Smáa letrið
Lífskjaraskýrsla Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem ég lýsti hér fyrir viku, vakti athygli um allan heim. Hún er stútfull af fróðleik. Ýmislegt í skýrslunni kemur á óvart, til dæmis það, að í 51. sæti listans um búsælustu lönd heimsins á mælikvarða Sameinuðu þjóðanna er – þetta hefðir þú aldrei getað gizkað á! – Kúba. Já, Kúba. Af þeim 177 löndum, sem skýrslan tekur til, eru 50 lönd hærra skráð en Kúba á búsældarkvarðann og 126 eru lægra skráð. Staða Kúbu á listanum ræðst af því, að Kúbverjar lifa nú að jafnaði aðeins tíu vikum skemur en Bandaríkjamenn, búa við almennt læsi líkt og þeir og senda svipað hlutfall af hverjum árgangi æskufólks í grunnskóla og framhaldsskóla og Bandaríkjamenn, fullt hús þar líka. Þetta dugir til að fleyta Kúbu upp í 51. sæti þrátt fyrir á að gizka sjöfaldan mun á kaupmætti þjóðartekna á mann í Bandaríkjunum og á Kúbu.
Ekki nóg með það: munurinn á búsældarvísitölu Bandaríkjanna og Kúbu er aðeins þrettán prósent. Getur það verið rétt mæling á lífskjaramuninum á löndunum tveim? Nei, munurinn er auðvitað miklu meiri en svo. Lífskjaravísitölunni er ætlað að leyfa góðri lýðheilsu og menntun að lyfta löndum upp fyrir þá stöðu á listanum, sem kaupmáttur tekna á mann myndi skipa þeim í án tillits til langlífis og skólagöngu, og draga niður eftir listanum þau lönd, sem hafa slegið slöku við heilbrigðis- og menntamál. Búsældarmunurinn á Bandaríkjunum og Kúbu er vísast miklu nær því að vera sjöfaldur en þrettán prósent. Ef kaupmáttur þjóðartekna á mann væri hafður til marks einn sér, væru Bandaríkin í öðru sæti listans á eftir Lúxemborg, og Kúba skipaði 93. sætið, en þá væri munurinn á Kananum og Kúbverjum ýktur Bandaríkjunum í vil. Listin er að rata meðalveginn.
Kjarasamanburðurinn á Kúbu og Bandaríkjunum er merkilegur í sögulegu samhengi. Þegar Fídel Kastró og félagar tóku völdin á Kúbu 1959, gat nýfætt barn þar vænzt þess að ná 64 ára aldri á móti 70 árum í Bandaríkjunum og 73 árum á Íslandi. Þennan langlífishalla tókst kommunum á Kúbu að jafna á röskum áratug: frá 1972 hefur Kaninn haft aðeins um þriggja mánaða forskot á Kúbverja. En við? Það er saga að segja frá því. Þegar föðurafi minn fæddist 1867, gat hann vænzt þess að verða þrítugur. Fjórða hvert íslenzkt barn á hans reki dó á fyrsta aldursári, og aðeins röskur helmingur þeirra var ennþá uppi standandi við fimmtán ára aldur. Ísland var þá verr á vegi statt á mælikvarða barnadauða og langlífis en öll nema allra fátækustu lönd heimsins eru nú. Við upphaf nútímans um aldamótin 1900 hafði ástandið skánað, en samt dó þá eitt af hverjum átta börnum á fyrsta ári og eitt af hverjum fimm fyrir fimmtán ára afmælið. Ísland var Afríka, og það er nýliðin tíð. Þessi staðreynd ætti að vekja vonir um betri tíð í brjóstum fátækra þjóða og ætti einnig að minna okkur hin á að ganga hægt um gleðinnar dyr og gleyma ekki uppruna okkar.
Læsi var orðið að almenningseign á Íslandi um 1900 borið saman við 60 prósent fullorðinslæsi í Afríku nú. Hér skilur milli feigs og ófeigs. Almennt læsi gerði okkur kleift að nota heimastjórn, fullveldi og sjálfstæði til að stökkva inn í nútímann. Kannski var læsið í sjálfu sér ekki lykillinn að lífskjarabyltingunni hér, heldur hitt, að almennt læsi bar vitni um aga, löghlýðni og skilvirka stjórnsýslu. Það var skylt að kenna börnum að lesa, skyldan var háð eftirliti, og hún var virt.
Búsældarskýrsla Sameinuðu þjóðanna er hafsjór af upplýsingum um ýmsa þætti, sem orka á lífskjör almennings, þótt ekki sé rúm fyrir þá í vísitölunni. Atvinnuleysi hefur óvíða verið minna en hér nema á Kúbu, í Hvíta-Rússlandi (það er líklega ólöglegt þar ennþá) og fáeinum öðrum löndum. Mannsmorð eru einnig óvíða færri en á Íslandi miðað við fólksfjölda nema í Austurríki, Danmörku, Noregi, Japan, Hong Kong og Singapúr auk Írlands og flestra Arabaríkja. Fangar eru mun færri á Íslandi en í nokkru öðru iðnríki, jafnvel í Japan, þótt þar séu framin helmingi færri morð en hér heima miðað við mannfjölda. Íslendingar afnámu dauðarefsingu 1928, mörgum áratugum á undan Svíum (1972), Dönum (1978) og Norðmönnum (1979). Síðasta aftakan hér fór fram 1830. Aðeins eitt iðnríki utan Asíu heldur áfram að beita dauðarefsingu, Bandaríkin. Rússar hættu að beita dauðarefsingu 1999, en Kúbverjar ríghalda í hana líkt og Kaninn, og Kínverjar. Íslendingar hafa á að skipa fleiri læknum á mann en allir aðrir nema Belgar, Ítalar og Grikkir auk Kúbverja, Eista, Rússa og nokkurra annarra austrænna þjóða, sem reykja flestar miklu meira en við samkvæmt skýrslunni góðu, læknarnir líka. Allt þetta lyftir okkur upp, og margt annað. Gott.