DV
24. ágú, 2012

Sögulegar hliðstæður

Staða stjórnarskrármálsins nú er býsna lík stöðu sama máls í Bandaríkjum 1787-1788. Hliðstæðurnar ættu ekki að þurfa að koma neinum á óvart, þar eð þær liggja öðrum þræði í hlutarins eðli.

Það tók stjórnlagaþingið í Fíladelfíu fjóra mánuði að semja frumvarp til nýrrar stjórnarskrár, sama tíma og Stjórnlagaráði var skammtaður til að semja frumvarp sitt til nýrrar stjórnarskrár í fyrra. Hér er þó ólíku saman að jafna að því leyti, að Stjórnlagaráð stóð á öxlum stjórnarskrárnefnda Alþingis frá fyrri tíð og gat nýtt sér vinnu þeirra og einnig vinnu stjórnlaganefndar, sem lagði vandaða skýrslu fyrir Stjórnlagaráð með ýmsum góðum og nýtilegum hugmyndum. Fulltrúarnir á stjórnlagaþinginu í Fíladelfíu 1787 (55 fulltrúar frá þeim tólf fylkjum, sem tilnefndu fulltrúa til setu á þinginu) þurftu að semja sitt frumvarp frá grunni. En þeir gerþekktu margir helztu fræðirit Evrópumanna um stjórnlög og skrifuðu sumir mikið um málið handa almenningi. Meðal fræðirita munaði mest um rit Montesquieus Andi laganna (1748), en þar var lagður grunnurinn að þeirri skipan, sem stjórnarskrá Bandaríkjanna hvílir á með þrígreiningu valds í fyrirrúmi.

Frumvarp stjórnlagaþingsins í Fíladelfíu var sett í atkvæðagreiðslur í fylkjunum þrettán innan árs eða svo frá því að stjórnlagaþingið afhenti Bandaríkjaþingi fullbúið frumvarp til nýrrar stjórnarskrár haustið 1787. Miklar umræður áttu sér stað í landinu um stjórnmál og stjórnskipun eftir lok stjórnlagaþingsins 1787 fram að atkvæðagreiðslunum 1788-1790. Einkum var deilt um verkaskiptingu alríkisstjórnarinnar og fylkjanna þrettán. Andstæðingar frumvarpsins (fylkissinnar) töldu, að alríkisstjórninni væru færð of mikil völd á kostnað fylkjanna. Stuðningsmenn frumvarpsins (sambandssinnar) töldu, að alríkisstjórnin þyrfti að hafa næg völd til að tryggja, að Bandaríkin héldu velli sem ein heild. Þetta var landamæradeila: Hvar átti að draga mörkin milli þessara tveggja sjónarmiða? Málið er ekki enn að fullu útkljáð. Deilur um verkaskiptingu alríkisstjórnarinnar og fylkjanna koma iðulega til kasta bandarískra dómstóla enn um okkar daga.

Bandaríkjaþing ákvað að vísa frumvarpi stjórnlagaþingsins í Fíladelfíu til fylkjanna þrettán til samþykktar eða synjunar. Stjórnlagaþingið hafði kveðið á um, að samþykkt frumvarpsins í níu fylkjum dygði til að frumvarpið tæki gildi sem stjórnarskrá landsins alls. Bandaríkjaþing féllst á þá tilhögun. Sumir töldu, að þingið þyrfti fyrst sjálft að samþykkja frumvarpið, en þeirri skoðun var hafnað í þinginu. Stjórnlagaþingið (með skipuðum fulltrúm, ekki kjörnum) hafði samið frumvarpið, og Bandaríkjaþing taldi ekki viðeigandi að fjalla efnislega um frumvarpið, hvað þá breyta því, það gætu fylkin ein gert. Sumir töldu, að með því að taka ekki efnislega afstöðu til frumvarpsins væri þingið að lýsa samþykki sínu, þar eð þögn væri sama og samþykki. Aðrir litu svo á, að með því að samþykkja ekki frumvarpið væri þingið í reyndinni að lýsa andstöðu sinni.

Fylkin þrettán fólu ýmist lögþingum sínum að afgreiða frumvarpið eða sérþingum, þar sem sérkjörnir fulltrúar sátu ásamt þingmönnum. Delaware, New Jersey og Georgía samþykktu frumvarpið einróma fyrir árslok 1787, og Pennsylvanía samþykkti frumvarpið um svipað leyti 46:23. Í ársbyrjun 1788 samþykkti Connecticut frumvarpið 128:40 og Massachusetts 187:168. Næst samþykkti Maryland frumvarpið 63:11 og Suður-Karólína 149:73. Um mitt ár 1788 samþykkti New Hampshire, níunda fylkið af þrettán, frumvarpið 57:47. Frumvarpið var í höfn níu mánuðum eftir að stjórnlagaþingið skilaði því af sér til Bandaríkjaþings. Skömmu síðar samþykkti Virginía, fjölmennasta fylkið, frumvarpið 89:79 og New York 30:27. Norður-Karólína hafnaði frumvarpinu 184:83, en það breytti engu um niðurstöðuna. Rhode Island, þrettánda fylkið, samþykkti frumvarpið 43:32, þótt frumvarpinu hefði verið hafnað með 2708 atkvæðum gegn 237 í almennri atkvæðagreiðslu þar. Í þessum tölum felst, að hefðu tuttugu manns í viðbót lagzt gegn frumvarpinu (sex í New Hampshire, sex í Virgínu, tveir í New York og sex í Rhode Island) hefði frumvarpið að öðru jöfnu ekki náð fram að ganga. Samþykkt bandarísku stjórnarskrárinnar var enginn dans á rósum, en lýðræðið bar sigur úr býtum. Megi lýðræðið einnig sigra hér heima.

Í fyrsta sinn býðst kjósendum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um frumvarp Stjórnlagaráðs 20. október n.k. að kjósa á jafnréttisgrundvelli um stórpólitísk mál, m.a. um jafnt vægi atkvæða, beint lýðræði og auðlindir í þjóðareigu. Þjóðin fékk ekki að kjósa um Keflavíkursamninginn 1946, ekki um inngönguna í Nató 1949 og ekki heldur t.d. um aðild að ESB 1994 eða síðar. Í þjóðaratkvæðagreiðslu er landið eitt kjördæmi. Þar sitjum við öll við sama borð. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst á morgun. Kjósum snemma. Nýtum færið. Leyfum lýðræðinu að blómstra.