í Suður-Afríku, enda ráða afkomendur frumbyggjanna þar nú eigin landi, ekki afkomendur nýbúanna eins og í Bandaríkjunum.

Frumbyggjar Suður-Afríku héldu velli, en þeim var haldið niðri með harðri hendi. Þeir voru ódýrt vinnuafl í augum hvíta minni hlutans. Þeir bjuggu við miklu þrengri kost en hvíta yfirstéttin, svo sem í menntamálum. Þeir risu upp við og við gegn kúgurum sínum, til dæmis 1976, þegar þúsundir barna í Soweto, svertingjahverfinu utan við Jóhannesarborg, þyrptust út á göturnar til að biðja um kennslu á ensku frekar en afríkans, máli hvíta minni hlutans. Lögreglan brást við með skothríð; mörg barnanna voru skotin í bakið. Fréttir og myndir af þessum atburði fóru eins og eldur í sinu um allan heim og opnuðu augu margra hvítra Suður-Afríkubúa fyrir rangsleitni aðskilnaðarstefnunnar. Örlög aðskilnaðarstefnunnar voru ráðin. Það var þó ekki fyrr en sextán árum síðar, að kjósendur í Suður-Afríku – aðeins hvíti minni hlutinn hafði atkvæðisrétt! – ákváðu að veita svarta meiri hlutanum óskoruð mannréttindi. Úrslit atkvæðagreiðslunnar voru skýr: 70 prósent hvítra kusu að hverfa frá aðskilnaðarstefnunni. Hin 30 prósentin óttuðust, að lýðræðislega kjörin stjórn Afríska þjóðarráðsins, flokks blökkumanna undir forustu Nelsons Mandela, myndi keyra landið í kaf. Mandela var kjörinn forseti Suður-Afríku 1994 og boðaði frið og fyrirgefningu.

Óttinn við upplausn í landinu reyndist ástæðulaus. Suður-Afríku vegnar nú að ýmsu leyti vel þrátt fyrir mikla erfiðleika. Meðaltekjur á mann í Suður-Afríku eru sex sinnum meiri en í Svörtu Afríku eins og Suður-Afríkubúar kalla álfuna enn. Öll börn í Suður-Afríku ganga í grunnskóla á móti 92 prósentum í Afríku í heild. Framhaldsskóla sækja 93 prósent af öllum unglingum í Suður-Afríku á móti 30 prósentum í Afríku allri. Það er framför frá fyrri tíð. Meðalævin í Suður-Afríku hefur þó stytzt úr 62 árum 1990 í 48 ár nú af völdum eyðniveirunnar, sem hefur lagzt á næstum fimmtung fullorðinna Suður-Afríkubúa. Við þetta bætist meiri ójöfnuður í skiptingu auðs og tekna en þekkist annars staðar um heiminn með fáum undantekningum, þar á meðal eru grannlöndin Botsvana og Namibía. Glæpir eru tíðir svo sem við er að búast, þegar ójöfnuður keyrir um þverbak og meðfylgjandi fátækt meðal láglaunafólks og atvinnuleysingja. Fjórði hver maður er atvinnulaus. Tíu milljónir nýbúa hafa streymt til Suður-Afríku undangengin ár, þar af þrjár milljónir á flótta undan óðaverðbólgu og öðrum hörmungum, sem Róbert Múgabe, forseti Simbabve, hefur kallað yfir land sitt. Fimmti hver íbúi Suður-Afríku er ólöglegur innflytjandi. Spennan í landinu stafar ekki nema að litlu leyti af ósætti milli hvítra og svartra. Meira næst.