Fréttablaðið
8. feb, 2007

Smjörklípan og andrúmsloft dauðans

Morgunblaðið birti eftirminnilegt Reykjavíkurbréf 25. júní 2006. Þar sagði meðal annars: ,,Í of langan tíma hefur vont andrúmsloft heiftar og hefndar ráðið ferðinni í þjóðfélagsumræðum.“ Þessum orðum fylgdi nærfærin lýsing blaðsins á skipulegum rógsherferðum, sem er að rússneskri fyrirmynd ætlað að útskúfa óþægilegum andstæðingum og taka þá þannig nánast af lífi. Mogginn kallaði þetta ,,andrúmsloft dauðans.“ Hvert orð virtist satt og rétt. Það sætir því nokkurri furðu, að Morgunblaðið skyldi síðan fella þetta tal eins og hendi væri veifað og gleyma öllu saman. Hér er ekkert smámál til umræðu, heldur mál, sem þarfnast vandlegrar skoðunar í samhengi við þróun samfélagsins og sögu annarra landa. Þegar andrúmsloftið þrútnar eða vondir mannasiðir ryðja sér til rúms, gerist það yfirleitt ekki fyrir einskæra tilviljun eins og skæð pest hafi skotið sér niður. Nei, skýringarinnar er yfirleitt að leita í sameiginlegu umhverfi okkar allra. Það er því varla vænlegt að lýsa eftir betra andrúmslofti og betri mannasiðum, heldur þarf að ráðast gegn rótum vandans. Þá fyrst er von til þess, að mönnum verði léttara um andardrátt og mannasiðirnir skáni.

Prófessor Paul Krugman gerir þessu efni góð skil í dálki sínum í New York Times fyrir nokkru. Þar lýsir hann því, hvernig aukinn ójöfnuður í Bandaríkjunum undangengin ár hefur slitið sundur friðinn þar vestra. Ört breikkandi gjá skilur að venjulegt fólk og auðmenn, sem hefur tekizt, meðal annars fyrir tilstilli stjórnvalda, að segja sig úr lögum við lífskjör fjöldans. Við þetta skapast þörf hins vel stæða, fámenna minni hluta fyrir að verja nýfenginn auð og forréttindi með kjafti og klóm. Þá grípa menn og málpípur til þess ráðs að ófrægja andstæðingana til að dreifa athyglinni frá óvinsælum málstað forréttindastéttarinnar. Morgunblaðið lýsti þessu vel í Reykjavíkurbréfinu.

Vandinn er ekki nýr í Bandaríkjunum, heldur er hann afturhvarf til fyrri tíðar eftir því gamla lögmáli, að sagan endurtekur sig, ef menn hirða ekki um að læra af henni. Árin fyrir kreppuna miklu myndaðist djúp gjá milli almennings og auðmanna í Bandaríkjunum. Halldór Laxness lýsti ástandinu vestra vel í Alþýðubókinni 1929. Repúblikanaflokkurinn var þá eins og nú samheldinn flokkur auðmanna, en Demókrataflokkurinn var sundurleitur og losaralegur flokkur alþýðunnar. Samheldni, gott skipulag og fullar fjárhirzlur gerðu repúblikönum kleift að ráða því, sem þeir vildu ráða. Þeir sátu í Hvíta húsinu 1921-1933, þótt demókratar stæðu trúlega nær öllum þorra almennings. Svo fór, að demókratinn Franklin D. Roosevelt bauð auðjöfrunum byrginn, náði forsetakjöri 1932 og tók upp almannatryggingar, atvinnuleysisbætur og tekjujöfnun í gegnum skattkerfið gegn harðri andstöðu repúblikana. Það er vert að rifja upp sumar ræður Roosevelts frá þessum tíma. Þessi glefsa er úr einni ræðu hans frá 1936: ,,Við þurfum að berjast við gamla óvini friðarins: einokun í viðskiptum og fjármálum, brask, bankaglæfra, stéttaúlfúð, flokkadrætti og stríðsmang. … Aldrei í sögu landsins hafa þessi öfl staðið svo þétt saman gegn einum frambjóðanda sem þau standa nú. Þau eru einhuga um hatur sitt á mér – og ég fagna hatri þeirra.“

Roosevelt gersigraði andstæðinga sína fjórum sinnum og gerbreytti ásjónu bandarísks samfélags. Hann lagði grunninn að mannréttindalöggjöfinni, sem náði fram að ganga 1964 í forsetatíð Lyndons Johnson. Síðustu ár hafa markað skipulegt brotthvarf frá þessari þróun. Ójöfnuður í skiptingu auðs og tekna hefur ágerzt til muna, og repúblikanar hafa á ný tekið að sér að gæta hagsmuna auðstéttarinnar gegn almenningi. Þetta hefur ríkisstjórn Bush forseta með þingið að bakhjarli gert með því að snúast gegn arfleifð Roosevelts í hverju málinu á eftir öðru, meðal annars með því að lækka skatta á tekjum og eignum auðmanna langt umfram aðra skattgreiðendur og gæla við einkavæðingu almannatrygginga. Og hvað gera menn, sem hafa svo vafasaman málstað að verja? – og hafa vel skipulagðan flokk að baki sér og fullar hendur fjár. Þeir ata andstæðingana auri, en slíkur málflutningur kallast ,,smear tactics“ á ensku. Það mun þó vera einsdæmi í stjórnmálasögu heimsins, að stjórnmálaforingi, sem beitir slíkum ,,smear tactics“, hreyki sér af því háttalagi á opinberum vettvangi og leggi jafnvel á sig að þýða orðasambandið yfir á móðurmál sitt (smjörklípuaðferð). Það má hann eiga, að þýðingin er góð og lýsandi. Þessi sérstæða játning afhjúpar skyldleika sums af því, sem sett hefur æ ríkari svip á íslenzkt samfélag síðustu ár, við það fargan, sem ríkt hefur í Bandaríkjunum í stjórnartíð Bush forseta.